WOW-tryggingafélagið Isavia

eftir Arnór Bragi Elvarsson

WOW Air skilur ef til vill eftir sig margar góðar minningar uppi í háloftunum en annars staðar sviðna jörð. Fyrir utan skemmtilegheit í kallkerfinu fyrir brottför eða hve naskur forstjóri félagsins var að koma sér í fréttir fyrir stórar yfirlýsingar, þá veitti WOW Air íslendingum tækifæri til að ferðast erlendis fyrir mun lægra verð en áður þekktist. Aldrei hefur flug reynst jafn aðgengilegt og akkúrat þá og þetta gerði WOW með því að lágmarka rekstrarkostnað félagsins.

Sem vonandi gerir það að verkum að við getum boðið þér frítt flugsæti.

Yfirlýsing fyrrum forstjóra WOW Air að ætla að greiða farþegum fyrir að fljúga með félaginu eldist ekki sérlega vel. Sérstaklega í ljósi þess að aðilar á flugmarkaði höfðu lengi vel bent á að WOW væri að selja miða á undir kostnaðarverði. Skúli hafði þó unnið hug og hjörtu fólks með því að setja upp þá skökku mynd að fólk gæti flogið jafn ódýrt og miðaverð gáfu til kynna. Sigmundur Davíð sýndi það vel árið 2013 að leiðin að hjörtum fólks er að lofa einhverju ókeypis. 

En við féllum fyrir því

Við lestur bókar Stefáns Einars Stefánssonar um ris og fall flugfélagsins kemur margt áhugavert í ljós. Í bókinni kemur fram að helstu mistökin sem urðu WOW að falli hafi verið innleiðing breiðþotna í flotann, sem ekki gátu staðið undir sér, sér í lagi vegna slæmrar lausafjárstöðu fyrir afhendingu þeirra. Allt starfsfólk WOW, frá forstjóra til flugfreyja, vann að því með heilindum og af öllum krafti að halda flugfélaginu gangandi. Félagið tók samt of stóran bita, og vitaskuld var sagan of góð til að vera sönn.

WOW air varð gjaldþrota, Icelandair hækkaði verðin sín, og það er ekki lengur jafn ódýrt að komast til og frá Íslandi. Ævintýrið er búið. Eða hvað?

Nýtt upphaf?

Skúli hefur gefið það út að hann vilji byggja WOW upp á nýtt á grunni gamla félagsins en nú virðast fleiri aðilar einnig ætla að bítast um það sem eftir er af félaginu í þrotabúi þess. Í raun væri það frábært fyrir samkeppni á íslenskum flugmarkaði að nýtt flugfélag taki til starfa, en þó er ein megin forsenda fyrir því að slík samkeppni væri sanngjörn: Nýtt flugfélag má ekki njóta þess að rekstur þess sé tryggður af ríkinu með nokkru leiti.


Líkt og með Leiðréttinguna frægu, endar skattgreiðandinn á því að borga brúsann.

Þegar WOW var í miðju skuldabréfaútboði til að endurfjármagna reksturinn kom í ljós að félagið skuldaði á annan milljarð til ISAVIA. Við gjaldþrot stóð sú skuld í tveimur milljörðum króna. Það er álíka mikið og tap félagsins var árið 2017. Má því segja að íslenska ríkið hafi veitt félaginu líflínu á kostnað skattgreiðenda. Sem tryggingu fyrir slíkri greiðslu hafði ISAVIA heimild til að kyrrsetja þotur úr flota WOW air, en maður spyr sig hvort ekki þurfi að hugsa sér betri leiðir til að innheimta reikninga.

Lært af reynslunni

Þann 26. mars, tveimur dögum fyrir gjaldþrot félagsins, reyndi stjórn WOW að losa um kyrrsetningarheimild á þotum félagsins með því að fá fjármálaráðuneytið til að grípa inn í. Ríkisvaldið hefur séð hvað í stefndi og vildi ekki skipta sér af enn frekar. Þó ríkið ætti veika von um að endurheimta milljarðina tvo, þá ætlaði ráðuneytið ekki að kasta þeirri von algjörlega á glæ.

Það er hættulegt að fyrirtæki í samkeppnisrekstri fái stuðning frá ríkinu þó að vá steðji að – sérstaklega ef sá stuðningur nemur tapi félagsins á heilu ári. Því á endanum, líkt og með Leiðréttinguna frægu, endar skattgreiðandinn á því að borga brúsann.

Arnór Bragi Elvarsson

Pistlahöfundur

Arnór Bragi er samgönguverkfræðingur með áhuga á sjálfakandi bifreiðum og innviðum.

Arnór hefur óþarflega mikinn áhuga á kaffigerð.