Vilja verkalýðsforingjar koma í veg fyrir fasteignakaup?

eftir Kristófer Már Maronsson

Það er auðvelt að skilja ósætti kynslóðar X (fædd á árunum 1965-1979) við verðtryggð lán í kjölfar afleiðinga hrunsins, þar sem fasteignabólan sprakk og húsnæði hrundi í verði á meðan að ráðstöfunartekjur fylgdu ekki verðlagshækkunum og varð greiðslubyrði lána þar af leiðandi óviðráðanleg fyrir marga. Fólk lenti í þeirri martöð að missa húsnæðið á sama tíma og það missti vinnuna. Eftir sat fólk eignalaust, atvinnulaust og jafnvel stórskuldugt ennþá.

Formenn verkalýðsfélaga hafa ekki leynt ósætti sínu við þessi lán og undanfarnar vikur lýst því yfir að forsendur lífskjarasamnings séu brostnar vegna þess að ekki sé búið að afnema Íslandslánin svokölluðu, 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. (1,2

Staðan í dag er allt önnur

Sem betur fer var mikill lærdómur dreginn af hruninu. Börn kynslóðarinnar sem lenti hvað verst í hruninu eru talsvert meðvitaðara um áhættu verðtryggðra lána heldur en foreldrarnir voru fyrir hrun. Fjármálalæsi er farið að skipa stærri sess í skólakerfinu þó enn megi gera betur. Upplýsingagjöf bankanna og ráðgjöf er öflugri og stemningin er allt önnur en hún var árin fyrir hrun, að minnsta kosti af sögunum að dæma. Tilfærslan úr verðtryggðum í óverðtryggð lán (1,2) sýnir okkur að við höfum lært af sögunni og margir vilja ekki að taka áhættuna sem fylgir verðtryggðum lánum. En það er ekki þar með sagt að við ættum að banna Íslandslánin – þau gætu verið besti kosturinn fyrir suma, sérstaklega tekjulægri hópa.

Íslandslán eða leigumarkaður?

Leigumarkaðurinn hefur reynst mörgum erfiður undanfarin ár. Sökum mikillar eftirspurnar er leiguverð hátt og lítið er um fasteignir. Þá er talið að um 4000 manns búi í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Í mörgum tilfellum er leiguverð hærra en afborgun væri af Íslandsláni af sömu fasteign, en afborgun af 25 ára verðtryggðu láni væri þó hærri en leiguverð. 

Þannig er það með verðtryggð jafngreiðslulán eins og önnur húsnæðislán, að í lok lánstíma eignast lántaki húsnæðið. Eignamyndun tekur lengri tíma en á öðrum lánum og er jafnvel neikvæð á einhverjum tímapunkti. Á móti kemur að greiðslubyrðin er lægri fyrst um sinn, en á endanum kemur síðasta greiðslan. Þó ég sé ekki hrifinn af verðtryggðum lánum, geta þau hjálpað fólki að komast af leigumarkaði og gert fólki kleift að eiga húsnæði en ekki leigja í ellinni, sem í flestum tilfellum er mun dýrara. 

Deila má um hvort að það sé sanngjarnt að á Íslandi þurfum við að greiða húsnæðisverð margfalt áður en við eignumst húsið – en það kemur banni á Íslandslánum ekkert við. Samanburðurinn sem við þurfum að gera er hver húsnæðiskostnaðurinn sé yfir lífsleiðina; hvort við brennum meiri pening á því að eiga eða leigja. Ég er nokkuð viss um að flestir sem taka verðtryggð lán eru því fegnir að komast af leigumarkaði og telja sig borga minna í vexti og annan kostnað heldur en leigu þegar upp er staðið.

Leyfið næstu kynslóðum að læra af reynslunni

Tónninn finnst mér sá, í ljósi þess að Íslandslánin klikkuðu hjá kynslóð X, að þau eigi að banna fyrir næstu kynslóðir. Það er ekki góð nálgun. Persónulega myndi ég ekki snerta 40 ára verðtryggð lán með löngu priki vegna áhættufælni í langtímafjárfestingum, en það geta ekki allir leyft sér að hugsa þannig. Sumir vilja og geta greitt húsnæðið sitt hratt niður og eiga meira á milli handanna á eldri árum á meðan að aðrir vilja eyða meiru á yngri árunum og velja því lán með lægri greiðslubyrði, t.d. Íslandslán.

Þó að Íslandslánin séu ekki hagkvæmasta leiðin til þess að eignast húsnæði – þá er það eina leiðin fyrir suma. Ef að útlánastofnun er tilbúin að veita Íslandslán á ríkið ekki að stíga inn og banna það. Bann við Íslandslánum sviptir ákveðinn hóp möguleikanum á að eignast húsnæði að öðru óbreyttu. Að verkalýðsforingjar beiti sér fyrir slíkum inngripum ríkisins er hvorki þeim né verkalýðsfélögum þeirra til sóma. 

Engin óvissa er um áhættur Íslandslána og hægt að upplýsa lántakendur um þær fyrirfram, ólíkt mörgu öðru sem við deilum um sem réttlætir boð og bönn, t.d. byssueign. Ef planið er að takmarka Íslandslán að einhverju leyti væri sniðugara að ganga úr skugga um það að lántakendur þekki áhætturnar og söguna áður en skrifað er undir. Þá mætti auka enn frekar jákvæða hvata annarra lánsforma, t.d. með aukinni nýtingu séreignasparnaðar til niðurgreiðslu höfuðstóls óverðtryggðra lána. Fólk bregst mun betur við jákvæðum hvötum heldur en boðum og bönnum, við verðum að treysta fólki til að taka eigin ákvarðanir þegar upplýsingagjöf er örugg og góð.

Skiljum forræðishyggjuna eftir heima og látum sterka upplýsingagjöf og trú á næstu kynslóðum ráða för. Frelsið til að fara eigin leiðir í lífinu er mikilvægt, að hafa tækifæri til þess að læra af eigin mistökum sem og annarra.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.