Við hvern var ég að semja?

eftir Sigurður Helgi Birgisson

Verslun og viðskipti á rafrænum miðlum hafa á undanförnum árum orðið sífellt umfangsmeiri og segja má að slík viðskipti séu orðin reglulegur þáttur í daglegu lífi flestra. Æ fleiri verslanir bjóða upp á viðskipti á vefsíðum sínum þar sem gengið er frá samningi og vörur ýmist sendar kaupanda eða hann sækir þær á tiltekinn stað. Þá er orðið einfalt og þægilegt að opna netverslun sem hæglega má reka og stýra úr stofunni heima. Einföld viðskipti eins og kaup á pizzu geta nú til dags farið fram án nokkurra mannlegra samskipta. Pizzan er pöntuð og fyrir hana greitt á vefsíðu eða „appi” og hún síðan send heim að dyrum. Í viðskiptum sem þessum er yfirleitt augljóst mál hver seljandinn er og samið við hann beint. Málið á þó til að flækjast frekar með tilkomu milliliða, t.d. þegar viðskiptin fara fram á rafrænum sölutorgum (e. platforms).

Sölutorg á borð við www.bland.is hefur verið kærkomin búbót fyrir marga sem vilja koma gömlum eða nýjum eignum í verð og einnig fyrir þá sem vilja kaupa dýra hluti sem fást þar ódýrar. Með þessu móti geta sófasett, sjónvörp, tölvur og annað slíkt eignast nýtt líf hjá nýjum eiganda. Þessi viðskipti eru sjaldnast stunduð í atvinnuskyni og eru líkari því sem við þekkjum af flóamörkuðum á borð við Kolaportið. Því eru aðrar reglur sem gilda um þessi viðskipti og sú neytendavernd, sem við þekkjum af viðskiptum við fyrirtæki og fagaðila, með skilafresti og kærunefndum nær ekki til þessara viðskipta.

Þá kann regluverkið að vera enn móðukenndara þegar kaup fara um sölutorg á borð við Amazon, Ebay og Airbnb. Kaupandi vöru eða þjónustu treystir ef til vill á að hann sé að semja við viðurkennda og trausta fagaðila en annað kann að koma á daginn. Seljandinn getur ýmist verið rekstraraðili síðunnar, sem telst þá til fagaðila sem þarf að gæta að neytendavernd, eða þá einstaklingur sem nýtir sér sölutorg síðunnar, líkt og í tilfelli  www.bland.is. Þá kann söluaðilinn að vera staðsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins og álitaefni um alþjóðleg lausafjárkaup og lögsögu flækja málin enn frekar.

Þessi álitaefni hafa verið til umræðu á vettvangi Evrópusambandsins og telja sumir nauðsynlegt að bæta enn frekari reglum við neytendavernd innan sambandsins til að ná utan um þessi viðskipti. Þá hafa fjölmargar spurningar vaknað varðandi umsagna- og endurgjafakerfi (e. reviews and ratings), sér í lagi þegar um kostaðar umsagnir er að ræða sem kunna að gefa skakka mynd af vöru og þjónustu seljanda. Á þetta hefur verið bent með áhugaverðri tilraun þar sem ungur maður gerði kofann sinn að vinsælasta veitingastað Lundúna á TripAdvisor, án þess að bera fram einn einasta rétt. Vinsældirnar voru aðeins byggðar á kostuðum umsögnum.

Erfitt er að svara því hvort brýn þörf sé á frekari reglum en þung regluverk eiga til að flækja málin enn frekar og torvelda einföldum viðskiptum. Þá getur tekið tíma fyrir nýjar viðskiptavenjur að þróast og mótast. Séu skilmálar helstu sölutorga og söluaðila á netinu skoðaðir má sjá að rekstraraðilar taka gjarnan málin í eigin hendur og veita viðskiptavinum vernd í því ljósi að auka traust og sanngirni í viðskiptum. Svo traust geti myndast á milli aðila er þó ávallt grundvallaratriði að vita við hvern er samið og hvaða reglur gilda um samningssambandið.

 

Sigurður Helgi Birgisson

Pistlahöfundur

Sigurður Helgi er meistaranemi í lögfræði við Háskóla Íslands og hefur gengt embætti formanns Landssambands ungmennafélaga, LUF, undanfarin ár. Þá er hann formaður stjórnar Félags sjálfstæðismanna í Nes- og Melahverfi. Sigurður sinnti áður starfi hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúa Stúdentaráðs. Helstu áhugamál hans eru lögfræði, stjórnmál og íþróttir. Skrif hans í Rómi beinast helst að stjórnmálum og viðskiptum ásamt málefnum líðandi stundar.