Veldu svo þann sem að þér þykir bestur

eftir Ritstjórn

Senn verða framboðslistar stjórnmálaflokkanna fullir af frambærilegum einstaklingum sem bjóða sig fram til óbærilegra kvala næstu fjögur árin, setu á Alþingi Íslendinga. Prófkjöri Sjálfstæðisflokks lauk í gær með niðurstöðum úr Suður- og Suðvesturkjördæmi og flokksval Samfylkingar í Norðvestur-, Suðvestur og Reykjavíkurkjördæmi fór einnig fram.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, hafnaði efstur í flokksvalinu í Reykjavík og í öðru sæti varð Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Í þriðja sæti varð Eva Baldursdóttir, lögfræðingur og í því fjórða hafnaði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar.

Í Suðvesturkjördæmi hafnaði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar í efsta sæti, Margrét Gauja Magnúsdóttir í öðru sæti og Sema Erla Serdar í þriðja sæti. Guðmundur Ari Sigurjónsson hafnaði í fjórða sæti.

Í Norðvesturkjördæmi varð Guðjón S. Brjánsson, forstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, efstur, Inga Björk Bjarnadóttir, nemi í listfræði, í öðru sæti og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar í þriðja sæti. Sú síðastnefndar hafnaði þó sæti sínu í ljósi ósigurs síns, en hún sóttist eftir fyrsta sæti. Í samtali við Vísi.is sagði hún mótframbjóðanda sinn hafa smalað „nýbúum og fólki úr öðrum flokkum” inn í Samfylkinguna.

Samfélagslegt ábyrgðarleysi Samfylkingar

Í tilkynningu frá Samfylkingunni um flokksval í Suðvesturkjördæmi þann 18. ágúst kemur fram að samkvæmt reglum um val á framboðslista skuli paralisti ráða röð frambjóðenda þar sem jafnt kynjahlutfall er tryggt í fyrsta sæti og öðru, næstu tveimur einnig og svo koll af kolli. Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að minnsta kosti einn frambjóðandi yngri en 35 ára skuli vera í efstu þremur sætunum. Báðum þessum ákvæðum þurfti að beita eftir að flokksmenn höfðu gerst sekir um að kjósa eftir sannfæringu sinni. Það varð til að Margrét Tryggvadóttir féll úr þriðja sæti í það sjötta. Sema Erla Serdar skaust upp um eitt sæti til þess að uppfylla aldursskilyrðin sem varð til þess að karlmann þurfti í næsta sæti á eftir og Guðmundur Ari Sigurjónsson tók fjórða sætið.

Líkt og annað sem frá Samfylkingunni kemur og systurflokkum víðsvegar um heim, eru ákvæðin byggð á fallegri hugsjón og göfugri. Raunin er hins vegar sú að í raunveruleikanum ganga þau ekki upp að öllu leyti og geta unnið gegn hvort öðru. Þannig gæti t.d. „eldri” karlmaður sem lendir í þriðja sæti listans á eftir tveimur „eldri” konum, endað í fimmta sæti eftir að hafa verið skipt út fyrir yngri konu sem upphaflega var í fjórða sæti listans. Henni þarf síðan að skipta út fyrir næsta karlmann sem er undir 35 ára og fellur hún því í fjórða sæti listans og áðurnefndur „næsti ungi karlmaður” fer upp í þriðja sætið.

Flókið? Já, dálítið flókið og gæti komið kjósendum í flokksvalinu í opna skjöldu enda gæti listinn orðið allt annar en eftir lýðræðislega niðurstöðu flokksmanna. Það liggur því í augum uppi að ákvæðin eru ákveðin ógn við hinn lýðræðislega feril sem lengi hefur reynst vel í vali á pólitískum fulltrúum.

Samfylkingin er ekki eini flokkurinn sem hefur ákveðið að setja lýðræðinu skorður. Píratar hafa ákveðið að gera slíkt hið sama með því að banna „smölun” í prófkjörum sínum. Í reglu 8. e. í prófkjörsreglum Pírata, segir: „Kosningasmölun er óheimil og lagt er blátt bann við því að frambjóðendur bjóði kjósendum efnisleg gæði í skiptum fyrir atkvæði þeirra.” Þá liggur ekki fyrir skýring á því hvað orðið „kosningasmölun” felur í sér. Áhugavert verður að sjá hvort Píratar temji sér leikreglur af svipuðum toga í alþingiskosningum 29. október nk., þegar aðrir stjórnmálaflokkar hefja úthringingar og vekja athygli á frambjóðendum sínum og stefnumálum og axla þannig lýðræðislega og samfélagslega ábyrgð sína.

Einnig má vekja athygli á því að í siðareglum frambjóðenda Pírata, undirkafla prófkjörsreglnanna, segir að frambjóðendum sé óheimilt að kaupa auglýsingar eða aðrar kynningar á sjálfum sér eða öðrum frambjóðendum.

Engar konur í Kraganum

Í gær fóru einnig fram prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í tveimur kjördæmum, Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Þar var niðurstaðan sú að í Suðvesturkjördæmi skipuðu fjórir karlmenn fjögur efstu sætin. Elínu Hirst, sitjandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins var hafnað í prófkjörinu og hafnaði hún ekki meðal sjö efstu. Fá atkvæði skildu að þau Karen Elísabetu Halldórsdóttur, Bryndísi Haraldsdóttur og Vilhjálmi Bjarnason, en sá síðastnefndi hreppti fjórða sætið þegar uppi var staðið. Þetta er alvarleg niðurstaða og nú þegar hefur Landssamband sjálfstæðiskvenna ályktað um málið. Greinilegt er að lítill áhugi er fyrir prófkjörum á landinu öllu og sjá má í því að kjörsókn var undir 50% af skráðum flokksmeðlimum í þessu kjördæmi. Samkvæmt reglum Sjálfstæðisflokksins er þessi niðurstaða prófkjörsins því ekki bindandi. Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi getur því breytt niðurstöðunni.

Að mati kjósenda tókst engri þeirra kvenna sem í framboði voru að fylla skarð Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sem vemdi annað sætið árið 2013. Hún dregur sig í hlé eftir yfirstandandi kjörtímabil og er mikill missir af henni úr stjórnmálunum. Einnig var í umræðunni að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, vermdi annað sætið, en hún mun taka sæti á lista Viðreisnar í Alþingiskosningunum, líkt og flestum er kunnugt um.

Lýðræðið býr yfir bæði kostum og göllum. Niðurstaðan verður aldrei fullkomin frekar en flest annað og mun aldrei þóknast öllum. Líkt og Winston Churchill sagði forðum þá er lýðræðið versta stjórnarfyrirkomulag sem fyrir finnst að undanskildum öllum hinum.

 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.