Vinnumarkaðurinn: Launþegahreyfingin á opinberum vinnumarkaði

eftir Tryggvi Másson

Fyrir hið opinbera, ríki og sveitarfélag, starfar nær helmingur af öllum starfskrafti á vinnumarkaði. Á þessum vettvangi eru m.a. stærstu vinnustaðir landsins, Landspítalinn, Háskóli Íslands og Keflavíkurflugvöllur, en þar starfa mjög ólíkar stéttir saman sem þurfa að semja um kaup sín og kjör eins og aðrir. Líkt og á hinum almenna vinnumarkaði safnast starfsmenn hins opinbera saman í stéttarfélög og tilheyra þau flest ákveðnum bandalögum sem styðja þau í kjarasamningsviðræðum eða semja fyrir þau.

Þessi bandalög eru:

  • Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) er bandalag stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki og sveitarfélögum, en innan þeirra vébanda eru einnig stéttarfélög með aðila á almennum vinnumarkaði.
  • Bandalag háskólamanna (BHM), eru heildarsamtök háskólamenntaðs fólks á vinnumarkaði. Stór hluti þeirra stéttarfélaga sem eru hluti af bandalaginu tilheyra aðeins opinbera vinnumarkaðnum en einnig eru mörg sem tilheyra báðum og önnur þar sem aðilar eru aðeins á almennum vinnumarkaði.
  • Kennarasamband Íslands (KÍ), eru heildarsamtök allra sem starfa við kennslu, stjórnun eða ráðgjöf í skólum eða vinna við stofnanir og fyrirtæki sem sinna eða tengjast kennslu og fræðslumálum. Eins og gefur að skilja eru mörkin á almenna á opinbera vinnumarkaðnum einnig óskýr innan KÍ.

Hér á myndinni fyrir neðan má sá tilraun til þess að skýra uppbyggingu launþegahreyfingar opinbera vinnumarkaðarins. Líkt og fram hefur komið er ekki svo svart og hvítt hvaða stéttarfélög tilheyra hinum opinbera vinnumarkaði eða hinum almenna eða hvoru tveggja, svo myndin er birt með þeim fyrirvara. Þessi grein er önnur í röð pistla þar sem til stendur að útskýra uppbyggingu vinnumarkaðarins og þess sem þar gerist.

Fyrir tveimur vikum birtist fyrsti pistillinn þar sem launþegahreyfingin á almenna vinnumarkaðnum var tekin fyrir. Nú þegar búið er að taka saman opinbera vinnumarkaðinn ætti að nást ágæt heildarmynd yfir launþegahreyfingu vinnumarkaðarins, sem verður birt á næstu dögum. Fjöldi stéttarfélaga sem komið hafa við sögu í þessum tveimur pistlum er yfir 120 og það er ekki tæmandi listi yfir öll þau stéttarfélög sem starfa á Íslandi. Næst á dagskrá verður vinnumarkaðurinn frá sjónarhóli vinnuveitandans.

 

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.