Viltu gráðu sem skiptir máli?

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Nú í sumar er ég svo heppinn að hafa öðlast tækifæri til að verja sumrinu í Stanford háskóla í Bandaríkjunum í gegnum skiptiprógram sem Háskóli Íslands býður upp á. Prógröm eins og þessi eru einn af kostum þess að stunda nám við Háskóla Íslands og skólinn á skilið mikið hrós fyrir að koma á og viðhalda tengingum við námsstofnanir eins og Stanford. Upplifunin hér er einstök og hálfóraunveruleg hvort sem það kemur að kennsluháttum sem byggja á virkni og samræðum, nánd og persónutengslum eða umgjörðinni sem byggir upp öflugt og dínamískt samfélag hér úti.

Áður en ég fór út var ég meðvitaður um að Stanford spilaði í annarri deild heldur en Háskóli Íslands ef svo má að orði komast. Jafnvel þó það sé augljóst að á Íslandi eru ekki raunhæfar forsendur til þess að byggja upp skóla eins og Stanford þá er það einkum og sér í lagi hugarfarsmunurinn sem kemur á óvart. Afreks- og gæðahugarfarið eitt og sér fleytir skóla eins og Stanford langt og býr til afar jákvæða stofnanamenningu. Án hugarfarsbreytingar, bæði hjá menntamálayfirvöldum en einnig stofnanamenningin innan veggja Háskóla Íslands efast ég um skólinn nái markmiði sýnu um að verða einn af 100 bestu háskólum heims.

Of fáir hafa metnað fyrir öflugum háskóla

Mín upplifun hefur verið sú að yfirstjórn Háskóla Íslands hefur metnað fyrir skólanum en sá metnaður er of bundinn við einungis yfirstjórnina. Margar af einingum skólans eru algerlega lausar við það sem mætti kalla afreks- og gæðahugsun. Oft finnst mér eins og markmiðið sé einungis að útskrifa sem flesta en ekki að útskrifa sem hæfasta fólkið. Auk þess eru of litlar kröfur gerðar til starfsmanna og þeim illa fylgt eftir. Margir kennarar hafa til að mynda komist upp með að mistúlka hugtakið akademískt frelsi, þannig að frelsið nái til þess að standa sig illa í starfi sínu, einkum þegar kemur að kennslu.

Hvað varðar menntamálayfirvöld þá virðist metnaður fyrir háskólastarfsemi á Íslandi vera lítill sem enginn og það er miður. Til dæmis mætti nefna því til stuðnings að lítil sem engin áhersla hefur verið lögð á menntamál í fimm ára ríkisfjármálaáætlun.

Fjármögnunarkerfi sem styður ekki gæði

Grundvallareiginleiki fjármögnunarkerfis háskólanna, og raunar menntaskólanna líka, byggir á magni en ekki gæðum. Helsta leiðin til þess að auka fjárúthlutanir til sín er með því að bæta við sig nemendum, sem verður til þess að bekkirnir og tímarnir verða stærri með tilheyrandi þjónustuskerðingu. Því fleiri nemendur fyrir hvern kennara, því færri mínútur hefur kennari fyrir hvern nemanda.

Án þess að byggja grundvöll undir það að eiga háskóla sem hefur gæði til þess að teljast einn af hundrað bestu háskólum heims þurfum við því að breyta bæði stofnanamenningunni innan háskólanna en einnig hvötunum sem stýra kerfinu – einkum þegar kemur að fjármögnun. Þetta á sérstaklega við um kennslu en kerfin sem liggja að baki rannsóknum hafa verið endurskoðuð með gæða- og afrekshugsun að markmiði.

Ég tel öflugt menntakerfi forsendu þess að hægt sé að byggja efnahagsumhverfi á þekkingu sem býður ungu fólki upp ánægilega spennandi tækifæri til þess að það vilji búa á Íslandi. Ef háskólakerfið býður ekki upp á nægileg gæði brestur forsendan um öflugt menntakerfi og það er staðan í dag að mínu mati.

Byggjum upp gæðamenningu í þremur skrefum

Það er því lykilatriði að byggja upp nýtt umhverfi og nýja menningu þegar kemur að háskólastiginu. Til þess að búa til þetta umhverfi og betri grundvöll fyrir sókn háskóla legg ég til þrennt:

  • Í fyrsta lagi þurfa háskólarnir og menntamálayfirvöld að hafa hugrekki til þess að leggja mælikvarða á gæði náms og kennslu og útdeila fjármunum eftir því. Bæði þegar kemur að umbun kennara en einnig háskóla í heild sinni.
  • Í öðru lagi mætti skoða að undanskilja opinbera háskóla frá lögum um opinbera starfsmenn gegn því að gæðaeftirlit yrði stóraukið og auknar kröfur gerðar til kennara við kennslu.
  • Í þriðja lagi þurfum við kasta frá okkur kreddum. Hingað til hefur það verið ráðandi hugarfar að ekki megi innheimta skólagjöld. Það er alveg ljóst að fjármagn og þjónusta haldast í hendur. Ég spyr því hvort við sættum okkur virkilega við svo mikla þjónustuskerðingu fyrir lítt praktíska hugmynd sem gæti verið leyst með aðkomu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ég held ekki og tel að við ættum að rukka hófleg skólagjöld því þjónustan er svo sannarlega þess virði, það hef ég upplifað hérna úti.

Ef við ætlum að geta útskrifað heimsklassa nemendur og boðið upp á heimsklassa nám og kennslu sem skilur eitthvað eftir sig, þá þurfum við að þora að breyta til. Við þurfum að þora að byggja á gæðum og afrekshugsun til að ná árangri. Við þurfum ekki að líta lengra en til síðustu vikna í Frakklandi til að sjá það.

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.