Við getum öll lagt hönd á plóg

eftir Ritstjórn

Eftir stormasamar vikur í stjórnmálum sem einkenndust af bæði skiljanlegri reiði og óskynsamri fljótfærni var bjartsýnissprauta nauðsynleg. Fyrirlestur Dominic Barton, forstjóra alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins McKinsey & Company, í Háskólabíói á 100 ára afmælisfögnuði Viðskiptaráðs var því kærkominn. Gerði hann framtíðina að umræðuefni þar sem fjórða iðnbyltingin svokallaða mun spila aðalhlutverkið, og einkenndist fyrirlesturinn af tækifærum, hættum en jafnframt bjartsýni. Hægt er að horfa á fyrirlesturinn hér (hefst á 29:30). Skylduáhorf.

Stór hluti áheyrenda voru einmitt þeir sem þurftu að fá skilaboðin sem hann boðaði: ungt fólk sem mun móta framtíðina. Þegar nær öll umræða einkennist af ómálefnalegu hatri og byltingaáróðri, hvort sem það er í Evrópu, Bandaríkjunum eða hér heima, gleymist að horfa á tækifærin sem felast í framtíðinni. Það gleymist að aldrei hefur verið betra að vera mannskepnan á þessari plánetu.

McKinsey er fyrirtækið sem setti fram þá stefnumótun að Ísland skyldi breyta áherslum úr náttúruauðlindadrifnum búskap yfir í hugvitsdrifinn. Úr stóriðju í þekkingu. Það aðstoðar stærstu ríki og fyrirtæki heims í að leysa flókin vandamál og finna ný tækifæri og nýjar lausnir. Fá fyrirtæki hafa jafn góða tilfinningu fyrir framtíðinni og gera jafn miklar rannsóknir. Dominic Barton, sem flytur slíka fyrirlestra fyrir leiðtoga um allan heim, veit því hvað hann er að segja.

Heimurinn breytist hratt

Fyrirlesturinn fjallaði um fjóra krafta sem eru að breyta landslagi heimsins: breytingar á vaxtarmynstri heimsins, hröðun á breytingum í atvinnulífinu og raskanir sem hljótast af því, öldrun þjóða, og leitina að nýju samfélagslegu markmiði. Sérstaklega vöktu þrír þættir áhuga ritstjórnar: ris Afríku, öldrun heimsins og nauðsynleg breytt hegðun fyrirtækja.

Hvað fyrsta þáttinn varðar er búist við að vöxtur millistéttarinnar verði sambærilegur því sem Asía hefur upplifað undanfarna áratugi (og mun gera áfram). Þar galopnast nýir markaðir sem er stórkostlegt tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem og önnur. Lagði Dominic áherslu á við unga fólkið að horfa út fyrir landsteinana, heimurinn væri svo miklu stærri en Ísland, Evrópa og Bandaríkin.

Öldrun vestrænu heimsbyggðarinnar fylgja áskoranir sem Íslendingar hafa velt fyrir sér undanfarin ár. Fæðingartíðni á Íslandi er í lægstu lægðum í samanburði við önnur sambærilega þróuð lönd. Það, ásamt sífellt hækkandi lífslíkum, mun leiða til grundvallarbreytingar á flestum þáttum hagkerfisins. Lífeyriskerfin og almannatryggingar munu eiga erfitt með að standa undir skuldbindingum sínum þegar færri vinnandi hendur standa undir fleiri eldri borgurum, og hætta er á að ríkið muni þar þurfa að brúa bilið.

Dominic setti aðstæður í samhengi með að benda á að nettó skuldir ríkja um allan heim, sem stóðu í 59% af landsframleiðslu árið 2010, munu vaxa í 100% árið 2030 og 216% árið 2050, samkvæmt spám fyrirtækisins. Þessi skuldaaukning verður fyrst og fremst vegna öldrunar. Þá mun hlutfall 65 ára og eldri af heildarmannfjölda tvöfaldast fyrir 2050 og þeirra sem eru 80 ára eða eldri fjórfaldast. En þarna eru líka tækifæri. Eldra fólk þarfnast öðruvísi þjónustu sem kallar á nýsköpun, og þetta verður alþjóðleg áskorun.

Þriðja atriðið snýr að hegðun fyrirtækja. Vaxandi óánægja er með „hluthafahagnaðarhámarkandi“ hegðun fyrirtækja og aukin krafa er gerð til fyrirtækja að skila til samfélagsins. Ekki er einungis átt við skatta heldur að hjálpa til við þróun samfélagsins í kringum sig og passa betur upp á plánetuna. Komandi frá McKinsey gerir skilaboðin enn merkilegri, enda var fyrirtækið aðalklappstýra hluthafa áður fyrr. Það má því búast við að fyrirtæki um allan heim séu nú þegar farin að breyta áherslum sýnum með þetta í huga.

Óvirkari í athugasemdum og virkari í framkvæmdum

Rauði þráður Dominic var hins vegar að enginn einn aðili muni „laga allt“ í heiminum. Biðin eftir að ríkið eða einhver alvitur leiðtogi muni koma og bjarga heiminum verður endalaus og er því tímasóun. Allir geta lagt hönd á plóg, og eiga að gera það. Aldrei hefur verið auðveldara að ná til jafn margra með jafn lítið fjármagn, og því er ekkert til fyrirstöðu.

Öll athygli okkar heima undanfarin ár hefur verið að berja hvert á öðru. Virkir í athugasemdum hneyklast yfir öllu og í senn ber ríkið alltaf ábyrgð á öllu og á að gera allt. Í stað þess að finna nýja storma í vatnglasinu sem flýtur í sjónum er spurning um brjóta glasið og sigla á ný höf.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.