„Vive la France“

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Árið 2017 var merkilegt fyrir ýmsar sakir í íslenskum sjávarútvegi. Ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að í fyrsta sinn frá því a.m.k. árið 1999 var Bretland ekki á toppnum þegar kom að verðmæti útflutnings á íslenskum þorskafurðum. Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofunni fyrir árið 2017 var verðmæti útflutnings á íslenskum þorskafurðum til Frakklands rúmlega 17 milljarðar íslenskra króna. Útflutningur á þorskafurðum til Bretlands var um einum milljarði minni – rúmlega 16 milljarðar íslenskra króna.

Minna magn – meiri verðmæti

Franski markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir hefur tekið miklum stakkaskiptum frá aldamótum. Árið 1999 fóru hátt í 38 þúsund tonn af sjávarafurðum til Frakklands, en um 33 þúsund tonn árið 2017. Þrátt fyrir samdrátt í magni þá hefur verðmætið aukist mikið. Árið 1999 nam verðmæti útflutnings á sjávarafurðum til Frakklands rúmlega 6 milljörðum króna en 2017 nam það tæplega 24 milljörðum króna, á verðlagi hvors árs. Ef miðað er við fast gengi evru, þá nam verðmætið um 82 milljónum evra árið 1999, en tæplega 197 milljónum evra árið 2017. Þá hefur vægi Frakklands í verðmæti heildarútflutnings Íslands á sjávarafurðum nærri því tvöfaldast á tímabilinu og er Frakkland nú næst stærsti markaður íslenskra sjávarafurða þegar litið er til útflutningsverðmæta.

Þegar skoðaðar eru punktstöður frá byrjun og upphafi tímabilsins má greina nánar breytingarnar frá árinu 1999 til 2017. Útflutningur á frystum afurðum hefur nærri því helmingast og útflutningur á söltuðum afurðum ásamt mjöli og lýsi hefur dregist saman um 90%. Aukning verðmæta í útflutningi til Frakklands grundvallast á ferskum afurðum, en á tímabilinu margfaldaðist útflutt magn af ferskum afurðum til Frakklands – það var rúm 1 þúsund tonn árið 1999 en 23 þúsund tonn árið 2017.

Brakandi ferskt

Einföld ástæða liggur að baki tilfærslu í útflutningi á ferskum afurðum; þær eru alla jafna verðmætari en frystar, saltaðar eða aðrar afurðir. Ef skoðaðar eru tölur frá Hagstofunni, má leiða út meðalverð á mismunandi afurðategundum.

Þannig má sjá að ferskar afurðir eru að jafnaði hátt í tvöfalt verðmætari en frystar og gott betur ef miðað er við saltaðar.[1] Þetta endurspeglast í þeirri staðreynd að útflutningur á ferskum fiskflökum hefur aukist jafnt og þétt. Slíkur útflutningur rúmlega tvöfaldaðist að verðgildi frá árinu 2008 til ársins 2016.

Verðmætin eru hlekkjuð í virðiskeðjunni

Nú kann einhver að spyrja: Ef það er svona miklu verðmætara, hvers vegna flytja Íslendingar ekki eingöngu út ferskar afurðir? Að einhverju leyti er það vegna þess að ferlið við útflutning á ferskum afurðum er margbrotið. Kaupendur krefjast þess að tíminn sem líður á milli þess að fiskur er dreginn úr sjó og þar til hann er kominn á disk neytanda sé mjög stuttur, gjarnan ekki lengri en þrír til fimm dagar hið mesta. Ferlið sem á sér stað í millitíðinni er háþróað, flókið og hefur snertifleti í mörgum mismunandi atvinnugreinum. Stöðugt er þó unnið að því að gera ferlana betri og segja má að aukinn útflutningur á ferskum fiski endurspegli stórstígar framfarir í sjávarútvegi og meðhöndlun á afla á umliðnum áratugum.

Tæknivæðing, hagræðing og aukin hagkvæmni hefur greitt leið þessarar starfssemi. Sífellt er fjárfest í nýjum skipum og tækjum til þess að bæta meðhöndlun aflans og fjárfestingar í vinnslutækni hafa skilað ævintýralegum framförum í vinnslugetu. Gæði afurða og markaðsstarf hefur svo gert fyrirtækjum kleift að komast inn á nýja og verðmætari markaði. Þá er enn ótalin ein mikilvægasta stoð íslensks sjávarútvegs: Samgöngur og flutningar. Á undanförnum áratugum hafa samgöngumannvirki og vegir landsins batnað mikið sem er að sjálfssögðu til þess fallið að auðvelda flutning á erlenda markaði. Flutningar sjóleiðis hafa alltaf verið mikilvægir, en útflutningur á ferskum fiski er gjarnan með skipi til Grimsby/Immingham-svæðisins, þar sem honum er umskipað og síðan ekið þaðan á markað, til dæmis í Frakklandi. Þá hafa flutningar með flugi verið í stöðugum vexti og eru þeir nú óaðskiljanlegur hluti aukins útflutnings á ferskum fiski. Rúmlega helmingur af ferskum fiskflökum er fluttur út með flugi.

Jarðvegur framfara

Framfarir í útflutningi á sjávarfangi hafa fyrst og fremst verið drifnar áfram af íslensku hugviti og atorkusemi. Hins vegar má ekki gleyma að jarðvegur framfara liggur í umgjörð sjávarútvegsins; fiskveiðistjórnunarkerfinu. Fiskveiðistjórnunarkerfið hvetur fyrst og fremst til hámörkunar á verðmæti sem fæst fyrir hvern fisk sem dreginn er úr sjó. Uppgangur þessara nýju og verðmætu markaða, líkt og þess franska, er aðeins ein birtingarmynd þessara framfara og þeirrar verðmætasköpunar sem átt hefur sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Mikilvægt er að vel sé hlúð að umgjörð sjávarútvegs, svo unnt séð að stuðla að enn frekari verðmætasköpun innanlands, Íslendingum til hagsbóta.

 

[1] Þegar búið er að undanskilja útflutning á ferskum heilum fiski sem ekki hefur verið unninn á neinn hátt.

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.