Velja Ítalir meiri stöðugleika eða meira lýðræði?

eftir Björn Már Ólafsson

Manchester United og Chelsea mættust í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði. Ímyndaðu þér að sitja á Old Trafford og opna leikskránna þar sem finna má viðtöl við leikmenn liðsins og farið er yfir helstu staðreyndir. Paul Pogba myndi aðspurður segjast vera öfgahægrimaður í skoðunum. Uppáhaldsdrykkurinn hans væri Coca-Cola. Zlatan Ibrahimovic myndi hins vegar segjast vera öfgavinstrimaður þegar kæmi að stjórnmálum, jafnvel kommúnisti. Uppáhaldsbíómyndin hans væri Police Academy 3.

Dæmið hljómar eflaust furðulega enda erum við ekki vön því að stjórnmálaskoðanir fólks séu a) svona sterkar og b) tjáðar með þessum hætti opinberlega. Staðan er hins vegar öðruvísi á Ítalíu. Þar þótti það til dæmis ekkert tiltökumál á síðasta áratug þegar knattspyrnufélagið Fiorentina lét spyrja leikmenn sína í leikmannakynningunni hvar þeir stæðu í stjórnmálum. Það þótti heldur ekkert tiltökumál þegar nokkrir þeirra sögðust vera hægri eða vinstri „esterno“ eða kantmenn. Var þá ekki átt við stöðu þeirra á vellinum heldur öfgakenndar stjórnmálaskoðanir þeirra, yst á hægri og vinstri kantinum. Einn leikmaður þeirra, Cristiano Lucarelli, fagnaði reglulega mörkum með steyptum hnefa á loft og fékk sér húðflúr af Che Guevara á upphandlegginn. Annar fagnaði stundum mörkum að fasistasið og sagðist vera mikill aðdáandi Benitos Mussolinis.

Ítölsk stjórnmál eru sérkennileg frá okkar bæjardyrum séð og hafa verið lengi. Niðurstöður kosninga skila sjaldan starfhæfum þingmeirihlutum og ríkisstjórnir falla því eins og keilur um leið og vindáttin breytist.

Nú í desember verður kosið um stjórnarskrárbreytingar sem ætlað er að breyta stjórnmálunum með afgerandi hætti með því að tryggja sigurvegara kosninganna sterka þingmeirihluta og skapa starfhæfar ríkisstjórnir með einfaldari samspili mismunandi deilda þingsins. Andstæðingar frumvarpsins hins vegar segja stöðuleikann sem fylgja á breytingunum vera of dýru verði keyptur.

Endurreisn miðjuflokkanna hófst í Flórens

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, lýsir sjálfum sér sem „Tony Blair Ítalíu” og kannski ekki að ástæðulausu. Svo virðist vera sem Renzi sé einn af fáum miðjusinnuðum pólitískum leiðtogum Evrópu í dag. Tony Blair hefur raunar sjálfur lýst yfir áhyggjum sínum af því að miðjuflokkar eigi erfitt uppdráttar í Evrópu í dag en bendir einmitt á Ítalíu sem dæmi um land þar sem miðjuflokki hafi tekist vel til.

Ríkisstjórn Ítalíu þarf samkvæmt stjórnskipan landsins að njóta trausts frá bæði efri og neðri deild ítalska þingsins. Er nóg að vantrausttillaga sé samþykkt í annarri deildinni, þá verður ríkisstjórnin að segja af sér. Hefur þetta leitt til þess að síðasta ríkisstjórn til þess að sitja út heilt fjögurra ára kjörtímabil var önnur ríkisstjórn Silvios Berlusconis sem sat frá 2001-2005.

Silvio Berlusconi er í seinni tíð farinn að einkenna ítölsk stjórnmál og sennilega ekki að ástæðulausu. Skiptir þó engu um að hann sitji ekki lengur á þingi. Berlusconi myndaði þrjár ríkisstjórnir og hegðun hans innan og utan stjórnmálanna hefur vakið fjölmiðlafár í áraraðir. Mun ég hér á eftir víkja betur að Berlusconi og stöðu hans í ítölskum stjórnmálum en byrja aðeins umfjöllunina á núverandi forsætisráðherra.

Renzi fæddist í Flórens, nánar tiltekið í sveitinni Rignano sull’Arno, sem þýðir einfaldlega bærinn Rignano við ána Arno sem rennur í gegnum Flórens. Áin er vinsæl táknmynd borgarinnar og skírskotað til hennar í bæði frægum óperum og kvikmyndum. Renzi hóf einmitt stjórnmálaferil sinn af alvöru í heimaborginni Flórens fyrir Demókrataflokkinn. Flokkurinn er Evrópusinnaður miðju-vinstri flokkur og var Renzi borgarstjóri í Flórens fyrir flokkinn frá 2007 þar til hann settist í forsætisráðherrastólinn árið 2014. Þar áður hafði hann verið forseti Flórens-héraðs fyrir sama flokk.

Í kjölfar hruns efnahags Ítalíu og stjórnarkreppu sem fylgdi svo í kjölfarið var sett á laggirnar teknókratísk ríkisstjórn undir stjórn Mario Montis árið 2011. Hún féll eftir að Monti hafði sjálfur stofnað stjórnmálaflokk sem lítið fylgi hlaut í kosningunum árið 2013. Eftir kosningar tók við Enrico Letta frá Demókrataflokknum. Hann varð forsætisráðherra ríkisstjórnar sem naut meðal annars stuðnings Silvios Berlusconis og flokks hans, Fólk frelsisins (Popolo della Liberta). Á miðju kjörtímabili ákvað Berlusconi að stofna nýjan flokk undir nafninu „Forza Italia” eða Áfram Ítalía en gamlir flokksfélagar hans ákváðu að halda frekar tryggð við ríkisstjórn Letta.

Var það ekki fyrr en Matteo Renzi var kjörinn formaður Demókrataflokksins að ríkisstjórn Letta fór að líða undir lok. Ljóst var að Renzi ætlaði sér að verða forsætisráðherra og fór hann að skipta sér æ meira af landsmálunum þótt hann væri enn borgarstjóri Flórens. Sú undarlega staða kom raunar upp árið 2013 að formenn þriggja flokka sem sátu á ítalska þinginu voru utan þings. Renzi var borgarstjóri í Flórens, Berlusconi formaður Forza Italia missti þingsæti sitt vegna dóms sem hann hlaut og Beppe Grillo formaður popúlistanna í fimmstjörnuhreyfingarinnar má ekki taka sæti á þingi vegna dóms sem hann hlaut fyrir manndráp af gáleysi fyrir mörgum árum síðan.

En núningurinn á milli Letta og Renzis varð þó að lokum svo mikill að Letta sagði af sér og hinn aldraði þáverandi forseti landsins, Giorgio Napolitano, veitti Renzi umboð til að mynda nýja ríkisstjórn, sem hann gerði skömmu síðar. Renzi varð forsætisráðherra árið 2014 aðeins 39 ára gamall. Varð hann þá yngsti forsætisráðherra ríkis innan Evrópusambandsins. Ríkisstjórn hans naut þó ekki sterks meirihluta á þinginu frekar en fyrri ríkisstjórnir.

Tímarnir breyttust hraðar en kosningalögin

Eins og ég nefndi í upphafi hefur fíllinn í herberginu þegar kemur að ítölskum stjórnmálum lengi verið stjórnskipan og þá sérstaklega kosningalögin. Núgildandi lög eiga rætur sínar að rekja til áranna eftir seinni heimsstyrjöldina þegar Kristilegir demókratar voru langt um stærsta stjórnmálaafl landsins. Er sagt að stjórnskipunin hafi verið sérsniðin til þess að halda Kommúnistum frá völdum og til þess að Kristilegir demókratar gætu ekki stjórnað einir heldur þyrftu að njóta stuðnings annarra minni flokka en Kristilegir demókratar voru lengst af stærsti flokkur landsins og voru með tögl og haldir á stjórnmálunum lengst framan af þar til flokkurinn varð svo að engu á svipstundu á níunda áratugnum. Gerðist það eftir hreinsanirnar miklu, Operation Clean Hands (Operazione Mani Pulite), þar sem stjórnmálamönnum með tengsl við mafíuna var kastað á hafsauga. Kristilegi demókrataflokkurinn var leystur upp í kjölfarið. Silvio Berlusconi steig að miklu leyti inn í það tómarúm sem myndaðist en ríkisstjórnir hans voru ekki sterkar. Heldur ekki andstæðingar hans náðu að skapa traustan grundvöll undir meirihlutasamstarf. Í stað þess að litlir flokkar skiptust á að eiga í samstarfi við einn stóran flokk eins og áður tíðkaðist (hjá Kristilegum demókrötum) stóðu allt í einu tvær skýrar fylkingar andspænis hvorri annarri. Þær skiptust á völdum en höfðu aldrei nægilegan þingmannafjölda til að breyta stjórnarskránni og stjórnskipan landsins. Ekki skorti þó tilraunirnar.

Misheppnaðar tilraunir Berlusconis

Berlusconi reyndi tvisvar að breyta stjórnarskránni. Í bæði skiptin skorti nægilegan meirihluta á þingi til þess að breytingarnar næðu í gegn og þurfti því þjóðaratkvæðagreiðslur til að útkljá málin. Sú fyrsta var haldin árið 2001 og voru þær breytingar samþykktar. Ekki var þó um neinar sérstaklega umfangsmiklar breytingar að ræða og andstaðan var ekki mikil. Mun umdeildari voru breytingarnar sem hann lagði til árið 2006. Hafði Berlusconi þá þegar misst meirihluta á þinginu og reyndi í örvæntingu sinni að breyta stjórnarskránni og færa aukin völd í hendur forsætisráðherra. Pólitískir andstæðingar hans voru lítt hrifnir af þeim tilraunum hans og þegar á hólminn var komið var ítalska þjóðin það líka. Var stjórnarskrárbreytingartillagan felld með um 61% atkvæða.

En víkjum nú aftur að þeim breytingum sem Renzi hefur lagt til á stjórnskipun landsins. Svo mikilvægar telur Renzi breytingarnar vera að fyrr á þessu ári lagði hann pólitískt líf ríkisstjórnar sinnar að veði. Skyldi hann segja af sér ef breytingarnar yrðu ekki samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Nú hefur komið annað hljóð í skrokkinn og fyrir nokkrum vikum síðan viðurkenndi hann að það hefðu verið mistök að leggja pólitískt líf sitt að veði. Enn er þó óvíst hvernig kjósendur taka í þetta brölt hans.

Breytingarnar fela í sér að neðri deild þingsins hefur ekki lengur heimild til að samþykkja vantraust á ríkisstjórnina. Þá leggur hann einnig til að breyta efri deild þingsins þannig að þar sitji fjölbreyttari fulltrúahópur landfræðilega séð. Alls skulu sitja þar 100 þingmenn, 74 frá sveitunum, 21 frá héruðunum stóru og 5 skipaðir af forseta landsins en Ítalía er þingbundið lýðveldi. Forseti landsins er kjörinn af báðum deildum þingsins auk 50 kjörmönnum frá héruðum landsins. Forsetaembættið er táknrænt og verður að segjast að lítið hefur farið fyrir forsetum landsins á alþjóðavettvangi síðust ár. Lenti forsetinn kannski í skugga þeirrar athygli sem Berlusconi naut á valdatíma sínum. Forseti landsins heitir í dag Sergio Mattarella og er fyrrum dómari við stjórnskipunardómstól landsins.

Áhrifin af stjórnarskrártillögunum yrðu meðal annars þau að formenn flokkanna hefðu meiri völd til þess að velja fulltrúa á framboðslista flokkanna í öllum héruðum landsins. Mun það þýða að þingmennirnir svara frekar til flokksformannsins heldur en til kjósenda sinna í sínu kjördæmi. Þetta fellur illa í kramið hjá mörgum Ítölum en margir þeirra líta fyrst og fremst á sig sem íbúa héraðsins, frekar en sem Ítali. Einstaklingur frá Napoli er fyrst og fremst frá Napoli en ekki Ítalíu. Þá er þröskuldurinn til þess að með undirskriftasöfnun sé hægt að krefjast þess að frumvarp verði rætt á þinginu hækkaður úr 50 þúsund í 150 þúsund.

Önnur gagnrýni á fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingarnar felst í breytingum á kosningalögunum sem gerðar voru í fyrra og munu að óbreyttu koma til framkvæmda við næstu kosningar. Þær breytingar fela í sér að sigurvegari kosninganna fær sjálfkrafa fleiri þingsæti en niðurstaðan segir til um. Með hinu nýja kerfi getur flokkur sem fær yfir 40% atkvæða fengið allt að 54% þingsæta og þannig fengið meirihluta. Nái enginn flokkur eða flokkar slíkum meirihluta er kosið aftur. Líklegast er það plan Matteo Renzis að ná stjórnarskrárbreytingunum í gegn, vinna meirihluta í næstu þingkosningum og fá þá heilt kjörtímabil með sterkan þingmeirihluta til þess að stjórna landinu.

Þegar boðað var til þjóðaratkvæðagreiðslunnar naut Renzi mikilla vinsælda. Skoðanakannanir sýndu að miklar líkur væru á að tillögurnar yrðu samþykktar. En með tímanum hefur myndast mikil andstaða og undanfarnar vikur hafa kannanir sýnt að líklegt er að kjósendur muni hafna tillögunum.

Fimmstjörnuhreyfingin óhjákvæmilegur sigurvegari?

Í fararbroddi fyrir andstöðunni gegn breytingunum fer Fimmstjörnuhreyfingin (í. Movimento Cinque Stelle). Er það flokkur sem stofnaður var af óánægðum kjósendum gegn hefðbundnum stjórnmálum í landinu. Hreyfingunni hefur gengið afar vel upp á síðkastið og kemur til dæmis nýkjörinn borgarstjóri Rómarborgar úr herbúðum flokksins. Sömu sögu er að segja um borgarstjóra iðnaðarborgarinnar Tórínó á Norður-Ítalíu.

Fari svo að tillögurnar verði felldar gæti það orðið mikið vatn á myllu Fimmstjörnuhreyfingarinnar. Spennandi verður að sjá hvaða áhrif  það mun hafa stjórnmálin í landinu enda er hreyfingin til dæmis afar mótfallin ESB. Á Evrópuþinginu er þingmenn flokksins í sömu fylkingu og UK Independence Party (UKIP).

Atkvæðagreiðsla sem leit út fyrir að verða formsatriði fyrir hófstillt miðjuafl forsætisráðherrans gæti því þróast út í það að verða lyftistöng fyrir popúlískt stjórnmálaafl sem stendur fyrir mikilli andstöðu við Evrópusambandið. Ljóst er að hófstilltir stjórnmálaleiðtogar í Evrópu munu eflaust hugsa sig tvisvar um áður en þeir boða til þjóðaratkvæðagreiðslu á næstunni, fari svo að Fimmstjörnuhreyfingin beri sigur úr býtum úr atkvæðagreiðslunni í desember. Brexit gæti fljótlega orðið Matteo Rexit.

Sigur Matteos Renzis í þjóðaratkvæðagreiðslunni gæti þó orðið honum dýrkeyptur. Fimmstjörnuhreyfingin finnur fyrir miklum meðbyr þessa stundina, sem hreyfingin gæti tekið með sér inn í næstu þingkosningar í landiun. Gæti því farið svo að Fimmstjörnuhreyfingin vinni kosningasigur í næstu þingkosningum og fái þannig öruggan þingmeirihluta, þökk sé nýjum stjórnarskrárbreytingum Renzis.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.