Yfir á rauðu

eftir Kristófer Már Maronsson

Hver kannast ekki við það að vera að keyra í lítilli traffík, hlusta á Harmageddon og Frosti er að lesa upp skrítnar athugasemdir úr kommentakerfi Vísis. Umferðarljósin eru ekki nægilega vel samverkandi, svo þú endar á því að hægja á þér og stöðva á rauðu ljósi á leið til hægri. Frosti er hættur að leika virkan í athugasemdum og er byrjaður að hneykslast á því að þjóðkirkjan sé enn á fjárlögum. Ekki nokkur bíll á stjá, en þú bíður með blikkandi stefnuljósið, til hægri.

Þetta eru algeng vandamál, bæði skrítnar athugasemdir í kommentakerfunum og að sitja fastur á rauðu ljósi á leið til hægri, en það er auðvelt að leysa það síðara. Fjölmörg ríki leyfa hægri beygju á rauðu ljósi, ef ekkert er því til fyrirstöðu. Við Íslendingar ættum að taka okkur þetta til fyrirmyndar, það eru ótal gatnamót þar sem hægt er að taka hægri beygju þrátt fyrir rautt ljós án þess að nokkur hætta sé á ferðinni. Hver hefur ekki komist að þeirri niðurstöðu hvorteðer og látið vaða?

Sem mikill umhverfissinni og andstöðumaður tímasóunar, þá játa ég brot mitt. Brot mín. Samviskan segir mér þó að ég hafi gert hið rétta.

Þó ég láti það kannski líta þannig út, þá get ég ekki réttilega fullyrt að þetta sé bannað alls staðar á Íslandi. Á örfáum tvíbreiðum T-gatnamótum má finna svokölluð hægri ljós þegar almennt er rautt. Það er mismunandi milli staða í heiminum hvernig reglurnar eru. Sumstaðar er alltaf leyfilegt að fara til hægri á rauðu, nema skilti banni það sérstaklega. Annarsstaðar eru sérstök skilti sem leyfa það. Það gefur einnig augaleið að nauðsynlegt er að vera á hægri akrein til þess að taka slíka beygju, að því gefnu að hægri umferð sé í landinu.

Eðli málsins samkvæmt er ökumaður sem fer yfir á rauðu ljósi alltaf í órétti komi eitthvað uppá, en það er hans að passa upp á að enginn sé að koma inn í hliðina á honum og að einhver þurfi að hægja á sér taki hann hægri beygju á rauðu. Því er yfirleitt nauðsynlegt að stöðva bílinn alveg, áður en maður keyrir upp adrenalínið og fer yfir á rauðu.

Umhverfissinnar ættu að taka vel í þessar breytingartillögu, ég veit ekki betur en að meirihluti Alþingis falli í þann flokk og sé ég því ekki margt til fyrirstöðu annað en að einhver ríði á vaðið og hendi saman frumvarpi. Kannski að einhver umhverfissinnaður lögfræðingur geti jafnvel klárað málið fyrir Alþingi. Ég hlakka til að fá kynningarherferðina frá Samgöngustofu. Ég ætla spá því að þetta verði bras fyrst um sinn, en áður en við vitum af þá man enginn eftir því þegar bannað var að taka hægri beygju á rauðu ljósi við öruggar aðstæður. Hverskonar vitleysa væri það nú eiginlega?

Það sem birtist hér að ofan eru persónulegar skoðanir höfundar en endurspegla ekki skoðanir vinnuveitanda hans né annarra 

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.