Út á stoppistöð

eftir Guðmundur Snæbjörnsson

„Eigum við ekki bara að hittast í H&M?“

Borgin skiptir engu máli. Við getum verið í hvaða stórborg Evrópu sem er. Í bland við undurfögur auðkenni borgarinnar sjáum við gamalkunn vörumerkin. Apple hér og MacDonalds þar. H&M er einhvers staðar á verslunargötunni og við ætlum bæði að versla þar.

Það er ekki hægt að læra íslensku í gegnum netið, og erfitt að finna slíkan viðmælanda á kaffihúsi útlanda. En mögulega mætti leita íslenskuna uppi í H&M. Ganga að stærstu innkaupakerrunni og mæla „Já hæ, eruði þið hér, þvílík tilviljun að rekast á ykkur“. Innkaupakerran væri full af kunnuglegum flíkum af götum Reykjavíkur, þó Atlandshafið sé milli búðarinnar og Borgarinnar.

Þar til í vikunni. Nú hefur H&M lagt land undir fót. Vinsælasta fataverzlun landsins er því loksins komin til landsins. Örmagnað lið hefur beðið í röð og búið er að stofna „H&M á Íslandi – verð og myndir“. Ég hef ekki enn skráð mig inn en geri ráð fyrir að sama stemmning sé og í sambærilegum hópum. Einn talar um góðan díl. Annar segir vöruna uppselda. Þriðji talar illa um viðskiptahætti H&M. Fjórði kommentar hreyfimynd af Michael Jackson að borða popp. Og svo framvegis.

H&M er með ódýr föt á sama máta og IKEA er með sænskar kjötbollur. Á öllum algildum reglum eru síðan undantekningar. IKEA er að opna í Indlandi og verður með bollur, bara ekki kjötbollur. Svipað má segja um H&M sem er að opna á Íslandi, þar verða einnig ódýr föt til sölu, bara ekki alveg jafn ódýr, ódýr föt.

Svo hangir yfir eins og draugur, spurningin um þá sem vefa klæðin.