Viðreisnar eina von

eftir Ritstjórn

Hið pólitíska landslag er mjög áhugavert um þessar mundir. Samfylking virðist ekki bæta við sig nokkru fylgi, fylgi Vinstri grænna hefur hækkað umtalsvert síðustu mánuði og fylgi Sjálfstæðisflokks lágt í sögulegu samhengi. Píratar virðast halda lengur en búist var við í það mikla fylgi sem þeir fengu á síðasta ári og Björt framtíð er nánast horfin af yfirborði jarðar. Framsóknarflokkurinn hefur svo liðið fyrir framgöngu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, og mælist nú með 8,7% fylgi.

Nýtt stjórnmálaafl leit dagsins ljós fyrr á árinu, klofningsframboð Evrópusinna úr Sjálfstæðisflokknum; Viðreisn. Til að byrja með var höfuðáhersla Viðreisnar aðild að Evrópusambandinu, en einnig einblíndi flokkurinn m.a. á frjálslyndi, alþjóðasamstarf og markaðslausnir, og virðist uppleggið hafa verið að bjóða upp á „léttari valkost” við hlið rótgróna Sjálfstæðisflokksins.

Viðreisn hefur bætt við sig þó nokkru fylgi frá stofnun og mælist með 8,7% fylgi í nýjustu spám, líkt og Framsóknarflokkur og Samfylking. Þegar nær dregur alþingiskosningum mun Viðreisn að öllum líkindum sækja í rykfylgi Pírata og það litla fylgi sem Samfylking á eftir, en svo virðist sem að lítið hafi kvarnast úr fylgi Sjálfstæðisflokks síðan Viðreisn kom fram á sjónarsviðið, enn sem komið er. Það er þvert á það sem greinendur höfðu áður talið.

Síðan flokkurinn var stofnaður hefur Evrópusambandið mátt þola mörg þung högg. Þar má til að mynda nefna aukna spennu vegna flóttamannastraumsins frá Mið-Austurlöndum, Brexit, hryðjuverkaógnir í álfunni og uppgangur þjóðernissinna auk gjaldeyriskrísunnar, þar sem Grikkland er í aðalhlutverki. Þetta eru allt atriði sem hafa valdið miklum óróa í kringum sambandið að undanförnu. Vegna þessa hefur verið um það rætt hvort Viðreisn væri í raun höfuðlaus flokkur og að eina von Viðreisnar væri ef flokknum tækist að manna öfluga framboðslista.

Í síðustu viku dró til tíðinda hjá Viðreisn þegar  kynntir voru til leiks tveir nýir leikmenn sem eru vel kunnir landsmönnum. Um var að ræða þá Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og Pawel Bartozsek, stærðfræðing og pistlahöfund, sem tilkynntu báðir um að þeir hyggðust sækjast eftir sæti á lista Viðreisnar (sem þeir eflaust munu fá). Báðir eru þeir þjóðþekktir einstaklingar og mun þeim eflaust takast að afla Viðreisnar mikils fylgis.

Fleiri hafa verið orðaðir við Viðreisn, þeirra á meðal Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra og forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins, Ólafur Stephensen, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins og framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og Fanney Birna Jónsdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri 365, en hún sagði upp nú í byrjun sumars.

Það verður því spennandi að sjá hvaða „sleggjum” Viðreisn mun tefla fram í Alþingiskosningum í lok október, og hvort þeim takist þannig að láta sér vaxa nýtt höfuð fyrst Evrópuumræðan nær engri áheyrn.

Síðasta skrautfjöðurin

Um mitt síðasta ár skilaði starfshópur um endurskoðun á lögreglunámi frá sér skýrslu þess efnis að færa ætti lögreglunám upp á háskólastig. Í kjölfarið skipaði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra, matsnefnd til þess að meta hæfi þeirra skóla sem sótt höfðu um að taka að sér rannsóknir og menntun á sviði lögreglufræða.

Nefndin mat svo að þrír skólar væru hæfir til þess að sjá um námið. Háskóli Íslands var talinn hæfastur með 128 stig af 135. Háskólinn á Akureyri fékk 116 stig og Háskólinn í Reykjavík fékk 108 stig. Engu að síður ákvað menntamálaráðherra í síðustu viku, að semja við HA.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem að Illugi Gunnarsson gengur þvert á tillögur ráðgefandi aðila við stórar ákvörðunartökur í sinni stjórnartíð. Árið 2013 réði menntamálaráðherra Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur sem framkvæmdastjóra LÍN, þrátt fyrir að stjórn sjóðsins hafi metið Kristínu Egilsdóttur hæfasta umsækjanda í starfið.

Ákvarðanir sem þessar ætti að taka út frá óháðum og faglegum forsendum og með því fela nefnd og stjórn að gefa ráðgefandi álit í þeim efnum bendir allt til þess að sú sé stefnan. En þegar ráðherrann tekur ákvörðun þvert á mat þessara aðila þá varpar það rýrð á tilætlanir hans og trúverðugleika. Hver er þá raunverulegur tilgangur með því að fá þessa aðila til þess að gera mat ef endanleg ákvörðun er tekin út frá öðrum forsendum?

Líkt og áður sagði eru þessi mál ekki fyrstu glöp Illuga, heldur aðeins tvær af fjölmörgum ákvörðunum ráðherrans sem hafa leitt til þess að hann á sér ekki viðreisnar von um áframhaldandi framgöngu á pólitískum vetvangi.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.