Vin í eyðimörkinni, eða aðeins tálsýn?

eftir Esther Hallsdóttir

 „Af hverju eru engar konur að selja á markaðnum?“ spurði ég unga manninn sem reyndi að sannfæra mig um ágæti kasmírsjalanna sem hann var með til sölu í örtröðinni í Muttrah Souq, stórum markaði í miðbæ Muscat þar sem allt ilmaði af reykelsi og myrru. Markaðurinn samanstóð af básum sem seldu ómanska og mið-austurlenska muni og alls staðar stóðu karlmenn vaktina, meira að segja þar sem söluvaran var brjóstahaldarar og búrkur. Ungi maðurinn horfði ráðvilltur á mig og svaraði: „Það eru engar konur hérna.“ „Nei,“ sagði ég, „hvers vegna ekki?“ Hann flissaði hálfvandræðalega eins og honum fyndist spurningin óþægileg og svaraði svo ákveðinn: „Það eru fullt af góðum vinnum í boði fyrir konur í Óman utan heimilisins, konur í Óman vinna utan heimilisins.“

Ég varði síðustu jólum með tengdafjölskyldu minni í Óman, ríki sem á landamæri við Sádi-Arabíu, Jemen og Sameinuðu Arabísku furstadæmin. Ég hafði aldrei ferðast til Mið-Austurlanda áður og hlakkaði mikið til að fá tækifæri til að kynnast ómanskri menningu. Í ljósi stöðu kvenfrelsis á svæðinu þá velti ég á sama tíma fyrir mér hvernig upplifunin yrði fyrir mig sem konu, hvort að ég myndi sæta öðrum reglum en karlarnir sem voru með í för og hvort að ég myndi geta hagað mér eins og á öðrum ferðalögum, talað við karlkyns leigubílstjóra, pantað á veitingastöðum og svo framvegis. Ég hafði lesið á netinu að ég þyrfti að vera hulin frá hálsi og niður að ökkla í hitanum og pakkaði því öllum þeim þunnu langermabolum og síðbuxum sem ég gat fundið í skápnum (kom í ljós að ég á ekki mikið af slíkum fötum).

Þegar ég kom á staðinn áttaði ég mig fljótlega á að áhyggjurnar höfðu verið óþarfi. Í raun var upplifunin ekki ósvipuð því að ferðast á Vesturlöndum. Ég gat setið frammí og spjallað við leigubílsstjórann að vild, lenti ekki í neinum vandræðum á veitingastöðum (nema einu sinni, þegar þjóninum fannst kærastinn minn best til þess fallinn að ákveða hvaða tegund af vatni ég vildi panta) og allir voru almennt mjög indælir við okkur. Reglurnar um klæðaburð voru í þokkabót mun slakari en ég hafði lesið á netinu.

Eitt af því fyrsta sem maður tekur eftir við komuna til Óman er mjög einkennandi klæðnaður innfæddra. Konur í Óman klæðast venjulega svörtum síðum kjól sem kallast abaya, og auk þess hylja margar hár sitt með höfuðklút (hijab) eða klæðast búrku sem hylur allt nema augu. Karlmennirnir hylja sig einnig og klæðast ökklasíðum hvítum eða dauflituðum kyrtlum sem kallast disdasha og bera sérstaka ómanska hatta.

Þegar við spurðum leigubílsstjórann sem keyrði okkur megnið af ferðinni hverju væri viðeigandi að klæðast á tilteknum stöðum svaraði hann alltaf: „Því sem þið viljið. Þið ráðið“. Við klæddumst hyljandi fötum framan af og spöruðum sólarfötin fyrir veröndina á hótelinu, en þegar leið á ferðina urðum við slakari. Ég skrapp í stuttbuxum út í búð, við fórum í sundfötum í náttúrulaug og gengum um borgina í hlýrabol. Það er kaldhæðnislegt, en kannski svolítið típískt, að sá eini sem gerði nokkurn tímann athugasemd við klæðaburð okkar var vestrænn maður, sem var sármóðgaður fyrir hönd innfæddra yfir hlýrabol (og berum öxlum) svilkonu minnar. 

Hinn framsækni Qaboos Soldán

Staða kvenna í Óman tók talsverðum framförum í fimmtíu ára stjórnunartíð Qaboos bin Said Al Said, Soldánsins af Óman, sen lést núna í upphafi árs áttræður að aldri. Hann leiddi raunar gríðarmikla uppbyggingu í landinu og gjörbreytti lífsskilyrðum Ómana. Þegar hann tók við sem Soldán voru einungis þrír skólar í Óman og tíu kílómetrar af malbikuðum vegum. Í dag býr Óman yfir hágæða vegakerfi, góðum skólum og öflugum innviðum. Frá árinu 1970 hafa lífslíkur Ómana hækkað úr 50 árum í 77 ár, hvorki meira né minna.

Meðal þeirra mikilvægu skrefa sem Qaboos tók í átt að bættri stöðu kvenna var að lögfesta skólaskyldu fyrir bæði stúlkur og drengi. Hann festi auk þess í stjórnarskrá bann gegn mismunun á grundvelli kyns og stuðlaði að frjálsari túlkun Sharía laga sem gerði konum kleift að vinna utan heimilisins (31% ómanskra kvenna voru á vinnumarkaði 2019, en 90% karla). Í dag geta konur í Óman auk þess ferðast úr landi án leyfis karlmanns og Óman er fyrsta Persaflóaríkið til að gefa vitnisburði kvenna jafnt vægi og vitnisburði karla fyrir dómi.

Í einni leigubílaferðinni spurði ég leigubílsstjórann út í þátttöku kvenna á vinnumarkaði. Hann sagði mér stoltur, líkt og strákurinn á markaðnum, að konur í Óman ynnu utan heimilisins. „Það er okkur í Óman mjög mikilvægt að konur geti unnið fyrir utan heimilið, konur hér vinna mörg störf. Við erum ekki eins og Sádi-Arabía, þar sem konur geta ekki unnið, hér vinna konur úti“. Hann sagði mér að börnin færu í grunnskóla, en þegar ég spurði hann út í leikskóla sagði hann að slíkt væri ekki venjan í Óman. „Ef að konurnar vilja vinna, þá passar amman börnin á meðan. Það er frábært, börnin geta verið með ömmu sinni á meðan konan vinnur“ sagði leigubílsstjórinn. Það vakti óhjákvæmilega hjá mér spurningu sem ég spurði þó ekki: Eru ömmur ekki útivinnandi í Óman?

Ég velti því raunar fyrir mér hversu ólík upplifun það er að vera vestræn ferðakona í Óman og að vera innfædd. Að mörgu leyti fannst mér við, eins og tengdamóðir mín orðaði svo vel, „fljóta ofan á samfélaginu“ hvað þetta varðaði. Ekkert okkar átti eitt einasta samtal við ómanska konu alla ferðina, þar sem þær unnu nánast engin störf sem höfðu snertiflöt við ferðafólk. Að flugvellinum og matvörubúðum undanskyldum, sinntu karlmenn öllum störfum sem viðkomu okkur að einhverju leyti. Þeir keyrðu leigubílana, voru í afgreiðslunni á hótelinu, þrifu hótelherbergin, afgreiddu í búðum, þjónuðu á veitingastöðum og svo framvegis. Við urðum ekki var við hina umtöluðu þátttöku kvenna á vinnumarkaði og ég fékk aldrei tækifæri til að spyrja ómanska konu hvort að staða kvenna í Óman væri jafn frábær og ómönsku mennirnir héldu fram.

Aðeins níu lönd í heiminum eru verri fyrir konur en Óman

Raunveruleikinn er sá að Óman skipar 144. sætið af 153 sætum í réttindum kvenna á Global Gap Index árið 2020. Aðeins níu lönd teljast verri fyrir konur; Líbanon, Sádi-Arabía, Chad, Íran, Kongó, Sýrland, Pakistan, Írak og Jemen. Það verður að teljast ansi slappur félagsskapur. Þrátt fyrir framfarir síðustu áratugi er sjálfsákvörðunarréttur ómanskra kvenna ennþá stórlega skertur.

Sem dæmi er fest í lög í Óman að karlmenn eigi rétt á bæði athygli og hlýðni eiginkonu sinnar. Ómanskar konur þurfa leyfi eiginmannsins eða annars karlmanns í fjölskyldunni til að taka flestar stórar ákvarðanir, svo sem að gifta sig (núna geta þær reyndar biðlað til yfirvalda ef þær fá neitun og fengið leyfi þaðan). Þær geta ekki skilið við eiginmenn sína nema undir sérstökum kringumstæðum (en þeir geta auðveldlega skilið við þær) og þar að auki geta eiginmenn tekið sér eiginkonu númer tvö án samþykkis núverandi eiginkonu (og ekki telst það næg ástæða til skilnaðar að karlinn giftist fleiri konum). Þá er staða kvenna á vinnumarkaði mun verri en sú sem karlmenn njóta og þátttaka þeirra í stjórnmálakerfinu er lítil sem engin.

Hvað gerir hinn nýji einráður?

Qaboos heitinn má hafa stórbætt lífsskilyrði Ómana í stjórnunartíð sinni og notið mikilla vinsælda fyrir, en frelsis- og mannréttindaunnandi getur hann ekki talist. Hann var raunar gallharður einráður sem bannaði alla andstöðu og mótmæli gegn sér, frjálsa fjölmiðla og skoðanaskipti.

Skrefin sem Qaboos tók í átt að bættri stöðu kvenna, svo sem að koma á almennri skólaskyldu og að auka þátttöku kvenna á vinnumarkaði, eiga það raunar flest sameiginlegt að stuðla einnig að bættri efnahagslegri stöðu landsins. Það vekur upp þá spurningu hvort að tilgangur þeirra hafi ef til vill fyrst og fremst verið efnahagslegs eðlis. Áður en Qaboos dó tilnefndi hann fyrrverandi menningarmálaráðherra Óman og frænda sinn, mann að nafni Haitham bin Tariq al Said, sem eftirmann sinn. Haitham, sem er 65 ára, hefur nú þegar tekið við sem Soldán. Hans bíður sú stóra áskorun að feta í fótspor forvera síns og halda uppbyggingu Óman áfram. Tíminn mun leiða í ljós hversu vel honum tekst upp með það. Ég vona hins vegar að hann gangi mun lengra en forveri sinn í að auka frelsi og tækifæri kvenna í landinu.

Esther Hallsdóttir

Pistlahöfundur

Esther er með B.A. gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og starfar hjá UNICEF á Íslandi. Hún er jafnframt ungmennafulltrúi Íslands til Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda. Áður hefur hún setið í Stúdentaráði Háskóla Íslands og í stjórn Vöku fls. ásamt því að gegna formennsku í fjármála- og atvinnulífsnefnd SHÍ.