Útsýnið sem öllu breytti

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Þegar ég sá skiltið beygði ég til hægri og fór inn á afleggjarann, sem fæstir gera nú til dags. Ég kom inn í fjörðinn með tónlistina í botni. Sólin skein skært, ekki þannig að hún truflaði mann eða var óþæginleg, heldur spegluðust geislarnir á rennisléttu vatninu. Mér leið vel, hvílík náttúrufegurð. Maður gleymir því hversu stutt maður þarf að fara til þess sjá náttúruna, jafnvel þó maður sé fæddur og uppalinn á malbikinu. Maður gefur sér líka allt of sjaldan tíma til þess.

Ísak var þó ekki lengi í paradís, því þegar hann keyrði dálítið lengra kom í ljós stærðar mannvirki sem framleiðir málm og skapar fyrir vikið störf og leggur til þjóðarbúsins. Verandi meðvitaður um það tók ég þá ákvörðun að ég gæti nú litið fram hjá þessu ferlíki, það liði ekki á löngu þangað til ég væri komin framhjá verinu og það væri fórn sem þyrfti að færa til þess að halda uppi ákveðnum lífstíl.

Þegar ég var loksins að komast svo langt inn í fjörðinn að Norðurál var að hverfa úr augsýn hugsaði ég mér gott til glóðarinnar. Nú gæti ég setið, keyrt í góðum gír og notið útsýnisins. Það var ekki fyrr en þá sem ég fór að taka eftir að meðfram öllum firðinum stóðu stór möstur en á þeim lágu rafmagnslínur sem knúðu áfram álverið. Ekki misskilja mig, Hvalfjörðurinn var enn fallegur en því verður ekki neitað að þessi möstur eru ekkert annað en lýti á firðinum.

Að láta koma sér úr jafnvægi

Þessi upplifun, þó mörgum kunni ef til vill að þykja hún lítilfjörleg, kom mér að vissu leyti úr jafnvægi. Ég hef nefnilega alltaf álitið sem svo að hinir ýmsu náttúruverndarsinnar hafi farið talsvert fram úr sér í gagnrýni á raforkuframleiðslu. Ég hef til að mynda aldrei keypt þá afstöðu að uppistöðulón eða virkjanir þurfi að vera lýti á náttúrunni. Mér er meira að segja sagt af fróðari mönnum að farvegur Öxarár að Þingvöllum hafi verið manngerður og fossinn er svo sannarlega fallegur. Þetta er svo sem í samræmi við rannsóknir sem gerðar hafa verið á Búrfellssvæðinu á suðurlandinu, þar sem fyrsta stóra vatnsaflsvirkunin var reist á Íslandi. Þessar rannsóknir sýna að bæði ferða- og heimamenn líta enn svo á að svæðið sé að mestu ósnortin náttúra og haldi því upplifunargildi sínu.

Sömuleiðis hef ég ekki keypt þá rullu að álfyrirtækin séu sérlegir merkisberar hins illa. Persónulega finnst mér ekki tilefni til þess að bæta við öðru álveri eða einblína á þungaiðnað hér á landi en hins vegar verður að líta á uppbyggingu álvera hér á landi í sögulegu samhengi en ekki tómarúmi. Þrátt fyrir að orkumarkaðurinn í dag sé seljendamarkaður, þ.e. að fleiri vilji kaupa en geta, þá hefur staðan ekki verið sú alla tíð. Uppbygging álvers hér á landi var forsendan fyrir því að við gátum virkjað orkuna í stórum stíl og um leið hefur áliðnaðurinn skapað nægjanlega stærðarhagkvæmni til þess að raforkuvæða landið með hreinni orku.

Er það ekki forgangsmál að nota sem mesta græna orku?

Í hnattrænu samhengi hlýtur það einnig að vera forgangsmál að nota sem mest af hreinni orku. Í því samhengi væri það hreinlega umhverfisverndarmál út af fyrir sig að virkja sem mest. Það ætti sömuleiðis að vera í samræmi við umhverfisvæna ímynd Íslands að hér sé náttúran virkjuð til þess að skapa umhverfisvæna orku. Á Íslandi er 99,99% af framleiddri orku umhverfisvæn orka en til samanburðar er aðeins 24% af orkuframleiðslu í Evrópusambandinu græn.

Ef einungis eru tekin með í reikningin hnattræn umhverfisverndarsjónarmið væri því borðleggjandi að leggja sæstreng héðan og til Bretlands. Þannig myndu Íslendingar gera mest gagn í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun. Ekki einungis myndu Bretar geta nýtt sér græna íslenska orku, heldur er þetta einnig spurning um að ná fram sem bestri nýtni á hreinni orku. Grænfriðungar meðal annarra hafa beitt sér mikið fyrri þessum sjónarmiðum og líta svo á að í umhverfisverndarlegum skilningi sé mikil framför fólgin í því að samtengja orkukerfi Evrópu.

Hér á landi hafa nattúru- og umhverfisverndarsinnar verið heldur neikvæðir í garð sæstrengs og tala því sama máli og stóriðjan sem hefur nú þegar fengið þá orku sem hún þarfnast og vill ekki auka á samkeppnina um hana. Kaldhæðni örlaganna ekki satt?

Menn hafa meira að segja barist gegn því leynt og ljóst að rætt sé við Breta um verðhugmyndir. Svo segja hinir sömu að það sé tóm vitleysa að ráðast í lagningu sæstrengs þar sem við vitum ekki hvort á honum sé eitthvað að græða. Ef að arðbærni er forsendan fyrir lagningu sæstrengs hlýtur að vera í lagi að láta kanna hvaða verð við getum fengið fyrir orkuna.

Miðhálendislína er slæm hugmynd

En aftur að upphaflegu sögunni, það kom mér sem sagt úr jafnvægi að átta mig á hversu mikið lýti það er af lagningu rafmagnslína um allt land. Sér í lagi kom það mér úr jafnvægi vegna þess að um þessar mundir eru fyrirferðamiklar hugmyndir um að leggja stóra og mikla háspennulínu yfir miðhálendið. Sú lína myndi m.a. fara þvert yfir Sprengisand sem er mikil náttúruperla. Í landi þar sem ferðaþjónusta er sú grein sem hraðast vex, einkum vegna náttúrunnar, hljóta menn að þurfa að staldra aðeins við og gefa sjónarmiðum um náttúruvernd eðlilegt vægi.

Jafnvel þó svo að virkjanaframkvæmdir hér á Íslandi séu almennt umhverfisvænar þrátt fyrir að hinu gagnstæða sé stanslaust haldið á lofti. Jafnvel þó að menn viti að virkjanir líkt og í Búrfelli komi ekki niður á upplifun ferðamanna þá eru tilvik líkt og þegar kemur að hugmyndum um miðhálendislínu þar sem framkvæmdir munu hafa slæm áhrif á náttúruna. Því hvet ég menn til þess að hafna þessari hugmynd, þrátt fyrir að þeir hafi ekkert á móti virkjanaframkvæmdum eða orkunýtingu.

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.