Versta blótsyrði íslenskrar tungu

eftir Alexander Freyr Einarsson

Spurt er um orð.

Fyrsta vísbending: Orðið er sannkallað blótsyrði í íslenskri tungu en á þó ekki rætur sínar að rekja í kristna trú.

Önnur vísbending: Líklega var orðið ekki alltaf blótsyrði en nú til dags verða margir Íslendingar öskureiðir við það eitt að heyra það nefnt á nafn.

Þriðja vísbending: Þrátt fyrir að orðið hafi upphaflega haft allt aðra þýðingu er það nú orðið samheiti yfir spillingu.

Gefstu upp? Orðið sem um ræðir er að sjálfsögðu einkavæðing. Til hamingju ef þú varst með þetta! Staðan í dag er allavega sú að svo virðist sem stór hluti Íslendinga líti á sölu ríkiseigna til einkaaðila sem eitt það versta sem komið getur fyrir samfélagið. Þeir sem benda á kosti einkavæðingar eru gjarna sakaðir um að vilja arðræna þjóðina enda virðist fólk oft setja samansemmerki á milli sölu ríkiseigna og gjöf ríkiseigna. Framkvæmd hins síðarnefnda er auðvitað galin og á ekkert skilt við kapítalisma, heldur króníisma. Sala ríkiseigna getur hins vegar reynst samfélögum afar hagsæl og vel er hægt að færa rök fyrir því án þess að eiga sjálfur fjárhagslegra hagsmuna að gæta.

Einkavæðing banka

Fyrirtækjarekstur er í eðli sínu áhættusamur og þá sérstaklega rekstur banka. Bankarnir hafa vissulega skilað mörgum milljörðum króna í hagnað undanfarin ár en hann hefur þó dregist saman, auk þess sem arðsemi eigin fjár hefur alls ekki verið framúrskarandi. Árið 2016 var arðsemi eigin fjár Landsbankans einungis 6,6% og hjá einkabankanum Arion banka var hún 10,5%. Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka fyrstu níu mánuði síðasta árs var 10,3%. Hjá öllum bönkum minnkaði arðsemin á milli ára, þó ekki megi gera lítið úr því að í krónutölu græddu þeir helling af peningum. Arðsemi er hins vegar það sem telur, ekki krónutalan. Hægt er að finna íslensk ríkisskuldabréf sem bera 8% vexti og sú fjárfesting er sú öruggasta sem finnst hér á landi. Hvort vilt þú örugg 8% eða 6-10% fyrir að reka banka? Svarið er augljóst. Þetta dæmi er einungis sett fram til að sýna að bankar eru ekki einhvers konar gullgæs sem verpir endalaust fyrir eigendur sína. Fréttir vikunnar af svissneska bankanum Credit Suisse, sem tapaði 272 milljörðum króna á síðasta ári, eru einnig ágætis áminning.

Hvers vegna á ríkið að taka áhættuna af bankarekstri? Ekkert heilbrigt vestrænt samfélag lætur ríkið sjá alfarið um rekstur tveggja af þremur stærstu bönkum hagkerfisins og fyrir því eru góðar ástæður. Íslenska ríkið er hins vegar með hundruði milljarða króna bundna í bankakerfinu sem gætu sannarlega komið sér betur annars staðar. Ríkið á nefnilega ekki endalaust af peningum og það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef það á að setja stórfé í að fjármagna innviði: heilbrigðiskerfið, vegakerfið, löggæslu, almannatryggingar og fleira, þá þarf að afla þessara peninga. Í stað þess að hækka skatta eða gera skattkerfið enn ósanngjarnara er hægt að losa um eignir ríkisins í bankakerfinu. Það er enginn að tala um að gefa eitt né neitt, þeir sem ætla sér að kaupa bankana þurfa að borga fyrir þá sanngjarnt verð. Sjálfsagt eru einhverjir Íslendingar enn brenndir yfir einhverri einkavæðingu sem átti sér stað þegar ég var enn í bleyju, en hafi verið gerð mistök þar er um að gera að læra af þeim. Ef bankarnir verða seldir er ljóst að fjöldinn allur af óháðum sérfræðingum mun sökkva sér í gríðarlega vinnu til að sjá til þess að fyrir þá fáist sem best verð. Stjórnmálamenn landsins og allir aðrir vita að augu Íslendinga eru vökul og ekkert rými til þess að gera mistök.

Í stuttu máli: Bankarekstur er gríðarlega áhættusamur og æskilegt er að ríkið losi um eignarhlut sinn í bönkunum. Þá er hægt að auka útgjöld til muna í ýmsa þætti sem raunverulega má færa rök fyrir því að ríkið eigi að koma að, t.d. heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Nokkur hundruð milljarðar króna og léleg arðsemi eigin fjár m.v. áhættu er einfaldlega allt of hár fórnarkostnaður.

Einkavæðing annarra ríkiseigna

Á þessum tímapunkti eru allir lesendur sammála mér um að ríkið eigi alls ekki að reka banka, utan við þá sem telja að ég sé algjör hálfviti. En við skulum halda áfram og skoða annan rekstur.

Til að orða það pent, þá hefur ákveðin kenning verið á lofti í nokkurn tíma sem segir að einkaaðilar séu almennt betur til þess fallnir að reka fyrirtæki heldur en ríkisstofnanir. Þá er ekki einungis átt við að þeir geti skilað meiri hagnaði, heldur almennt veitt betri þjónustu. Á hverjum degi sér aragrúi einkaaðila til þess að okkar helstu þarfir eru uppfylltar. Við kaupum mat í matvöruverslunum, bensín á bensínstöðvum, föt í fataverslunum, byggingavörur í byggingavöruverslunum, sjónvörp og heimilistæki í raftækjaverslunum, húsgögn í húsgagnaverslunum, bíla hjá bílaumboðum og svona má lengi telja. Allt þetta gerum við án nokkurrar aðkomu ríkisins, nema auðvitað skattanna sem það smyr ofan á vörurnar. Það er mér því hulin ráðgáta hvers vegna hópur fólks telur ríkið betur til þess fallið að reka fyrirtæki heldur en einkaaðila.

Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA, viðraði á Viðskiptaþingi á dögunum þá hugmynd að selja hluta af opinberum orkufyrirtækjum til einkaaðila, m.a. til að draga úr áhættu skattgreiðenda og virkja einkaframtakið í orkugeiranum. Ræða Gísla vakti gríðarlega hörð viðbrögð ýmissa réttlætisriddara þrátt fyrir að þar hafi komið fram mjög rökrétt sjónarmið. Arðsemi ríkisfyrirtækja í orkugeiranum hefur alls ekki verið til fyrirmyndar og að mati GAMMA væri hægt að selja 30% hlut af eign hins opinbera í orkufyrirtækjum á 250 milljarða! Ég get ekki einu sinni ímyndað mér hversu frábæran spítala við gætum byggt fyrir þann pening. Þess má geta að hið opinbera fyrirtæki Landsnet tapaði 1,5 milljarði króna í fyrra. Þumalputtaregla: Þegar opinbert fyrirtæki tapar peningum eru skattgreiðendur að tapa peningum. Þeir sem óttast að okrað verði á Íslendingum ef einkaaðilar eignast orkufyrirtæki, vegna mögulegrar einokunar, verða að hugsa málið betur.

  1. Hægt er að setja ýmsa skilmála í kaupsamninga til að draga úr einokunarrentu.
  2. Ef ríkið er enn ráðandi hluthafi, þá munu einkaaðilarnir væntanlega ekki getað hækkað verð upp úr öllu valdi.
  3. Er ekki allt í lagi þó rafmagn væri aðeins dýrara? Er betra að ríkið niðurgreiði það? Ef rafmagn er of ódýrt, þá leiðir það einfaldlega til sóunar. Ef rafmagn er dýrara mun fólk án efa draga úr neyslu þess án þess að lífsgæðin minnki um of: T.d. með því að slökkva ljósin inni á klósetti þegar það er búið að pissa. Ég er sannfærður um að í heildina gætu íslensk heimili notað allavega 20% minna rafmagn en þau eru að gera í dag (algerlega óvísindalegt mat).

Örstutt í viðbót. Í síðasta mánuði birti Viðskiptaráð greinagóða úttekt á fasteignaumsvifum hins opinbera og lagði t.a.m. til að ríkið myndi selja skrifstofuhúsnæði í eigu sinni til einkaaðila og leigja það síðan af þeim. Mörgum svelgdist á kaffibollanum við lesturinn og höfðu sjaldan heyrt aðra eins vitleysu. Viðbrögðin voru í raun líkt og Viðskiptaráð hefði stungið upp á því að ríkið myndi gefa eignirnar sínar. Mikilvægt er að átta sig á því að ríkið mun auðvitað leggja upp úr því að fá sanngjarnt verð fyrir fasteignirnar. Þarna munu aftur safnast milljarðar sem hægt er að nota í eitthvað skynsamlegra en húsnæði. Þeir sem halda því fram að ríkið tapi á þessu vegna þess að leigan verður hærri þurfa að átta sig á því að fórnarkostnaður ríkisins við að leigja opinberum stofnunum húsnæði á undirverði er auðvitað ekkert annað en hreinn og beinn kostnaður. Ríkisstofnanir spara krónur og ríkissjóður fer á mis við krónur. Þetta kemur niður á núlli.

Lokaorð

Til að færa frekari rök fyrir því að ríkissjóður selji eignir sínar til einkaaðila þarf mun lengri texta sem fáir myndu nenna að lesa. Íslendingar kunna að vera brenndir eftir einkavæðingar fortíðar sem þeir telja misheppnaðar. Oft er orðinu „einkavinavæðing“ kastað fram og ég styð að sjálfsögðu engar slíkar aðgerðir. Hins vegar er ég sannfærður um að ríkið geti framkvæmt árangursríka og heilbrigða einkavæðingu á eignum sínum þannig allt samfélagið njóti góðs af. Við erum að tala um eignir sem eru ekki að skila mikilli arðsemi, eru mjög áhættumiklar í rekstri og ríkið hefur enga ástæðu til að reka, a.m.k. ekki að fullu. Hundruðir milljarða til að fjármagna grunnviði samfélagsins munu aldrei vaxa á trjánum. Þeir leynast hins vegar í eignum sem ríkið hefur ekkert við að gera. Látum aðra taka áhættuna, leyfum öðrum að njóta árangursins ef vel gengur, látum peningana renna í það sem skiptir okkur öll svo miklu máli: gott heilbrigðiskerfi, gott menntakerfi og viðunandi þjónustu til þeirra sem minna mega sín.

Alexander Freyr Einarsson

Pistlahöfundur

Alexander Freyr er MFin frá Massachusetts Institute of Technology og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann býr í New York þar sem hann starfar í fjárfestingarbanka. Áður starfaði hann hjá Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við Endurreisn” ásamt Dr. Ásgeiri Jónssyni. Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín.