Við ættum að lækna krabbamein

eftir Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Ein helsta dánarorsökin hér í hinum ríka vestræna heimi er krabbamein, en á sama tíma kemst það ekki einu sinni á topp 10 listann yfir helstu dánarorsakir í fátækari löndum. Það má í raun segja að eitt mesta ,,first world problem” sem við vesturlandabúar glímum við sé krabbamein.

Hvers vegna? Jú, vesturlandabúar hafa einfaldlega læknað flest allt annað og lifa mjög lengi, eða að meðaltali til 70 ára aldurs. Sjúkdómarnir sem herja á fátækari ríki, eins og malaría, berklar og HIV, eru ekki dauðadómar í okkar heimshluta. Við sem búum í ríkari löndum eldumst því og eldumst, og að lokum, ef ekkert annað nær í skottið á okkur, fáum við flest krabbamein.

Nú þykist ég nokkuð viss um að flest okkar þekkja einhvern sem hefur sigrað krabbamein, glímir við það núna eða féll frá vegna sjúkdómsins. Einnig eru mörg okkar skíthrædd við sjúkdóminn og líta svo á að hann sé dauðadómur, líkt og HIV veiran fyrir nokkrum árum. En framfarir í læknavísindum eru mjög miklar og þar eru krabbameinslækningar engin undantekning. Í raun hefur framtíðin sjaldan verið jafn björt á því sviði og í dag.

Áður en lengra er haldið er gott að byrja á því að útskýra: hvað er krabbamein og hvernig myndast það?

Krabbamein for dummies

Líkami okkar samanstendur af gífurlega miklu magni af frumum. Frumurnar eru sífellt að fjölga sér og í hvert skipti þurfa frumurnar að afrita DNAið sitt, sem er einfaldlega uppskriftin af byggingu og hlutverki frumunnar, til að gefa nýju frumunni afrit af uppskriftinni.

Frumur eru hins vegar ekki gæða-ljósritunarvélar og því verða oft villur í afrituninni. Fruman þekkir þó galla sína og er með líffræðilegt tipp-ex til að laga villurnar þegar eitthvað fer úrskeiðis. Það getur hins vegar gerst að villur laumist framhjá frumunni og leiða þær þá stundum til stökkbreytinga. Þessar stökkbreyttu frumur geta svo breyst í krabbameinsfrumur.

Óttist ekki. Líkaminn er klár og er með back-up plan: ónæmiskerfið. Ónæmiskerfið okkar samanstendur af fyrirtaks hermönnum sem ráðast á óvelkomna gesti. Hermennirnir gegna hins vegar öðru meginhlutverki og það er að finna og ganga frá frumum sem klúðruðu alveg afrituninni. Þeir elta þær niður og biðja þær um að fremja sjálfsmorð, nema allt sé í algjöru rugli hjá frumunum en þá eru þær miskunnarlaust drepnar.

En því miður er ónæmiskerfið aðeins mannlegt líkt og við hin og mögulegt er að blekkja það. Krabbameinsfrumur eru nefnilega bráðsniðugar og kunna alls kyns brellur til að fela sig fyrir ónæmiskerfinu.

Í hvert sinn sem krabbameinsfruman skiptir sér eru miklar líkur á fleiri stökkbreytingum. Sumar þessara stökkbreytinga gefa krabbameinsfrumunni ný tól til að verja sig fyrir ónæmiskerfinu. Hermenn ónæmiskerfisins reyna að hafa hemil á þessum bölvuðu frumum en þær geta einfaldlega logið að ónæmisfrumunum: ,,abbabbabb! ég er bara venjulegur leikmaður ekki drepa mig!” Ónæmisfrumurnar trúa þessu, því miður, biðjast afsökunar á ónæðinu og halda áfram leitinni að gölluðum frumum. Þetta gefur krabbameinsfrumum frelsi til að skipta sér áfram og dreifast til annarra líffæra og þannig herja á líkamann.

Krabbamein er ekki bara krabbamein

Eins og frumur eru flóknar, fjölbreyttar og sinna ótal störfum er krabbamein flókið og fjölbreytt. Þegar þú greinist með krabbamein skiptir öllu máli hversu dreift það er, hvar það er o.s.frv. Til aðgreiningar er krabbameini því skipt í fjögur stig eftir vexti og útbreiðslu frumnanna:

  1. stig: Meinið er lítið og takmarkast við það líffæri sem það óx fyrst í.
  2. stig: Meinið er stærra en takmarkast yfirleitt enn við upphaflega líffærið. Stundum þýðir 2. stig einnig að finna megi krabbameinsfrumur í nærliggjandi eitlum.
  3. stig: Meinið er stórt. Krabbameinsfrumur finnast í nærliggjandi eitlum og meinið getur hafa breiðst út í nærliggjandi vefi.
  4. stig: Meinið hefur dreift sér í önnur líffæri líkamans.

2016_07_19 Hofi

Um myndina: Á öðru stigi má sjá að meinið er stærra. 3. stigs mein hefur dreift sér í nærliggjandi eitla en 4. stigs hefur dreift sér í nýtt líffærið, hér í lunga.

Þegar sjúklingur er greindur með 4. stigs krabbamein er oft talað um að sjúkdómurinn sé ólæknandi og ljóst að hann mun leiða til dauða. Fyrir aðeins fáum áratugum þýddi 4. stigs krabbamein aðeins nokkurra mánaða líftíma. Í dag eru horfurnar hins vegar mun betri vegna bættra lyfja og stundum tala læknar frekar um krónískan sjúkdóm heldur en dauðadóm.

Krabbamein er hins vegar í raun samansafn af mörgum sjúkdómum og tiltækar meðferðir eru mismunandi eftir hvaða líffæri á í hlut. Við könnumst flest við hefðbundnu krabbameinslyfin þar sem hárið fýkur, ógleði og bjúgur leggst á sjúklinginn og hann verður iðulega óvinnufær. Þær meðferðir reyna að ráðast á krabbameinið með því að drepa frumur sem skipta sér hratt. Því miður eru það ekki bara krabbameinsfrumur, heldur einnig venjulegar líkamsfrumur líkt og hárfrumur og slímhúðarfrumur. Slík lyfjameðferð er yfirleitt fyrstu viðbrögð við greiningu.

Þegar sjúkdómurinn hefur hins vegar náð 4. stigi er ljóst að við erum að glíma við erfiðari fjendur. Lengi vel, og því miður enn í sumum tegundum krabbameins, var eina vonin við 4. stigs krabbameini að prufa aftur þessa hefðbundnu “drepum allt” meðferð.

Lækning í nánd?

Í dag er fleiri kostir. Nýjustu lyfin nota ákveðin merki sem eru einkennandi aðeins fyrir krabbameinsfrumur. Þannig ræðst lyfið einungis á krabbameinsfrumurnar en skilur aðrar frumur líkamans eftir. Þessar meðferðir hafa töluvert færri aukaverkanir og geta sjúklingar oft unnið með slíkum lyfjameðferðum. Þetta eru að sjálfsögðu frábærar framfarir en því miður lækna þessi lyf ekki, þau lengja aðeins tímann sem sjúklingurinn getur lifað.

Ég vinn sjálf við krabbameinsrannsóknir. Rannsóknarhópurinn minn rannsakar hvernig við getum endurforritað ónæmiskerfið til að læra að þekkja krabbameinsfrumurnar og drepa þær. Rannsóknir sem miða að því að endurforrita ónæmiskerfið til að sinna sínu hlutverki og sjá sjálft um að drepa krabbameinsfrumur hafa loksins tekist á flug. Hver vísindagreinin á fætur annarri birtist í vísindatímaritum þar sem vísindamenn og læknar sýna fram á að þeim hefur tekist að lækna fólk með 4. stigs krabbamein. Já, ég skrifaði LÆKNA. Fólk sem áður var dauðvona, átti kannski aðeins 3-6 mánuðir eftir, labbar út eftir meðferð – krabbameinsfrítt.

Aðferðin er í raun einföld og bráðsniðug. Ónæmisfrumur sjúklingsins eru teknar út og þær endurforritaðar til að þekkja eitt ákveðið skotmark, skotmark sem aðeins finnst á krabbameinsfrumunum. Öðrum ónæmisfrumum í líkama sjúklingsins er svo eytt með lyfjameðferð til að búa til pláss fyrir þessa nýju endurforrituðu víkingasveit ónæmiskerfisins.

Þessari víkingasveit er svo einfaldlega sprautað inn í sjúklinginn og svo er beðið eftir að ónæmiskerfið sjái um að drepa krabbameinið, líkt og það átti alltaf að gera. Vísindamenn hafa séð tölur um að hátt í 90% sjúklinga með hvítblæði læknast og í mínum rannsóknarhóp hér í Danmörku höfum við læknað 20% sjúklinga með 4. stigs sortuæxli. Sjúklinga sem var nánast búið að afskrifa. Þetta er sannkallað “break-through”.

Því miður eru þessar meðferðir enn aðeins bundnar við ákveðnar tegundir krabbameins en vonandi á næstu 20 árum munum við sjá lyf eða meðferðir sem lækna allar hinar tegundirnar. Við höfum t.d. þegar hafið rannsóknir á eggjastokkakrabbameini. Við verðum að halda áfram!

Hvað getur Ísland gert?

Það leikur enginn vafi á því að krabbamein er gífurlega margslunginn sjúkdómur sem hefur yfir hundrað birtingarmyndir. Það er áfall að greinast með hann, það er sárt að missa ástvini úr honum en sárust er tilhugsunin um að geta lítið gert gagnvart honum. Bætt vísindi og ný lyf vekja samt von.

Við Íslendingar þurfum hins vegar að marka okkur góða stefnu í þessum málum. Það gengur ekki að nýjustu lyfin og meðferðir komi á íslenskan markað meira en fimm árum á eftir öðrum Norðurlöndunum. Það er vitað mál að nýjustu lyfin verða dýr og við þurfum að vera tilbúin að taka ákvarðanir um hvernig við ætlum að mæta þeim kostnaði.

Við þurfum skýra stefnu um hvernig heilbrigðiskerfi við viljum reka. Það er ekki nóg að segja bara “gott heilbrigðiskerfi með aðgang fyrir alla”. Við þurfum að geta læknað fólkið líka, eða að minnsta kosti gefið þeim bestu möguleikana á lengra og betra lífi.

Hvernig heilbrigðiskerfi viljum við hafa á Íslandi?

Viljum við skapa grundvöll fyrir grunnrannsóknir og laða þannig að ungu vísindamennina okkar til landsins? Viljum við framúrskarandi heilbrigðiskerfi á sviði rannsókna? Viljum við taka þátt eða ætlum við að bíða eftir að aðrir sjái um þetta?

Þrátt fyrir litlu sigrana sem vísindamenn og læknar uppskera gegn þessum erfiða sjúkdómi, eru alltof margir sem tapa. Og í hvert skiptið sem einstaklingur tapar langt um aldur fram, tapar allt þjóðfélagið. Framtíðin í læknavísindunum er samt björt og við verðum að taka þátt í þróuninni. Við verðum einfaldlega að gera betur.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Hólmfríður Rósa er nemi í lífefnafræði á ónæmisfræðisviði Kaupmannahafnarháskóla og leggur stund á rannsóknir á ónæmismeðferðum við krabbameinum. Áður lauk hún prófi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands. Hólmfríður Rósa hefur meðal annars starfað við umönnun á hjúkrunarheimili, prófbúðakennslu í HÍ og danskennslu við JSB.