Vegir liggja til allra átta

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Menn eru eins ólíkir og þeir er margir. Sé lífinu líkt við veg er þjóðvegurinn „beina brautin“, staðalímynd hins rétta. Út frá henni liggja endalausir smærri vegir sem tengjast aðalbrautinni, líkt og árkvíslir sem renna saman í stórfljót. Sumir eru alltaf að flýta sér, þeir eru á vinstri akreininni allt lífið. Aðrir mjakast hægt áfram, virða vel fyrir sér umhverfi sitt og nema gjarnan staðar til þess að tína upp náttúrugersemar eða leggja lykkju á leið sína í leit að ævintýrum. Þegar allt kemur til alls erum við þó ekki svo frábrugðin hvert öðru. Öll þörfnumst við matar og drykkjar, húsaskjóls og ekki síst ástar og kærleiks. Því er vert að velta vöngum yfir því hvað gerir hvern og einn vegfarenda einstakan.

 

Leiðarstjörnur

Oft hafa vangaveltur af þessu tagi komið fram og þar má helst nefna verkið Bókin um veginn og dyggðina eftir Lao Tse. Ennfremur sagði Carl Schurz: „Hugsjónir eru eins og stjörnur. Þú getur ekki snert þær með höndunum en líkt og sæfarinn úti á reginhafi velur þú þér leiðarstjörnur. Með því að fylgja þeim ráðast örlög þín.“

Til þess að ná árangri í einhverri tiltekinni grein þarf að setja sér markmið. Hvað sem menn taka sér fyrir hendur er það hugurinn sem að lokum ræður sigri. Sá sem siglir í gegnum lífið án nokkurrar leiðarstjörnu sem vísar leiðina hefur ekkert til að stefna að, engan tilgang. Hann þokast áfram í blindni og örlög hans eru í höndum annarra.

Linnulaus umferð skýja á himninum veldur því að einungis nokkrar stjörnur eru sjáanlegar í einu. Það er ekki augljóst í fyrstu en aðeins brot af þeim valkostum sem eru í boði sjást hverju sinni. Þegar skýin líða hjá beinir það sjónum að öðrum stjörnum sem áður voru huldar. Ný tækifæri skapast. Öðru hverju þykknar upp og menn tapa áttum. Þá skal sýna yfirvegun og þolinmæði því skýjaslæðan leysist upp á endanum og leiðin skýrist á ný.

 

Ást og kærleikur –öflugir mættir

Maðurinn, hin viti borna vera, á til að missa sjónar af skynsemi sinni þegar tilfinningar eiga í hlut. Ráði hjartað för geta gamlar, fastmótaðar hugmyndir breyst og jafnvel glatast. Ástin hefur nefnilega þau áhrif á hug manna að opna fyrir aðra möguleika. Nýir draumar og væntingar geta sprottið upp og haft áhrifamiklar breytingar á líf fólks. Í upphafi sambands eru raunir maka misjafnar. Með tímanum verða hugsjónir og reynsla beggja aðila samofin og líf þeirra fléttast saman líkt og Japanskur hlynur sem vindur upp á stofn sinn og greinar. Einstaklingarnir verða að órúfanlegum þætti í lífi hvors annars. Sömu líkingu mætti einnig nota um rótgróin sambönd vina og fjölskyldutengsl.

 

Ólíkar leiðir

Sumir skipuleggja framtíð sína svo ítarlega að þeir vita upp á hár hvar vegurinn byrjar, hvar afleggjararnir eru staðsettir og hvar hann endar. Leið þeirra er beinn malbiksvegur á meðan aðrir vafra um fátroðnar slóðir. Ofur áhersla á formfestu og skipulag getur þó verið hræðsla við hið óþekkta. Menn þora ekki að víkja frá heimahögunum af ótta við að rata ekki til baka. Brautryðjendur stíga hins vegar fúsir út af veginum og inn í óspillta náttúruna. Þeir uppgötva ágæti hennar og í kjölfarið fylgja þeim aðrir eftir.

 

Holur í veginum

Þrátt fyrir háleit markmið og göfugar hugmyndir hefur hver vegur sínar skekkjur. Enginn getur komið í veg fyrir þær holur og misfellur sem kunna að verða á leiðinni. Dauðsföll, veikindi og önnur óhöpp geta ætíð bankað upp á þegar síst er von á. Verði slíkar hindranir á veginum þurfa fyrri hugsjónir og áætlanir oft að víkja fyrir nýjum. Einhverjir afvegaleiðast og missa jafnvel sjónar af beinu brautinni á meðan aðrir fylla upp í holurnar og halda ótrauðir áfram. Stuðningurinn í umhverfinu og undirlag vegarins greinir þar á milli um hvort verður.

 

Linnulaus ganga

Enginn getur flúið örlög sín þó hægt sé að veita þeim mótspyrnu, lífið er ekki slyndrulaust. Sigrast þarf á bröttum hlíðum hvers fjalls til þess að komast upp á topp. Þegar á tindinn er komið situr eftir dýrmæt reynsla í farteskinu. Linnulaus ganga eftir sundurleitum vegi er lífstíðarstarf. Hvernig menn takast á við þær þrautir og verkefni sem á vegi þeirra verða endurspeglast í persónuleika þeirra. Breytni manna mótast af uppeldi þeirra, lífsreynslu og hugsjónum og breytist því stöðugt.

Þannig tekur heila mannsævi að móta mann.

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.