Vinahóparnir á skólalóðinni

eftir Steinar Ingi Kolbeins

Undirritaður starfar í frístundageiranum og hefur gert það undanfarin ár samhliða námi í stjórnmálafræði. Einstaka sinnum hefur það komið upp að ég er beðinn um að útskýra málefni tengd náminu mínu fyrir skjólstæðingum mínum, sem eru á aldrinum 6 til 16 ára. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að útskýra fyrir þeim með tæknilegum fræðihugtökum og hef ég því verið gjarn á að nota myndlíkingar til þess
að setja hlutina í samhengi. Hér er því greining æskulýðsstarfsmanns á samsetningu þingsins, á „barna/unglinga máli“.
 
Ímyndum okkur skólalóð. Fremur hefðbundin bara. Sparkvöllur, rólur, kastali og átta vinahópar að leik. Hin þrálata nálgun fullorðna fólksins að allir eigi að vera vinir vegna þess að „þannig á það að vera“ á náttúrulega ekki við hér frekar en annars staðar. Skoðum því aðeins vinahópana á lóðinni. Bjarni er aðalgaurinn í „drulluspaðahópnum“. Þau eiga öll frekar flott föt og eru með töff hárgreiðslur. Þau fengu næstum því öll Iphone 11 í skóinn og eiga foreldra sem fara á gönguskíði í skrítnum búningum um helgar. Bjarni er alveg til í að leika við flesta, bara svona svo lengi sem að hann fær að stýra leiknum. Það má alveg einhver annar „vera hann“ í eina krónu en Bjarni vill samt fá að ákveða hvaða leikur er valinn. En þrátt fyrir að Bjarni vilji alveg leika við alla, þá vilja ekki allir leika við hann. Þorgerður og vinir hennar voru einu sinni í töffarahópnum með Bjarna, en fyrir nokkrum árum urðu þau mjög ósammála um hvort að Brussel væri meira kúl heldur en Reykjavík og þess vegna ákváðu Þorgerður og nokkrir aðrir að búa bara til nýjan vinahóp. Þau eru líka í töff fötum og eiga Iphone 11, en vilja samt alls ekki meina að þau séu eins og hinn töffarahópurinn. Þar af leiðandi vilja þau helst ekki leika mikið við Bjarna og hina töffarana af því að það væri hræsni, en það er samt ferlega erfitt fyrir þau að leika við hina af því að þau eru í grunninn „drulluspaðar“ eins og Bjarni
og félagar.

Siggi og Lilja eru leiðtogarnir í „sveitalubbahópnum“. Allir í þeim hóp eiga foreldra eða ömmur og afa sem eru utan af landi. Þau eru alltaf í lopapeysu og stígvélum í frímínútum og fá sér mikið slátur út á grjónagrautinn í hádegismatnum. Þau eru ekki að spá mikið í því að vera töff og einbeita sér aðallega að því að geta leikið sér við alla. Því þau föttuðu fyrir löngu síðan að ef maður getur leikið sér með öllum, þá er
maður eiginlega aldrei skilinn útundan.
Simmi var aðal gaurinn í „sveitalubbahópnum“ en hann var tekinn af skólastjóranum fyrir að svindla á prófi og eftir það hættu allir að vilja leika með honum. Það náttúrulega gekk ekki fyrir sveitalubbana og endaði það með því að Siggi og Simmi fóru í slag. Siggi vann með naumindum og Simmi bjó til sinn eigin vinahóp, „vesenispésahópinn“. „Vesenispésahópurinn“ hans Simma fýlar alveg sömu leiki og hópurinn hans Sigga en af því að þeir fóru í slag er vonlaust fyrir þá að leika sér saman, og af því að hópurinn hans Simma er samansettur af óþekku krökkunum þá vill eiginlega enginn leika við þá. Inga er síðan aðal skvísan í sínum hóp, en í rauninni eru bara tveir í þeim hóp. Simmi náði að plata tvo úr hópnum hennar Ingu yfir í „vesenispésahópinn“ sinn eftir að það komst upp um að þeir voru að baktala alla á skólalóðinni með „vesenispésunum“ og það með orðum sem hvergi eiga að heyrast. Inga er því í töluverðum vandræðum með að halda sínum vinahóp gangandi, enda takmarkað hvað það er hægt að fara í
marga leiki bara tvö saman.

Í „nördahópnum“ er enginn einn leiðtogi, af því að þeim finnst asnalegt að einhver einn ráði. Þess vegna skiptast þau bara á, að ráða. Allir í Nördahópnum eru frekar spes. Þau tala mikið ensku sín á milli, eru í einkennilegum fötum og með skrítnar greiðslur. Þau væru mjög til í nýja skólaskrá, en það eru svona aðalreglur skólans. Hinir hóparnir nenna varla að spá í slíkum hlutum. Nördarnir vilja alveg leika við flesta, en vilja samt ALLS EKKI leika við „drulluspaðahópinn“ eða „vesenispésahópinn“, aðallega vegna þess að þeim finnst hóparnir bera nafn sitt
með rentu. Logi er svo aðalkallinn í „miðbæjarhópnum“. Í miðbæjarhópnum taka allir strætó, alltaf. Þeir eru ekki beint töffarahópur, en þeim finnst þau sjálf samt mjög töff. Þeim finnst hinir hóparnir mjög oft vera ósanngjarnir við aðra og vilja því ekki leika við alla. „Miðbæjarhópurinn“ og nördarnir eru sammála í flestu og leika því gjarnan saman. Þeir vilja ólmir fá að ráða hvaða leikir verða á dagskrá á skólalóðinni en það er frekar langt síðan að þeir fengu að ráða. Þeir eru líka sammála um að vilja ALLS EKKI leika við Bjarna og Simma.

Katrín er síðan leiðtoginn í sínum hóp. Katrín er mikill leiðtogi og þess vegna erhópurinn hennar bara kallaður „hópurinn hennar Katrínar“. Katrín vill leika við flesta og hún skilur kosti þess að fá að ákveða hvaða leikur er valinn í hverjum frímínútum. Hún og Bjarni eru miklir vinir, en hóparnir þeirra eru samt alls ekki líkir og vilja í rauninni ekki mikið leika saman. En þeir gera það samt út af Kötu og Bjarna. Katrín, Bjarni og Siggi hafa ráðið á skólalóðinni undanfarin ár. Kannski aðallega útaf
því að þau vilja öll leika við alla og af því að Kata og Bjarni eru svo góðir vinir. Í haust þarf samt að kjósa upp á nýtt og ákveða aftur hverjir ráða. Logi og Nördarnir vilja endilega leika við Katrínu og hennar hóp og eru til í að leyfa henni að vera leiðtogi skólalóðarinnar aftur en til þess þurfa þau sennilegast stuðning Sigga eða Þorgerðar. Bjarni og Siggi vilja líka leika við Katrínu á ný og leyfa henni að vera leiðtoginn, en það gæti verið að þau verði ekki nógu mörg samanlagt til þess að fá að ráða. Enginn vill
sérstaklega leika við Simma og félaga, en það verður samt kannski þannig að hann þurfi að vera með til þess að ná meirihluta. Það er ekki víst hvort að hópurinn hennar Ingu verði í skólanum á næsta ári, en það gæti vel verið að það komi inn nýr vinahópur á lóðina í haust. Orðrómur er á kreiki um að nýr hópur sé að byrja í skólanum, það veit þó enginn nákvæmlega hverjir verða í honum eða hvaða leiki þau vilja fara í, en sagan segir að þau séu öll vinir náunga úr öðrum skóla sem heitir Gunnar og á að vera pínu klikkaður. Erfitt er að fullyrða um það og verður því bara að koma í ljós í haust hvort að hópurinn hans Gunnars komi til með að skipta máli.

Steinar Ingi Kolbeins

Pistlahöfundur

Steinar Ingi er nemi við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Hann hefur á undanförnum árum gegnt ýmsum félagsstörfum samhliða námi. Hann var formaður nemendafélagsins í Menntaskólanum við Sund, sat í stjórn Heimdallar á árunum 2015-2018 og var í stjórn Vöku fls. árið 2017-2018. Almennar vangaveltur um hin ýmsu málefni samtímans eru meðal efnistaka Steinars í skrifum hans í Rómi.