„Við borðum alltaf rjúpu“

eftir Björn Már Ólafsson

Ég man hvað tíu ára ég var hneykslaður þegar ég sá þetta atriði í Jólaósk Önnu Bellu. Agnes frænka var með bleikt jólatré! Er ekkert heilagt lengur? „Hvað varð um hið náttúrulega, græna grenitré?” hugsaði ég eftir að hafa alltaf farið upp í Skorradal og höggvið eigið sprellifandi jólatré með fjölskyldunni. Bleikt jólatré var óhugsandi og hámark hégómans!

Jólahefðirnar eru margar og sumar hverjar afar gamlar. Í dag heyrir maður í kringum sig sögur af skemmtilegum og sérstökum hefðum sem hefðu gert tíu ára Björn mjög hneykslaðan. Asian-fusion jólamat með rauðvínslegnum perum. Nauta carpaccio og salsiccia með Aperol Spritz sem aperitivo á milli máltíða. Eftirrétturinn er svo hin afar þjóðlega og ævaforna vegan skyrterta Jóa Fel. Jólatréð er silfurlitað og pakkarnir eru opnaðir á Þorláksmessu. Sannkölluð jólahátíð nútímafjölskyldu.

Mandarínur eða hrísgrjónabollur

Margar jólahefðir má rekja til trúarbragða og þeirrar hátíðar sem haldið er uppá. Aðrar hefðir hafa orðið til með árunum og uppruni þeirra er oft einhver allt annar en trúarlegur.

Saga jólatrésins er til dæmis umdeild þótt margir telja að hana megi aðallega rekja til 17. aldar. Sennilega hafa flest trúarbrögð notað sígrænar plöntur til skrauts yfir vetrarhátíðirnar.

Á Íslandi borðum við gríðarlegt magn af mandarínum yfir jólahátíðirnar og sömu sögu er að segja á öðrum norðurlöndum. Ekki tengist það í sjálfu sér jólunum heldur má það aðallega rekja til þess að uppskerutími mandarína í þeim löndum sem við höfum verslað við í gegnum tíðina er einmitt í nóvember og desember. Til gamans má geta að á Sikiley fagnar fólk hátíðar heilagrar Lúsíu með því að borða rétt sem nefnist „arancini” eða á íslensku „lítil appelsína”. Reyndar er alls ekki átt við raunverulegar appelsínur heldur er um að ræða steiktar hrísgrjónabollur með kjöti og korni en tengingin er skemmtileg.

Á norðurlöndunum er líka mikið lagt upp úr Lúsíu hátíðarhöldum, sérstaklega í Svíþjóð. Dagur hennar er haldinn heilagur þann 13. desember ár hvert þótt Lúsíumessa hafi að mestu lagst af við siðaskiptin þá lifði þessi hefð áfram í Svíþjóð og Noregi af einhverjum ástæðum. Á hátíðsdeginum sjálfum, 13. desember, borða Svíar og Norðmenn sætabrauð sem nefnist „lussekatt”. Þeir sem halda upp á þennan sama Lúsíudag í borginni Sírakúsu á Sikiley mættu hins vegar alls ekki smakka þessi bragðgóðu sætabrauð þar sem þeirra hefð felur í sér að stranglega bannað er að borða hveiti þann 13. desember og öll bakarí á Sírakúsu eru lokuð þann dag. Þarna hafa tvær andstæðar hefðir hefðir orðið til af sama uppruna.

Svo tenging jólahefðanna við Ítalíu sé fullkomnuð má nefna hin ástkæru jólalög okkar sem mörg hver eru ítölsk popplög frá San Remo tónlistahátíðinni en lifa nú góðu lífi á Léttbylgjunni og í misgóðum hátalarakerfum verslana sem selja verslunaróðum Íslendingum bæði þarfar vörur og óþarfar í jólaösinni.

Hefðin hefðarinnar vegna

Við sköpum okkur öll okkar eigin jólahefðir, allar fjölskyldur og ættir. Þegar pör taka saman og mynda nýja fjölskyldu þarf að taka afstöðu til hefðanna. Sumar hefðir fá að lifa en aðrar deyja út. Stundum er gaman að prófa eitthvað nýtt. Ef vel reynist verður ný jólahefð til. Ef illa tekst til, þá er það gleymt strax ári síðar.

Sjálfum finnst mér jólin vera tímabil þar sem ég missi tímaskynið. Það skiptir mig litlu máli nákvæmlega hvenær innan jólahátíðarinnar ég upplifi hluti. Pakkana gæti ég alveg opnað á gamlárskvöld en af tillitssemi við yngri kynslóðina þá hef ég enn ekki borið þessa tillögu upp á fjölskyldufundi. Það skiptir mig heldur ekki máli nákvæmlega hvaða dag jólaskrautið fer upp, heldur bara að það fari einhvern tímann upp. Það skiptir mig heldur ekki máli nákvæmlega hvenær ég horfi á Love Actually og hlæ bæði af og með Hugh Grant. Eða hvenær ég horfi á sænska jólaþáttinn af Andrési Önd og grenja úr hlátri þegar álfurinn aðstoðarmaður jólasveinsins málar taflborðið með köflóttu málningunni. Það er nóg bara að ég geri það einhvern tímann yfir hátíðarnar.

Hefðirnar verða að vera þannig að þeim fylgi einhver skemmtun. Hefðir hefðanna vegna veita enga ánægju nema að þær hafi einhvern æðri tilgang. Verum óhrædd við að skapa nýjar hefðir og sprengjum gamlar og úr sér gengnar hefðir í burtu ásamt gamla árinu með stærsta flugeldanum á áramótunum.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.