Viðvarandi neyðarástand

eftir Elín Margrét Böðvarsdóttir

Hæ allir, það var víst skotárás á veitingahúsi í tíunda hverfi nálægt Lýðveldistorginu og árásamaðurinn gengur enn laus. Ef þið eruð á svæðinu, forðið ykkur eða haldið ykkur innandyra. Farið varlega krakkar! Xoxo.”

Þetta var fyrsta fréttin af voðaverkunum í París sem mér barst kvöldið 13. nóvember 2015. Í kjölfarið urðu þær talsvert fleiri.

Allir samfélagsmiðlar loguðu. Síminn fékk varla pásu til að anda. Kveikti á fréttunum. 13 látnir. Götur tómar. Hurðin læst. 18 látnir. Kvellur! Panikk… ,,False alarm”. Hjúkk. Samt ekki. Það voru enn tugir manns í gíslingu. 46. Talan hélt áfram að hækka. Óraunverulegt. Yfir hundrað fallnir, tala óstaðfest.

Þetta kvöld var ég stödd ásamt meðleigjenda mínum í íbúð okkar í öðru hverfi Parísar. Lýðveldistorgið í um það bil 15 mínútna göngufjarlægð og Bataclan tónleikahöllin örlítið lengra í burtu. Það tók dálítinn tíma að átta sig á því hvað væri að gerast enda voru atburðirnir að eiga sér stað víðsvegar um borgina. Þegar okkur varð ljóst hvað raunverulega var að eiga sér stað er ekki laust við að nokkur skelfing hafi gripið um sig. En við vorum heppnar, í öruggu skjóli heimafyrir.

François Hollande lýsir yfir neyðarástandi sem gaf stjórnvöldum umtalsverðar heimildir til þess að grípa til ráðstafana. Gott! Á svona stundu þykir manni öryggi mikilvægara en allt annað. Það borgar sig ekki að taka neina sénsa, náum þessum ómerkingum hugsaði ég, sigrumst á hryðjuverkum í eitt skipti fyrir öll.

Samhugur Íslendinga er mikill á svona stundu og mér fóru að berast kveðjur frá ótrúlegasta fólki. ,,Er allt í lagi? Hvenær kemurðu heim? Ætlaru í alvörunni að vera áfram í París?” Upplifun mín af atburðarásinni þann 13. nóvember síðastliðinn er þó, svo vægt sé til orða tekið, minniháttar saman borið við upplifun marga annarra.

Ég tel mig ekki sérstaklega trúaða og sjaldan leitað huggunar æðri máttarvalda en þegar slík hætta og slíkur viðbjóður ógnar þínu nærumhverfi þá er ekki laust við að þú viljir leggja traust þitt á æðra máttarvald. Kannski ekki endilega Guð, kannski bara ríkið?

En hversu langt má ganga á frelsi og mannréttindi í nafni öryggis?

Neyðarástand

Þriðjudaginn 16. febrúar síðastliðinn samþykkti franska þingið í annað sinn að framlengja lögum um neyðarástand í landinu um þrjá mánuði, eða til 26. maí 2016. Lögin höfðu upphaflega átt að gilda til tveggja vikna, frá 13. nóvember til 26. nóvember. Þrátt fyrir að lögin væru nú framlengd í annað skiptið var mikill stuðningur við framlenginguna en 212 þingmenn neðri deildar þingsins (Assemblée Nationale) greiddu atkvæði með framlengingunni, 31 á móti en aðeins þrír sátu hjá. Öldungadeildin hafði þá þegar greitt atkvæði með framlengingunni, einnig með miklum meirihluta.

Umrædd lög, Lög 55-385 frá 1955 um neyðarástand veita yfirvöldum auknar valdheimildir til að grípa til sérstakra ráðstafanna, jafnvel án dómsúrskurðar, undir sérstökum kringumstæðum. Til að mynda hafa stjórnvöld heimild til að setja á útgöngubann, hefta ferðafrelsi, banna fjöldasamkomur og fyrirskipa lokun opinberra rýma og samkomusvæða svo sem söfnum, veitingahúsum og skemmtistöðum. Auk þess veita lögin lögreglu, her og leyniþjónustu víðtækar heimildir til húsleita, áhlaupa og rétt til þess að hneppa fólk í stofufangelsi án sérstaks dómsúrskurðar auk þess sem þeim er heimilt að leggja hald á vopn, hvort sem um er að ræða löglegt eignarhald þeirra eða ekki. Nægir þá að fyrir liggi minnsti grunur um einhver vensl við hryðjuverk, skipulagða glæpastarfsemi eða ógn við almannaöryggi en þó er það nokkuð óljóst hvernig leggja skuli mat á þann grun. Loks hefur heimild yfirvalda til upplýsingaöflunar og vistunar gagna um einstaklinga verið útvíkkuð. Með öðrum orðum, ríkið má gera það sem það vill þar sem hér ríkir „neyðarástand”.

Öryggi eða frelsi?

Hópur mannréttindasérfræðinga hjá Sameinuðu þjóðunum gerði alvarlegar athugasemdir við neyðarlögin og hvatti stjórnvöld í Frakklandi til að framlengja þeim ekki til lengri tíma en 26. febrúar. Töldu þeir skorta skýrleika og nákvæmni í nokkrum ákvæðum laganna og lýstu yfir áhyggjum sínum af skerðingu tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífsins en fleiri mannréttindasamtök hafa einnig tekið í sama streng.

Stjórnvöld í Frakklandi telja það varhugavert að aflýsa neyðarástandinu, að hættan á hryðjuverkum hafi aldrei verið meiri og að almenningur óttist að önnur árás geti átt sér stað hvað á hverju. Vissulega hefur slaknað á taugum Parísarbúa síðan í nóvember en samkvæmt skoðanakönnunum deilir meirihluti Frakka þessari skoðun yfirvalda og er fylgjandi því að halda neyðarástandinu í gildi. Haft var eftir Stéphane Le Foll, talsmanni ríkistjórnarinnar að lögin um neyðarástandið væru „gagnleg í baráttunni gegn hryðjuverkum” og að hætta á frekari árásum væri gríðarleg. Svo virðist sem ráðamönnum þyki lögin skilvirk leið til að berjast gegn hryðjuverkum, en er hún réttlætanleg? Án þess að gera lítið úr alvarleika málsins, og ef til vill er þetta full djúpt í árinni tekið, en þá finn ég lykt af valdníðslu.

Það er rétt að árétta að neyðarlögin voru vissulega gerð virk í þeim tilgangi að tryggja öryggi almennings og til bregðast við alvarlegum kringumstæðum sem var bæði gott og ekki síður nauðsynlegt. En nú hefur gildistími þeirra tvívegis verið framlengdur um þrjá mánuði og tel ég rétt að setja við það spurningamerki. Ákjósanlegt er að lög um neyðarástand séu tímabundin, einnig væri ákjósanlegt að hættan á hryðjuverkum væri einungis tímabundin en svo er því miður er ekki. Hætt er við því að gildistími slíkra laga ílengist þar sem erfitt getur reynst að ákvarða hvenær sé rétti tíminn til að afnema þau og hvenær hætta sé liðin hjá (Upp í hugann koma lög um fjármagnshöft sem sett voru árið 2008 á ónefndri eyju í Norður-Atlantshafi).

Öryggi fyrir einn, tortryggni í garð annars?

Ég deili áhyggjum Frakka af hættunni sem stafar af hryðjuverkum en ég deili einnig áhyggjum þeirra sem gagrýnt hafa framlengingu neyðarástandsins. Raunin er sú að það sem vekur öryggistilfinningu hjá einum getur reynst öðrum óþægilegt eða óréttlátt. Ég ætti ekki að þurfa að hneppa frá kápunni minni og sýna ofan í töskuna mína í hvert sinn sem ég geng inn í skólann eða inn í verslunarmiðstöð, aftur á móti er það gert fyrir „mitt öryggi”. Mið-austurlenskur skólabróðir minn á heldur ekki að þurfa að upplifa sífellda tortryggni í sinn garð né heldur á flóttamönnum að vera meinaður aðgangur að álfunni þar sem þeir gætu verið „mögulegir hryðjuverkmenn”.

„Frelsi, jafnrétti, bræðralag” eru einkunnarorð franska lýðveldisins. Hvorki Frakkar, flóttamenn, innflytjendur né aðrir eiga að líða fyrir mögulega ógn sem stafar af fáum, hættulegum einstaklingum. En það þýðir þó alls ekki að við megum vanmeta ógnina, hún er til staðar, hún er raunveruleg og hún er hættuleg. En það er jafnvel enn hættulegra að tortryggja fjöldann, skerða frelsi fólks og virða manneréttindi að vettugi. Að lifa í óttanum jafngildir því að tapa. Í því samfélagi sem við höfum búið okkur eru gildin um mannréttindi, frelsi og jafnrétti okkur mikilvæg en ég tel að áframhaldandi lög um neyðarástand grafi að vissu leiti undan þeim gildum. Ætlum við að láta játa okkur sigruð?

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund. Ljósmyndin tengist efni pistilsins ekki með beinum hætti.

Elín Margrét Böðvarsdóttir

Pistlahöfundur

Elín Margrét er nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fréttamaður á Stöð 2. Hún starfaði áður sem blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu og ritstýrði Stúdentablaðinu skólaárið 2016-2017. Hún er einn stofnenda og fyrrverandi varaformaður ungmennaráðs UN Women á Íslandi og hefur einnig tekið þátt í starfi Vöku fls.