Vape Nation

eftir Páll Óli Ólason

Því hefur oft verið fleygt fram að sagan endurtaki sig. Dæmi um slíkt er til að mynda þegar Hitler ætlaði að valta yfir Sovétmenn á þeirra heimavelli en mistókst hrapalega, alveg eins og Napoleon hafði mistekist að sigra Rússana rúmum 100 árum áður. Annað nærtækara dæmi er uppgangur svokallaðra hægri öfgaflokka og aukin harka nýnasista á okkar tímum þrátt fyrir öll voðaverk þeirra í seinni heimsstyrjöldinni. Sumir hafa haldið því fram að orsökin fyrir þessu sé sú að þær kynslóðir sem upplifðu fyrra atburðinn deyja og og þær nýju sem tóku við hafi ekki upplifað hryllinginn sem var heldur fari og efist um slíkt. Það virðist allavega vera einhver lenska í þá áttina. 

Önnur vangavelta um endurtekningu sögunnar er umræðan um sígarettur og rafsígarettur. Um miðja síðustu öld voru það sígaretturnar sem voru vinsælastar. Þær þóttu kúl og það er oftar en ekki þannig að þegar eldri einstaklingar eru spurðir hvort þeir hafi reykt hafi þeir sem gerðu það aldrei “ekki náð að komast á lagið með það” eða “að þeir hafi ekki þolað reykinn”, þannig ákveðin afsökun fyrir að hafa ekki byrjað að reykja.

Saga reykinga er sérstök. Í dag er hlegið að gömlum sígarettuauglýsingum þar sem læknar eru að auglýsa hinar og þessar sígarettutegundir sem allra meina bót. Í raun þóttu sígarettur vera heilsusamlegar. Ekki nóg með það heldur voru sumir framleiðendur það klókir að þeir settu á markað sígarettur sem innihéldu svokallað berkjuvíkkandi lyf, lyf sem er í dag notað við lungnasjúkdómum svo sem lungnaþembu og astma. Þannig var lyfið við sjúkdómnum sem reykingar valda til staðar í sígarettunni sjálfri. 

Hvað breyttist?

Árið 1950 rituðu þeir Richard Doll og Austin Bradford Hill, sá fyrri læknir og faraldsfræðingur, sá seinni tölfræðingur, grein í The British Medical Journal um niðurstöður rannsóknar þeirra á lungnakrabbameini. Aðdragandi þeirrar rannsóknar var sá að töluverð aukning hafði orðið á dánartíðni krabbameins í lungum á árunum áður. Þeir lögðu upp með að kanna orsakir þessa og horfðu þá til umhverfisvalda; útblástur frá bifreiðum og reykinga en hvort tveggja hafði aukist umtalsvert í takt við dánartíðni lungnakrabbameins. Niðurstöður rannsóknarinnar töldu þeir nokkuð afgerandi, að reykingar væru áhættuþáttur fyrir krabbameini í lungum. 

Hvað gerðist svo?

Í raun mest lítið. Það lítið að þeir félagar tóku aftur slaginn og byrjuðu með aðra rannsókn, svokallað British Doctors Study, framskyggna ferilrannsókn þar sem þátttakendur voru, eins og nafnið gefur til kynna, breskir læknar. Í stuttu máli staðfesti þessi rannsókn tengsl milli sígaretta og lungnakrabbameins, og ekki nóg með það heldur einnig tengsl við aðra sjúkdóma. 

Af hverju að velta þessu fyrir sér?

Í dag eru sígarettureykingar í lágmarki og fáir sem byrja að reykja á hverju ári. Það má túlka sem mikinn sigur en svo virðist vera að sagan ætli að reyna að endurtaka sig. Árið 2003 kom fyrsta rafsígarettan á markað. Hún var markaðssett fyrir hinn hefðbundna reykingarmann til að aðstoða við að hætta reykingum, skaðlaus skipti. Síðan þá hefur rafrettan sannarlega slegið í gegn, svipað og Nocco og Amino Energy. Vape-búðir hafa opnað út um allar trissur og selja allskonar vökva. 

Það sem stingur einna helst er notkun ungs fólks sem alla jafna hefði ekki byrjað að reykja en byrjar að veipa. Langtímaáhrif þess að veipa eru ekki þekkt en nú þegar virðast koma í ljós skaðleg áhrif þeirra eins og fréttir síðustu vikur hafa leitt í ljós. Til viðbótar hefur Miðstöð sjúkdómaeftirlits og sjúkdómsvarna gefið út ráðleggingar vegna fjölda tilfella óútskýrðs lungnasjúkdóms sem virðist fyrst og fremst tengjast notkun rafretta. Þó að þar eigi í hlut að mestu leyti rafrettur með kannabisvökva þá er það einmitt það sem einna helst er hægt að gagnrýna, hversu lítið eftirlit með vökvunum sem fara í retturnar. 

Það er því ekki skrítið að heilbrigðisyfirvöld um allan heim séu varhuga yfir vinsældum rafretta. Þær þarf að rannsaka mun betur til að meta hvort þær séu heppilegur valkostur fyrir þá sem eru að hætta að reykja og hvort og þá hver skaðsemi þeirra er. Þetta þarf að gerast fyrr enn seinna því í þetta skiptið viljum við ekki að sagan endurtaki sig. 

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.