Vinnumarkaðurinn: Vinnuveitendahreyfingin

eftir Tryggvi Másson

Eftir samantekt á samtökum launþegahreyfingarinnar er nú komið að vinnuveitendum. Samtök vinnuveitenda semja um kaup og kjör við samtök launþega fyrir hönd aðildarfyrirtækja sinna. Aðildarfyrirtæki veita þar sem þessum samtökum umboð til þess að semja fyrir sína hönd. Auk þess gæta þessi samtök hagsmuna aðildarfyrirtækja sinna með ýmsum hætti.

Líkt og hjá launþegum má skipta þessum samtökum í tvennt. Annars vegar eru það vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði og hins vegar eru það vinnuveitendur á opinberum vinnumarkaði.

Almennur vinnumarkaður:

Samtök atvinnulífsins (SA) eru heildarsamtök vinnuveitenda á almennum vinnumarkaði. Í SA eru yfir 2.000 aðildarfyrirtæki sem greiða yfir 70% af öllum launum greiddum á almenna vinnumarkaðnum. Fyrirtæki eru aðilar að SA í gegnum ýmis af 6 aðildarsamsamtökum félagsins, en þau eru:

 • Samtök orku og veitufyrirtækja (Samorka)
 • Samtök ferðaþjónustunnar (SAF)
 • Samtök fjármálafyrirtækja (SFF)
 • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS)
 • Samtök iðnaðarins (SI)
 • Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ)

Önnur félög atvinnurekenda:

 • Félag atvinnurekenda
 • Bændasamtök Íslands
 • Landssamband smábátaeigenda
 • Bílgreinasambandið
 • Meistarafélag hársnyrta
 • Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu

Opinber vinnumarkaður:

Fjármála- og efnahagsráðherra er í forsvari fyrir ríkissjóð við gerð og framkvæmd kjarasamninga fyrir hönd ríkissjóð. Ráðherrann skipar nefnd, Samninganefnd ríkisins, til þess að annast samningana fyrir sína hönd. Sú nefnd semur við samtök launafólks starfsmanna ríkisins um kaup þeirra og kjör.

Samband íslenskra sveitarfélaga eru heildarsamtök íslenskra sveitarfélaga. Sambandið er sameiginlegur málsvari sveitarfélaga og gætir hagsmuna þeirra út á við. Einnig sér sambandið um gerð kjarasamninga fyrir hönd þeirra aðildarsveitarfélaga sem veita því umboð sitt til þess.

Uppbygging samtaka vinnuveitenda er töluvert ólík samtaka launþega. Aðeins eru þrír stórir aðilar sem sjá um kjarasamningsgerð fyrir allan vinnumarkaðinn og uppbygging þeirra er töluvert einfaldari. Innan Samtaka iðnaðarins eru flest aðildarfélög en þau eru að stofni til meistarafélög verk- og iðngreina.

Fjölmargar athugasemdir hafa borist varðandi uppbyggingu launþegahreyfingarinnar sem er afar ánægjulegt og vinn ég nú að því að uppfæra þá mynd. Allar ábendingar varðandi uppbyggingu samtaka vinnuveitenda eru einnig vel þegnar.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.