Við þurfum að þora að hugsa stórt

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Ég hef í dálítinn tíma verið einn af þeim sem hallast að því að búa erlendis í framtíðinni. Ísland, eins gott og það er, finnst mér ekki bjóða upp á næg tækifæri sérstaklega þegar kemur að störfum sem eru unnin með heilanum, en ekki á færibandi, og samkeppnin er alþjóðleg. Mér hefur heldur ekki, hingað til, fundist neitt vera í kortunum sem á að skapa aðstæður til þess að fyrirtæki, sem geta boðið upp á slík tækifæri, byggist upp á Íslandi í ríkum mæli eða opni starfsstöðvar heima. Vissulega eigum við nokkrar perlur og þá má t.d. nefna þessi klassísku DeCode, Marel, CCP og Össur. Í þeim liggur ákveðin fyrirmynd sem við verðum að byggja á, ef ætlunin er að halda ungu fólki hér heima.

Einstakar aðstæður til að byggja á þekkingu

Nýlega bárust mér til eyrna hugmyndir sem byggja á nákvæmlega þessu; að nýta þær einstöku aðstæður sem eru á Íslandi til þess að virkja nýsköpunar- og þekkingargeirann. Á Íslandi er til staðar hinn fullkomni prufumarkaður. Í ofanálag getum við nýtt smæðina sem styrkleika því á Íslandi er ekki nokkuð mál að komast í samband við hvern sem er og þannig er hægt að skiptast á og nýta þekkingu með sem bestum hætti. Við búum yfir mjög tæknivæddu samfélagi, meira að segja afi minn sem er kominn yfir áttrætt keypti sér iPhone 6 um daginn og fyrir vikið er hann kominn á Snapchat. Síðast en ekki síst búum við yfir vertíðar hugarfarinu sem er lykilatriði í nýsköpunargeiranum, við reddum þessu á endanum og ‚þetta reddast‘, er verðmætur eiginleiki þegar verið að skapa eitthvað nýtt.

Ef við ákveðum að feta þessa braut þurfum við að gera nokkra hluti. Í fyrsta lagi þurfum við að efla fjármögnunarumhverfi og byggja upp tengsl við alþjóðlega nýsköpunarsjóði sem geta veitt fjármagni inn í kerfið af þeirri stærðargráðu sem nauðsynlegt er til þess að byggja upp alþjóðlegt fyrirtæki. Í öðru lagi þurfum við að byggja upp raunhæfa stefnu um það hvernig við lokkum til okkar sérhæft vinnuafl sem býr yfir mikilli sérfræðiþekkingu og í þriðja lagi þurfum við að leggja aukna áherslu á að byggja upp menntun á Íslandi og koma á ríkara samstarfi milli atvinnulífsins og háskólanna.

Áburðarverksmiðja eða hugvit?

Nú er það í höndum okkar Íslendinga að hafa hug og þor til þess að taka þessi skref. Fyrir mig persónulega eru þessar hugmyndir falleg tónlist í mínum eyrum. Ég hefði bæði áhuga á að búa heima og að taka þátt í því að byggja upp alþjóðlegt þekkingarsamfélag á Íslandi. Byggja upp fjórðu stoðina í hagkerfið. Stoðina sem reiðir sig ekki á náttúruauðlindir heldur mannauð. Ég er viss um að margir á mínum aldri væru tilbúnir að fara þá vegferð með mér.

Fyrir mér stendur Ísland á vissum krossgötum um þessar mundir. Við getum fetað þá braut að byggja áfram á auðlindahagkerfinu sem er þó bundið ákveðnu þaki. Við getum reist áburðarverksmiðjur og álver á Norðvesturlandi. Hinn möguleikinn er sá að hafa trú á fólkinu sem byggir landið og hugviti þess. Ef við leyfum okkur að trúa á hvort annað og byggjum upp þekkingargeirann höfum við að mínu mati fundið lykilinn að því að halda fólkinu okkar heima.

And thats the whole ballgame‘ eins og kaninn myndi segja það.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.