Viltu veðja?

eftir Alexander Freyr Einarsson

Flestar manneskjur eiga það til að taka ákvarðanir sem eru þeim ekki endilega fyrir bestu og sjálfur fell ég sannarlega í þann flokk. Sumir drekka áfengi í meiri mæli en góðu hófi gegnir, sumir reykja og einhverjir borða óhóflega mikið af sætindum og ruslfæði. Einnig má finna fólk sem kýs að ráðstafa peningum sínum í einhvers konar fjárhættuspil, t.d. með því að veðja á íþróttaviðburði, og hér ætla ég að einblína á þann málaflokk.

Til að byrja með vil ég taka fram að mér þykir það ekkert nema harmleikur þegar fólk missir tök á lífi sínu vegna fíknar, hvort sem hún tengist vímuefnum eða fjárhættuspilum. Því miður eru til dæmi um að menn sjái enga aðra lausn en að taka sitt eigið líf eftir að hafa sokkið of djúpt inn í heim spilafíknar. Ekki þarf að leita lengra en til síðasta Evrópumóts í knattspyrnu  til að finna tvo menn sem höfðu komið sjálfum sér í svo vonda stöðu að þeir frömdu sjálfsmorð (sjá t.d. hér og hér). Þrátt fyrir að afleiðingar spilafíknar geti orðið skelfilegar þarf hins vegar alltaf að velta því fyrir sér hvenær á að takmarka sjálfsákvörðunarrétt fólks og hvenær það þjónar raunverulega settum tilgangi að setja lög sem eiga að leysa vandann.

Er ríkiseinokun lausnin?

Á Íslandi er ólöglegt að reka veðbanka fyrir íþróttir. Eini löglegi og starfandi veðbankinn er Íslenskar Getraunir, sem starfa samkvæmt lögum nr. 59/1972 um getraunir. Í lögunum segir: „Ríkisstjórninni veitist heimild til þess að stofna félag, Íslenskar Getraunir, sem afli fjár til stuðnings íþróttaiðkunum á vegum áhugamanna um íþróttir í landinu í félögum innan Ungmennafélags Íslands eða Íþróttasambands Íslands…. Öllum öðrum en Íslenskum Getraunum skal óheimilt að starfrækja getraunir.“

Með öðrum orðum er einungis löglegt að veðja á íþróttir á borð við knattspyrnu í gegnum þjónustu einokunarfyrirtækis á vegum ríkisins. Stefna ríkisins er því að notfæra sér þá sem veðja á íþróttir, og þar á meðal forfallna spilafíkla, til að fjármagna íþróttaiðkunn áhugamanna. Ríkið sér semsagt ekki ástæðu til að banna veðmál en vill hins vegar ekki leyfa öðrum aðilum að veita þá þjónustu. Mín skoðun er sú að þessi lög séu álíka úrelt og að sýna ekki sjónvarp á fimmtudögum. Meginástæðurnar eru tvær:

Í fyrsta lagi virka lögin alls ekki. Meginþorri Íslendinga sem veðja á íþróttir notfæra sér erlenda veðbanka á netinu á borð við Bet365, William Hill, Betsson o.fl. Líkt og oftast er tilfellið þegar einkafyrirtæki eru borin saman við ríkisfyrirtæki, þá bjóða þessir vettvangar upp á betra viðmót en Íslenskar Getraunir og þar að auki eru stuðlarnir mun betri í langflestum tilfellum.

Til hvers ætti einhver að veðja á úrslit fótboltaleiks á stuðli 2,5 þegar aðilinn getur fengið stuðul 3 á Bet365? Munurinn er oft gríðarlegur og safnast þegar saman kemur, sannarlega ef um stór og mörg veðmál er að ræða. Auðvitað er það því óhjákvæmilegt að neytendur leiti í aðra og betri þjónustu og lögin geta ekkert gert til að stöðva það.

Í öðru lagi er hollt að staldra við og velta fyrir sér siðferðislegu hliðinni. Er eðlilegt að ríkið fjármagni íþróttahreyfinguna með fjárhættuspilum? Er sömuleiðis sanngjarnt að ríkið hafi einkarétt á þessari þjónustu? Er reglan sú að þegar einhverjir stjórnmálamenn meta að eitthvað sé „skaðlegt“, þá skuli ríkið öðlast einokunarrétt á sölunni til að hagnast sem mest á óförum þegna sinna? Ríkið er nú þegar með einokunarsölu á áfengi og það þykir mér nógu óskynsamlegt. Ekki er það skárra með veðmálastarfsemina.

Í mínum augum er ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að þessi þjónusta eigi sér stað á frjálsum markaði þar sem einkafyrirtæki geta barist um að bjóða upp á bestu þjónustuna. Þetta er enn eitt dæmið um forræðishyggju af hálfu ríkisins sem telur sig vita betur en almenningur og ég tel okkur vera á afar hálum ís þegar það er stjórnmálamanna að meta hvaða vara og þjónusta megi vera seld á markaði og hvaða vara og þjónusta á að vera í umsjá ríkisins. Ég vil samt ítreka þá staðreynd að það er alls ekki ólöglegt að veðja, heldur neyðist sá sem það kýs til að gera það í gegnum ríkið. Við erum þegar farin að heyra háværar raddir um að setja á sykurskatt á nýjan leik en hvers vegna vill ríkið þá ekki taka alfarið yfir sölu á sykruðum vörum? Ég veit um talsvert fleiri sem hafa farið offari í sælgætisneyslu heldur en fjárhættuspil (þó ég geti víst sett sjálfan mig í báða flokka).

Skaðinn dreifist víðar

Ekki er nóg með að lögin þvingi fólk til að notfæra sér verri þjónustu en það annars myndi gera, sem þau gera reyndar í sjálfu sér ekki því enginn fylgir þeim, heldur dreifast skaðleg áhrif þeirra víðar, t.d. alla leið til fjölmiðla. Ég get nefnt dæmi út frá eigin reynslu þar sem ég hef notið þeirrar ánægju að starfa á stærsta íþróttamiðli landsins, Fótbolta.net, í fjölmörg ár. Ég hef ekki tölu á þeim fjölda fyrirspurna sem vefurinn hefur fengið frá stórum, erlendum veðmálafyrirtækjum sem vilja auglýsa á síðunni og eru tilbúin að greiða ansi vel fyrir. Ekki er ólíklegt að Fótbolti.net verði af milljónum króna í tekjur á ári hverju vegna þess að samkvæmt lögum mega þessi fyrirtæki ekki auglýsa á Íslandi þrátt fyrir að allir séu að nota þjónustu þeirra. Á sama tíma má ríkiseinokunarfyrirtækið Íslenskar Getraunir auglýsa alls staðar! Ég get ekki nefnt einn aðila sem hagnast á þessu fyrirkomulagi en ég get nefnt fjölmarga sem tapa á því. Til dæmis hvern einasta lesanda Fótbolta.net, en það segir sig sjálft að fjölmiðill sem hefur úr meiri peningum að moða getur boðið upp á betri þjónustu, t.d. með því að ráða fleira starfsfólk, ráðast í dýr og metnaðarfull verkefni sem annars væru ómöguleg o.fl.

Þessi dæmisaga frá þessum tiltekna vef nær yfir alla fjölmiðla, hvort sem þeir eru á vefnum, í dagblöðum, sjónvarpi eða útvarpi. Það er ekki auðvelt að reka fjölmiðil og staðreyndin er sú að erlend veðmálafyrirtæki sem velta milljörðum árlega eru meira en til í að dæla fjöldanum öllum af milljónum inn í hagkerfið okkar í formi auglýsingatekna. Þau eru þegar komin með ráðandi markaðshlutdeild á Íslandi svo skaðinn er enginn af því að leyfa þeim það.

Stígum skref í átt að frelsi

Mergur málsins er þessi: Í fyrsta lagi virkar ekki ríkiseinokun á íþróttaveðmál. Íslenskir neytendur leita á aðrar og betri slóðir og munu halda því áfram. Í öðru lagi tel ég siðferðislega rangt að ríkið sé með einokunarstöðu á þessum tiltekna markaði líkt og reyndar á öðrum mörkuðum sem vel gætu verið í umsjón einkaaðila. Í þriðja lagi koma lög um getraunir ekki einungis niður á neytendum heldur einnig á fjölmiðlum og sjálfsagt fleiri aðilum sem gætu notið góðs af því að veðmálaþjónusta væri á frjálsum markaði líkt og sælgæti, tölvuleikir, skyndibiti og annað sem kann að vera óhollt ef þess er neytt í óhófi.

Alexander Freyr Einarsson

Pistlahöfundur

Alexander Freyr er MFin frá Massachusetts Institute of Technology og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann býr í New York þar sem hann starfar í fjárfestingarbanka. Áður starfaði hann hjá Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við Endurreisn” ásamt Dr. Ásgeiri Jónssyni. Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín.