Vandinn á húsnæðismarkaði af völdum stjórnvalda

eftir Ritstjórn

Það líður varla vika án þess að minnst sé á húsnæðisvanda á höfuðborgarsvæðinu. Vanda sem á rætur sínar að rekja til ársins 2008 þegar nýbygging íbúðarhúsnæðis fraus næstum í kjölfar efnahagshrunsins. Fram að því hafði höfuðborgarsvæðið blásið út, mörg ný hverfi sprottið upp eins og gorkúlur og borgarbúar voru skuldsettir upp fyrir haus.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Íslendingar hafa sjaldan eða aldrei verið jafn lítið skuldsettir, ferðamenn koma hingað í stríðum straumum og fjöldinn allur af erlendu vinnuafli sækir landið heim. Þrátt fyrir það hafa nýbyggingar íbúðarhúsnæðis ekki náð að taka við sér.

Á síðustu 8 árum hefur aðeins tekist að byggja í kringum 800 íbúðir á ári á höfuðborgarsvæðinu. Því hefur skapast uppsöfnuð húsnæðisþörf, ef gert er ráð fyrir því að náttúruleg þörf fyrir nýju íbúðarhúsnæði sé 1500-2000 íbúðir á ári. Þá er ekki tekið tillit til vöxt í heimagistinu fyrir ferðamenn og aukinn fjölda af erlendu vinnuafli. Það má því gera ráð fyrir því að uppsöfnuð húsnæðisþörf sé í kringum 3000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu einu.

Hverjum er um að kenna?

Líkt og komið hefur fram drógust nýbyggingar íbúðarhúsnæðis verulega saman í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Það var svo sem viðbúið, en í kjölfarið, árið 2011, var byggingareglugerðin hert all verulega sem dró enn frekar úr nýbyggingu og hægði verulega á því að markaðurinn næði að jafna sig eðlilega. Til að bæta gráu ofan á svart héldu borgaryfirvöld að sér höndum við úthlutun lóða sem voru eiginlega eingöngu dýrar lóðir í dýrum hverfum. Það hefur orðið til þess að þó þær íbúðir sem hafa verið byggðar eru dýrar í stærra lagi. Það hefur leitt til þess að ungt fólk á erfiðara en áður að finna sér litlar, hagkvæmar og ódýrar íbúðir.

Það má því segja að stjórnvöld hafi átt stóran þátt í því að koma húsnæðismarkaðnum í það horf sem hann er í dag. Í stað þess að standa undir þeirri ábyrgð og viðurkenna hlut sinn í málinnu virðist hins vegar vera að þau séu frekar upptekinn af því að benda á hvort annað og kenna hvoru öðru um.

Leiðrétting unga fólksins

Það sýndi sig í vikunni þegar Morgunblaðið tók viðtal við borgarstjóra og ráðherra húsnæðismála. Þar segir Dagur að ungt fólk hafi algjörlega verið skilið eftir þegar kemur að húsnæðismarkaðnum og kennir þá einkum „Leiðréttingunni” svokallaðri og þrengri reglur þegar kemur að neytendalánum fyrir fasteignakaupum. Þó svo að leiðréttingin hafi verið ein galnasta útdeiling fjármagns sem hið ríkið hefur farið í, ásamt 110% leiðinni, þá er hæpið að kenna henni um að ekki hafi nægilega mikið af lóðum verið útdeilt og ekkert hafi verið byggt af minni eignum.

Í sama viðtali veltir nýr jafnréttis- og félagsmálaráðherra því fyrir sér hvort sveitarfélögin hafi ekki séð þessa þróun fyrir í ljósi þess að stórir árgangar væru að koma á húsnæðiskaupaaldur. Dagur segir borgaryfirvöld hafa séð þessa þróun og hann hafi meira að segja persónulega haldið fyrirlestur um það árið 2011. Núna er hins vegar komið árið 2017 og því nokkuð ljóst að þessi fyrirlestur hefur ekki skilað sínu.

Bjartari tímar framundan?

Borgarstjórinn hefur allaveganna tekið góð 5 ár í að melta það sem kom fram í þessum fyrirlestri því að það er ekki fyrr en núna sem sjá má vöxt í nýbyggingu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt úttekt Morgunblaðsins á laugardaginn eru 3.560 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu öllu. Ef gert er ráð fyrir því að það taki um tvö ár að byggja húsnæðið þá eru þetta tæplega 1.800 íbúðir. Ef ekki verður gefið í enn frekar mun það taka tugi ára að vinna upp þennan uppsafnaða vanda.

Það er komið nóg af því að hið opinbera keppist við að búa til sökudólga í þessu máli án þess að þau líti í eigin barm. Lausnin er býsna einföld. Sveitarfélögin bera ábyrgð á því að úthluta lóðum. Umhverfisráðuneytið ber ábyrgð á byggingarreglugerðinni. Það þarf að úthluta fleiri lóðum og það þarf að losa byggingarreglugerðina til að tryggja að nægilega verði byggt af litum, hagkvæmum og ódýrum íbúðum fyrir ungt fólk.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.