Vond ákvörðun

eftir Ritstjórn

Eftirlitsstofnanir eru oft nauðsynlegar en svo virðist sem þær íslensku séu frekar dragbítur á íslenskt efnahagslíf jafnt sem neytendur. Margar sögur eru af því að veitingahús standi tilbúin vikum, ef ekki mánuðum, saman að bíða eftir öllum nauðsynlegum úttektum svo þau megi opna. Kísilver United Silicon í Helguvík var hreinlega að eitra fyrir íbúum í grennd á vakt Umhverfisstofnunnar og öll þekkjum við Brúneggjamálið.

Nýjasta dæmið er Samkeppniseftirlitið. Stofnunin ógilti samruna Haga og Lyfju fyrr í vikunni og eru aðferðarfræði eftirlitsins og rökstuðningurinn fyrir ákvörðuninni í besta falli ámælisverð. Slíkt er hvorki efnahagslífinu né neytendum til hagsbóta. Í þokkabót var um að ræða afar stórt mál og ákvörðunin sendir því sterk skilaboð til fyrirtækja um hvernig eftirlitið muni horfa til sambærilegra mála í framtíðinni.

Ákvörðunin er sérstaklega byggð á sameinuðum styrk fyrirtækjanna á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði. Slíkt fer alfarið eftir skilgreiningu stofnunarinnar á markaðinum, þ.e. hvaða fyrirtæki keppa á honum. Sérstaklega tók eftirlitið fyrir svokallaðar „sér“ hreinlætis- og snyrtivörur, eins og rakspíra og þess háttar. Þar hefði sameinuð samsteypa fyrirtækjanna verið of sterk að mati eftirlitsins.

Til að bregðast við þessu buðust Hagar til þess að hætta að selja „sér“ hreinlætis- og snyrtivörur í Lyfju. Svar eftirlitsins við þeirri tillögu er hlægileg. Segir m.a. í ákvörðuninni:

„Afleiðingar tillögunnar eru fyrst og fremst þær að framboð af „sér“ snyrti- og hreinlætisvörum verður takmarkað á sama tíma og einn mikilvægur keppinautur hættir starfsemi á þeim markaði. Leiði það, að öllu öðru óbreyttu, til hærra verðs en ella.“ [Feitletrun ritstjórnar]

Það þarf ekki hagfræðigráðu til þess að átta sig á því að minna framboð myndi leiða til hærra verðs. Það ætti heldur ekki að þurfa slíka gráðu til að sjá að aðrir aðilar myndu sjá sér leik á borði og byrja sjálfir að selja þessar vörur. Hvað myndi koma í veg fyrir að Krónan, Nettó og aðrar búðir myndu byrja að selja ilmvötn ef Lyfja, sem er greinilega stór aðili á þeim markaði, myndi hætta? Það er ekki hægt að segja „að öllu öðru óbreyttu“ í þessu samhengi.

Markaðsskilgreiningin er líka ámælisverð. Til að mynda telur Samkeppniseftirlitið ríkisverslunina Fríhöfnin, sem er laus við að skattleggja vörur sínar og einnig fyrsta verslunin sem hver einasti einstaklingur sem flýgur til Íslands sér, ekki vera í samkeppni á umræddum markaði. Þá telur eftirlitið að netverslun, sem neytendur nýta sér í síauknum mæli og mun sú þróun bara aukast, sé ekki að keppa við Haga og Lyfju heldur.

Óvissu-spennitreyjan sem eftirlitið heldur fyrirtækjum í á meðan samrunamál eru til skoðunar er einnig óafsakanleg. Ákvörðunin tók átta mánuði og á meðan hafa fyrirtækin átt erfitt með að gera framtíðarplön. Á sama tíma hafa samkeppnisaðilar þeirra einnig lifað í óvissu, ásamt því að fá tækifæri og tíma til að bregðast við.

Ef markaður ,,sér” hreinlætis- og snyrtivara var aðalástæða þess að Samkeppniseftirlitið gat ekki leyft samrunann, er með ólíkindum að ekki var staðið betur að vinnunni og rökstuðningnum. Sér í lagi þegar ákvörðunin tók átta mánuði.

Samkeppniseftirlitið vill ekki sjá aukna hagkvæmni íslenskra fyrirtækja og hægir mikið á hjólum efnahagslífsins. Þessir þættir eru báðir til þess að hækka verð til neytenda og veikja stöðu fyrirtækjanna gagnvart erlendum risum, sem eru í síauknum mæli að færa út anga sína um allan heim.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.