Viltu giftast mér?

eftir Gestahöfundur

Hin hefðbundna fjölskylduímynd hefur gjörbreyst á undanförnum áratugum. Á meðan fjöldi hjónavígsla á höfðatölu á Íslandi fer minnkandi síðastliðin ár, stendur fjöldi skilnaða í stað. Úti í heimi hefur rétt tæplega helmingur japanskra kvenna engan áhuga á rómantískum samböndum, hvað þá hjúskap, samkvæmt þarlendum rannsóknum. Barneignum fer líka fækkandi í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Í samfélagi okkar fögnum við alls konar foreldrum: einstæðum foreldrum, samkynja foreldrum eða tvennum foreldrum. Fjölskyldan er orðin fjölbreyttari, en ekki samkvæmt hjúskaparlögum.

Að mynda hjúskap þýðir aðallega tvennt: annars vegar bera hjónaefnin framfærsluskyldu yfir hvort öðru, og hins vegar erfa þau hitt skyldi annað þeirra falla frá. Sambýlisfólk erfir ekki eignir maka síns, en ef þau hafa gerst ábyrgðarmenn sameiginlegra lána erfa þau þær skuldir að fullu. Þar að auki hefur sambýlisfólk ekki rétt á setu í óskiptu búi ef makinn fellur frá. Slíkt tilfelli kom upp þegar eiginmaður varaþingmanns Bjartrar Framtíðar varð bráðkvaddur í aprílmánuði síðastliðnum.

Auðveldlega hefðu þau getað gift sig og hlotið allan þann ávinning sem því fylgir, en ég spyr: af hverju gerum við upp á milli fólks byggt á skráningu í Þjóðskrá?

Hvað þýðir að elska?

Í Sviss krafðist kona nokkur þess að ríkið hætti að gera upp á milli sín og barnsföður síns árið 2015. Fjölskyldur fá skattaívilnun sem hlutfall af launum til að halda uppi börnum, og er því tekjuhærri aðilanum veitt afslátt af skattgreiðslum, enda gerði svissneska ríkið ráð fyrir að tekjuhærri aðilinn legði meira til uppihalds barnsins. Konan, tekjulægri aðilinn, kærði framkvæmd laganna og vann málið, enda var uppihaldi barnsins ekki háttað eins og ríkið hafði fyrirfram ákveðið.

Þetta er ekki einsdæmi um að þegnum ríkisins og fjölskylduháttum þeirra sé steypt í sama mót. Á Íslandi samþykkti ríkisvaldið til dæmis ekki hjónavígslur samkynhneigðra fyrir árið 2010. Fyrir þann tíma var þeim að sjálfsögðu ekki treystandi til að elska, hvað þá deila forræði. Sömuleiðis mega einstaklingar ekki játa ást sína til fleiri en eins aðila í senn, þó það væri eftir eigin hjarta. Hjúskaparlög setja fólki skorður um hvað það má og má ekki. Ríkið er því búið að skilgreina ást á milli einstaklinga, og innan hvaða ramma við megum elska, hvað við græðum á því að elska og hverju við töpum.

Ást er falleg, og ég hvet alla til að játa hana, sama hvort það sé frammi fyrir guði sínum, sýslumanni eða bara hvort öðru. En í hvaða tilgangi þarf ríkið að setja ákveðna ást sem skilyrði fyrir annarri þjónustu sem það veitir?

Hvert viljum við að hlutverk hjónabanda sé?

„Það er almennt samþykkt að einhleypur maður gefinn ríkidæmum, hlýtur að vera að leita sér að konu,“ eru fyrstu orð Jane Austen í bók sinni ‚Pride and Prejudice‘, sett fram á kaldhæðinn hátt. Þegar bókin er skrifuð kepptust foreldrar um að afsala dætur sínar til manna sem þeim þóttu ákjósanlegir. Þetta fyrirkomulag er ekki raunveruleiki sem ég vil búa við. Hjónaband, eins og það var upprunalega skilgreint, er barn síns tíma.

Á nýliðnu þingi báru Píratar og Vinstri Grænir upp þingsályktunartillögu um breytingar á hjúskaparlögum þar sem færa á hjónavígslur frá prestum til embættismanna vegna þeirra óþæginda sem samviskufrelsi presta hefur í för með sér. Það sjónarmið hefur rétt á sér, en réttara væri ef ríkið skipti sér ekki af því hvernig fólk vill sinna ást sinni. Það er einkamál þeirra ástföngnu.

 

Arnór Bragi Elvarsson nemur samgönguverkfræði við ETH í Zürich þar sem hann sérhæfir sig í sjálfakandi bifreiðum og innviðastjórnun. Hann hefur verið virkur í félagsstörfum fyrir Heimdall, Stúdentaráð Háskóla Íslands auk þess að hafa átt þátt í stofnun umhverfis- og samgöngunefndar SHÍ sem og ungra umhverfissinna. Samhliða námi sinnir Arnór áhuga sínum á kaffigerð og umræðu um málefni líðandi stundar.