Fortíðarhyggja Framsóknarflokksins

eftir Ritstjórn

Í dag stendur grasrót Framsóknarflokksins frammi fyrir tveimur kostum. Annað hvort skal endurnýja umboð formanns flokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eða kjósa nýjan leiðtoga, Sigurð Inga Jóhannsson, forsætisráðherra.

Nýlega hafa innri deilur í Framsóknarflokknum blásið út svo allir landsmenn geti séð og heyrt. Hafa þingmenn flokksins, auk trúnaðarmanna, stigið fram og lýst yfir stuðningi við annan hvorn frambjóðandann eða grafið undan þeim. Eða hvort tveggja. Það sem margir myndu telja stundarbræði flokksmanna hefur þó kraumað undir niðri allt frá því að Wintris-málið kom upp í vor. Nú þegar líður að kosningum sjá þingmenn flokksins og ráðherrar að fylgi við hann hefur ekki aukist með Sigmund Davíð í brúnni og fullyrt hefur verið í fjölmiðlum að nær allur þingflokkurinn standi að baki Sigurðar Inga. Líklega óttast þingmenn hið versta, að missa þingsæti sitt, og sjá engan möguleika annan í stöðunni en að skipta um leiðtoga. Sigmundi Davíð hafi einfaldlega ekki tekist að hrista af sér Wintris-skandalinn.

Hver sem niðurstaðan verður í formannskjörinu, er ljóst að Framsóknarflokkurinn á langt í land í vegferð sinni að fyrra fylgi og telja verður ólíklegt að hann vinni sigur í alþingiskosningunum þann 29. október næstkomandi.

Sérhagsmunagæsla úr óvæntri átt

Hvað sem líður innri málefnum Framsóknarflokksins, þá hefur hann einnig skipað sér sess út á við. Mörgum reynist erfitt að staðsetja flokkinn á hinu pólitíska rófi og er það engin furða enda hverfist hann ekki um pólitíska hugsjón af hefðbundnum toga, heldur einblínir einna helst á sérhagsmuni, og þá sér í lagi hagsmuni bændastéttarinnar á Íslandi.

Áminning um þetta kom úr harla óvæntri átt í eldhúsdagsumræðum á Alþingi síðastliðinn mánudag, en þar flutti Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, ræðu þar sem hún varði þessar áherslur Framsóknarmanna í landbúnaðarmálum með kjafti og klóm. Fram til þessa man ritstjórnin ekki til þess að hún hafi sérstaklega fjallað um mál bænda og er hún af mörgum talin vonarstjarna Framsóknarflokksins vegna þess að hún er ábyrg, yfirveguð og nokkuð frjálslynd – og hingað til laus við sérhagsmunatalið sem einkennir oft á tíðum flokksmenn.

Í ræðu sinni fjallaði Lilja um greiðasemi og tók dæmi af fjárveitingum til heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og menninga- og lista. Sagði hún slíkar fjárveitingar ekki greiðasemi við þær starfsstéttir sem ynnu í þessum geirum, almenn sátt væri um að fjárveitingarnar væru til þess fallnar að bæta samfélagið. Að lokum sagði hún styrki til bænda og landbúnaðar lúta sama lögmáli, almenn sátt væri um fjárfestingu í „matvælaöryggi og atvinnuþróun.”

Það sem stingur í stúf við orð Lilju eru niðurstöður könnunar MMR sem birtust sama dag og hún flutti ræðu sína. Í könnuninni voru viðmælendur spurðir hversu fylgjandi eða andvígir þeir væru nýjum búvörusamningum sem samþykktir voru á Alþingi nú í september. Niðurstaðan var sú að 40% Íslendinga eru mjög andvígir samningunum og 22,4% frekar andvígir. Aðeins 16,4% sögðust mjög fylgjandi eða frekar fylgjandi. 62,4% Íslendinga eru því andvígir þeim samningum sem nýlega voru samþykktir. Það gæti verið til marks um að einhvers staðar sé pottur brotinn í „hugmyndafræði” Framsóknarflokksins.

Í það minnsta hlýtur könnunin að vekja Lilju til umhugsunar um hvort raunveruleg sátt sé meðal landsmanna um fjárveitingar til bænda og iðnaðar í landbúnaði. Gæti verið að búvörusamningarnir séu greiðasemi við tiltekinn þjóðfélagshóp? Gæti verið að samningurinn, í bland við „slæma” niðurstöðu í formannskjörinu verði Framsókn dýrkeypt í kosningunum í haust?

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.