Vitlaus leikur í Frakklandi

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

„Mér er algjörlega misboðið! Þessi eigingirni í þér veldur mér miklum vonbrigðum. Þú ert ekki einn í þessu, veikindi þín hafa áhrif á alla fjölskylduna!“

Í mikilli geðshræringu lét ég þetta út úr mér í gegnum síma við fósturpabba minn þegar hann var á leiðinni út af spítalanum í Saint Etienne, gegn læknisráði. Það gæti hljómað eigingjarnt og ósérhlífið af mér en frönsku læknarnir töldu hann annað hvort vera með blóðsýkingu eða kransæðastíflu, hvort tveggja háalvarlegar sjúkdómsgreiningar sem gætu leitt hann til dauða á skammri stundu. Hver dæmir þessi viðbrögð fyrir sig, en ég sem dóttir hans og auk þess verðandi hjúkrunarfræðingur var sár og pirruð út í hann. Af hverju hlustaði hann ekki á mig?

Hann sagðist ekki trúa þessum frönsku læknum, vildi bara komast út af spítalanum. Taldi niðurstöður rannsóknanna sem hann hafði farið í vera rangar. Treysti hvorki mér né öðrum. Á þessum tímapunkti hafði ég hvorki séð nein gögn né niðurstöður rannsókna, en ég fann á mér að ástandið var alvarlegt. Ég grátbað hann um að gista eina nótt á franska spítalanum. Strax í fyrramálið gæti hann hringt í íslenska lækninn sinn. Hann haggaðist ekki. Sagðist frekar vilja sofa uppi á hótelherbergi og að hann hugðist hringja í lækninn sinn þegar hann vaknaði í fyrramálið.

Ef þú vaknar. Þú getur bara hringt í hann ef þú vaknar aftur“, bætti ég miskunnarlaust við. Hann sagðist ekki vilja hlusta á mig meir. Ég skildi það svosem, því þarna gekk ég líklega of langt.

Ég heyrði andvarp. Aumingja mamma. Aumingja litli bróðir.

Mig langaði til að öskra: „hlýddu mér bara **** fíflið þitt!“, því ég óttaðist verulega um líf hans, en ég dirfðist ekki. Spurði bara mömmu hvernig henni liði. Og litla bróður mínum. Ég sagðist óska þess að ég væri hjá þeim og að ég myndi heyra í þeim strax í fyrramálið.

 

***

 

Á franska plagginu, sem var undirritað af tveimur frönskum læknum, stóð skýrt að fósturpabbi minn hafði yfirgefið spítalann gegn þeirra vilja eftir að hafa verið upplýstur um alvarleika málsins. Ég skammast mín fyrir þessa hegðun hans. Hvernig getur maður með doktorspróf í verkfræði tekið svona heimskulega ákvörðun? Mér datt í hug að súrefnisskorturinn sem hann varð fyrir hefði e.t.v. valdið þessari vitleysishegðun. En þegar menn eru eins ákveðnir og þrjóskir og hann er erfitt að greina þar á milli.

„Eina ástæðan fyrir því að ég er enn á lífi er vegna þess að ég hef aldrei hlustað á, eða farið eftir því sem læknar eða annað heilbrigðisstarfsfólk segir mér að gera“, sagði hann á einhverjum tímapunkti í þessu samtali okkar. Mig langaði til að gleypa við þessari vitleysu en það þarf varla að koma neinum á óvart að honum fór hratt versnandi um nóttina. Var orðinn bjargarlaus, meðvitundarskertur og í bráðri lífshættu morguninn eftir.

Að lokum lét hann undan og var fluttur aftur á spítalann með sjúkrabíl eftir að tíu ára gamall sonur hans hafði gripið inn í leikinn af illri nauðsyn og sótt aðstoð.Það hafði einfaldlega reynst mömmu um megn að gera sig skiljanlega við þá sem svöruðu í neyðarnúmerið í Frakklandi þar sem viðmælendurnir töluðu eingöngu frönsku.

 

***

 

Mig langaði ekki til að deila þessum harmleik með neinum. En ég gat ekki hugsað mér að sleppa því, ef þessi pistill skyldi ná til einhvers sem er í svipuðum sporum og valda því að viðkomandi leitaði sér læknisaðstoðar.

Við vitum að karlar leita síður til læknis en konur. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Konur virðast skynja betur breytingar á eigin líkama. Þær eru þannig næmari fyrir einkennum og meðvitaðri um hugsanleg veikindi sem geta hrjáð þær. Þær virðast einnig vera betur upplýstar og eiga auðveldara með að leita sér aðstoðar. Að auki hafa þær oftar gott félagslegt net í kringum sig, ræða vanlíðan og veikindi sín á milli og gefa hvori annarri ráð. Einnig vegur þungt að það er félagslega viðurkennt að konur geti stundum verið viðkvæmar og veikar og að því fylgi engin skömm.

Það sama á ekki við um karlmenn. Af einhverri óskiljanlegri ástæðu þrjóskast þeir við að harka af sér og hundsa augljós merki um veikindi. Gera lítið úr slappleika sínum. Gera lítið úr læknavísindum. Verða svo ægilega sáttir með sig ef þeir ná að hrista slenið af sér. Alveg dæmigert. Hvort hegðun af þessu tagi stafar af ólíku uppeldi kynjanna eða hvort hún er körlum eðlislæg veit ég ekki, en líklegast er hún blanda af þessu tvennu. Menn í hjónabandi eða sambúð eru þó ekki alveg jafn „lost case“ því þeir leita oftar læknis en einhleypir karlmenn. Ein af skýringunum á þessu er fremur einföld: þeir fara annað hvort til læknis til að friða konuna sína eða vegna þess að konan neyðir þá til þess.

 

***

 

Ég vildi óska að fósturpabbi minn hefði farið til læknis um leið og hann fann að eitthvað var að. Þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir hversu hratt honum hrakaði. Þau hefðu jafnvel getað séð seinni leikinn. En draumaferðin á EM endaði með því að tryggingafélagið bókaði annað flug fyrir þau svo þau gætu komið fyrr heim. Þegar vélin lenti loksins í Keflavík hafði gleymst að panta hjólastól upp að farþegarýminu. Á meðan þau sátu og biðu eftir stólnum settist ein flugfreyjan við hliðina á litla bróðir mínum og reyndi að hefja við hann samræður: ,,Leiðinlegt að þið skylduð þurfa að bíða.. en var ekki gaman í útlöndum?”

Ég áfellist hana ekki fyrir að hafa óafvitandi stráð salti í sárin. Hún gerði sér augljóslega ekki grein fyrir því að veikindi hafa ekki síður áhrif á fjölskyldu þess veika en hann sjálfan. En hún er heldur ekki ein um að halda það. Ef þú hefur ekki dug í að fara til læknis fyrir sjálfan þig, í guðanna bænum viltu þá gera það fyrir einhvern sem þér þykir vænt um.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.