Verðtryggingin – úrelt deiluefni

eftir Ritstjórn

Framsóknarflokknum er ekki vel við verðtrygginguna. Eitt af kosningaloforðum flokksins í þingkosningunum 2013 var að afnema hana á neytendalánum og leiðréttingin snéri að höfuðstólslækkun verðtryggðra lána frá 2008 til 2009.

Flokknum hefur ekki tekist að uppfylla fyrra loforðið á þessu kjörtímabili en af umræðu síðustu vikna að dæma er ljóst að verðtryggingin verði mikið hitamál hjá Framsókn í komandi kosningum. Tóku til að mynda tveir þingmenn flokksins sig saman í síðustu viku og skrifuðu grein í skoðanadálk Fréttablaðsins um hugmyndir Framsóknarflokksins til að draga úr vægi verðtryggingarinnar með það að markmiði að afnema þær af neytendalánum.

Það er alltaf gott þegar ráðamenn og opinberir aðilar koma fram og skrifa um hugmyndir sínar og sýn. Þá verður mögulegt fyrir ólíkar skoðanir að koma fram og líklegra að niðurstaðan verði á sannfærandi rökum reist. Að því leytinu til er þessi grein Framsóknarmanna gott innlegg í umræðuna. Jafnframt getur verið að hugmyndirnar séu kynning á efni frumvarps um verðtrygginguna sem Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, hefur sagt að verði lagt fram í næstu viku. Greinin er því enn áhugaverðari fyrir vikið.

Hins vegar, hryggir mikið að þessi umræða þurfi yfir höfuð að eiga sér stað. Hún er merki um takmarkaða þekkingu á orsök vandans sem fólk upplifir. Vanþekkingu sem ákveðnir aðilar hafa misnotað til að afvegaleiða umræðuna frá staðreyndum sem hentar þeim ekki.

Byrjum á að útskýra snöggvast hvað verðtryggingin er.

Hvað er verðtrygging?

Þegar aðili A lánar B fjármagn býst hann við því að fá sömu upphæð greidda til baka og hann lánaði upphaflega – og yfirleitt með vöxtum. En það er lykilatriði að A fái a.m.k. jafnháa upphæð að raunvirði greidda til baka því annars mun hann ekki lána neitt. Ef það verður t.d. mikil verðbólga á endurgreiðslutímabilinu er hætta á að þó upphæðin sé sú sama í krónum þá geti hún keypt minna af sömu vörum og sama upphæð gat áður fyrr. Til dæmis gátu 100 krónur keypt kókdós fyrir tíu árum síðan en vegna óðaverðbólgu þarf núna 200 krónur.

Þegar vextir eru verðtryggðir, er verið að tryggja að upphæðin sem er lánuð lækki ekki að raunvirði þegar verðbólga eykst. Ef verðbólga veldur því að nú þurfi 200 krónur til að kaupa kókdós en áður þurfti 100, er enginn aðili til í að lána 100 krónur á 5% vöxtum og láta þar við sitja. Hann tapar miklum pening á því – að raunvirði. Hann tapar verðmætum.

Það var vandamál á árum áður. Þegar verðtryggingin var sett á árið 1979 hafði verðbólga verið mjög há en vextir máttu ekki hækka meira en 40%. Þegar verðbólgan fór yfir þessi 40% át hún upp höfuðstólinn af lánum fólks og enginn hafði lengur neinn hvata til að spara. Og um leið og enginn vill lána, getur enginn tekið lán sem er afar mikilvægur hluti af þróuðum hagkerfum. Til að hvetja aftur til sparnaðar var því verðtryggingin sett á.

Verðtryggingin eru einfaldlega vextir lagðar ofan á lánið sem nemur verðbólgunni. 10% verðbólga þýðir 10% auka vextir. Síðan eru lagðir á vextir fyrir sjálft lánið eins og í hverjum öðrum lánaviðskiptum. Það kann að hljóma ósanngjarnt en það er nákvæmlega það sama og er gert í óverðtryggðum lánum. Þar eru lagðir á grunnvextir til að greiða fyrir lánið sjálft og svo vextir sem nemur verðbólguvæntingu fólks. Ef hætta er á mikilli verðbólgu, eins og vegna mikilla launahækkana, hækka verðbólguvæntingar og óverðtryggðir vextir hækka líka.

Auk þess eru óverðtryggðir vextir áhættumeiri fyrir lánveitendur þannig að heildarvaxtaprósenta þeirra lána er iðulega hærri en heildarvaxtaprósenta verðtryggðra lána (þ.e. vextir og verðbólga). Ef verðtryggingin yrði bönnuð myndu möguleikar lánveitenda á að tryggja lánin sín gagnvart verðbólgu minnka og í kjölfarið myndu þeir hræðast verðbólguna meira. Ef verðtryggingin yrði bönnuð myndu vextir óveðrtryggðra lána einfaldlega hækka.

Tillögur Framsóknarflokksins

Grein Framsóknarmanna um verðtrygginguna inniheldur fjórar hugmyndir. Tvær þeirra byggja á því hvernig mælikvarðinn sem liggur að baki verðbólgu, vísitala neysluverðs, er reiknuð og beitt. Hinar tvær snúa beint að verðtryggðum lánum og eru því mikilvægari að taka til skoðunar.

Önnur þeirra segir að setja yrði ,,þak á verðtryggingu þannig að lántaki og lánveitandi skipti með sér áhættu.” Ef verðbólgan nái ákveðinni prósentu taki lánveitandinn áhættuna umfram það. Afleiðing þessa er mjög einföld: vextir á láninu hækka sem nemur verðbólguvæntingum lánveitandans.

Hin hugmyndin er ,,að setja takmarkanir á fjölda þeirra verðtryggðu lána sem lánastofnanir geta átt.”Þetta þýðir að fjármálastofnanir landsins munu hafa færri leiðir til að tryggja sig gagnvart verðbólgu þegar hún fer af stað og meiri áhætta verður af fjármálakerfinu. Til að svara þessari áhættu munu lánveitendur aftur hækka vexti.

Þannig þeirra grunntillögur snúast um að auka áhættu kerfisins og hækka vexti. Og kostnaður þess er að draga úr valfrelsi fólks á lánum sem eru með þægilega greiðslubyrði og fólk kýs að taka, auka áhættu fyrir fjármálakerfið og hækka vexti á öðrum lánum.

Síðan má ekki gleyma því að við viljum hafa sparnaðinn okkar verðtryggðan, t.d. lífeyrinn okkar. Þegar verðtryggðum fjárfestingamöguleikum lífeyrisjsóðanna er fækkað, t.d. með að banna verðtryggð lán, verður erfiðara fyrir lífeyrissjóðina að ávaxta sig.

Verðtryggingin er ekki orsök heldur afleiðing

Grunnvandamálið sem allir upplifa er ekki verðtryggingin heldur verðbólgan sjálf. Þar skiptir öllu máli smæð litla gjaldmiðilsins okkar sem hefur reynst ófær um að standa á eigin fótum haftalaus. Því má að miklu leyti kenna slakri hagstjórn um áratuga skeið og er hætta á að samspil launahækkana undanfarinna ára og stýrivaxtahækkana Seðlabankans muni skapa óstöðugleika sem kemur verðbólgunni aftur af stað. Þannig er saga okkar litlu krónu.

Tvískinningurinn í orðræðu Framsóknarmanna og þeim sem vilja afnema verðtrygginguna er iðulega sá að þeir sömu vilja halda krónunni og hampa henni í hvívetna. Það er ef til vill ástæða þess að þeir ganga svo hart gegn verðtryggingunni, til að reyna að afvegaleiða umræðuna frá rót vandans.

Afnám verðtryggingarinnar með óbreyttri hagstjórn mun ekki leiða neitt gott af sér, það er alveg ljóst.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.