Vítahringur LÍN

eftir Gestahöfundur

Ég hef ekki hugmynd um hvort konan sem svaraði í símann hjá lánasjóðnum var ljóshærð eða lagleg en heiftina mátti glöggt greina í gegnum tólið. Hún sagði alltof háar tekjur, ekkert lán og aldrei get ég neitt keypt. Hvorki bíl eða mjólk o’ní barnið mitt, eða meiköpp eða keðjusagarblað. Ég lauk fyrsta ári í grunnnámi við Háskóla Íslands en eftir það leyfði ég hvunndagsraununum að fara langleiðina með að ríða mér á slig. Árshlé frá námi og stopp á vinnumarkaðnum varð niðurstaðan.

Aulinn ég gætti ekki að mér og fór yfir frítekjumarkið. Það er viss forsenda þess að stunda nám að maður dragi andann og til að draga andann þarf maður að borða mat. Matur kostar peninga og til að ná í aur þarf maður að vinna, eða líkt og það var orðað um árið, sitjandi krákur þær svelta. Ergo, til að eiga séns á að ljúka háskólanámi þarf ég að vinna á fullu samhliða því.

Ég afsaka hve ótrúlega sjálfhverfar fyrstu línurnar voru. Reynsla mín af LÍN er nefnilega bundin við mig og ég þekki ekki nógu vel hverju aðrir hafa lent í. Af samtölum við samnemendur sýnist mér það færast í aukana að fólk kjósi að vinna meðfram námi en ekki að reiða sig á lánasjóðinn. Fólk gerir það af ýmsum ástæðum. Sumir stefna að því að vera skuldlausir eftir nám, öðrum þykir sjóðurinn of stirður og enn aðrir hafa verið á námslánum en eru orðnir leiðir á því að þurfa að reikna hvort aukavaktin í febrúar komi í hausinn á þeim í annarlok.

Ég var svo lánsamur að LÍN tók þessa ákvörðun fyrir mig. Gleðin varð síðan tvöföld þegar ég þurfti að byrja að borga þeim til baka í miðju 100% námi. Já, þó Guð búi í gengishruni og gaddavírnum þá býr hann sannarlega ekki í LÍN.

Svo skal böl bæta

Lánasjóðurinn hefur það hlutverk samkvæmt lögum að tryggja öllum tækifæri til náms óháð efnahag. Það má deila um hve vel það hefur tekist. Svo árum skiptir hafa námsmenn landsins verið í besta falli missáttir með frammistöðu sjóðsins og kallað hefur verið eftir breytingum. Til að nefna örfáa hluti má nefna að frítekjumarkið verði hækkað, framfærslan greidd mánaðarlega en ekki í annarlok og lán vegna barna verði að styrk. Þá er ótalið að lengi hefur verið kallað eftir styrkjakerfi að norrænni fyrirmynd.

En kjörtímabil eftir kjörtímabil er stúdentum sagt að bíða átekta, það sé svo margt annað sem þarf að laga. Spítalinn okkar er að mygla ofan af sjúklingunum, ferðamenn kúka á þjóðargrafreitinn, heilbrigðisstarfsfólk er að íhuga að yfirgefa þetta sker og þjóðvegir landsins minna á Dresden í stríðslok. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað.

Ef maður ber sig eftir björginni þá bætir alvaldið því sem vantar upp á sagði skáldið eitt sinn. Mögulega tekur nýtt lánasjóðsfrumvarp mið af því mottói sem meðal annars er innbyggt í danska námslánakerfið.

Undanfarin tvö kjörtímabil hafa ný heildarlög um LÍN verið göldruð upp úr hatti korteri fyrir kjördag. Það hefur síðan horfið líkt og dögg fyrir sólu og námsmenn þurft að þreyja þorrann fram að næstu tilraun. Ný stjórn hefur boðað frumvarp um sjóðinn strax í haust og er það vel. Í það minnsta er ljóst að stúdentar eru orðnir leiðir á að bíða.

 

Jóhann Óli er faðir þriggja ára stráks og blaðamaður á Fréttablaðinu sem stundar laganám við Háskóla Íslands í hjáverkum. Hann var útgáfustjóri Vöku skólaárið 2016-17 og er einnig framkvæmdastjóri Úlfljóts, bóksölu laganema. Áhugamál hans eru heimspeki, skák, tónlist og podcöst.