Úr takt við tímann

eftir Guðný Halldórsdóttir

Margir hafa lýst yfir vanþóknun sinni með dræmt hlutskipti kvenna í síðustu Alþingiskosningum þar sem þeim fækkaði um sex á þingi. Á aðeins einu ári fór Alþingi Íslendinga úr því að hafa flestar konur í sögunni yfir í að hafa fæstar konur frá því í þingkosningunum fyrir tíu árum. Þetta er því mikil afturför og sú hugmynd hefur jafnvel skotið upp kollinum að stofna á ný kvennaframboð til að bregðast við þessu áfalli.

Það gerðist ekki að sjálfu sér að 30 konur næðu sæti á Alþingi í kosningunum 2016. Íslenskar konur hafa um langt skeið barist fyrir réttindum sínum en þær hlutu fyrst kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis með stjórnarskrárbreytingu sem staðfest var árið 1915. Fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi var Ingibjörg H. Bjarnason, fyrir Kvennalistann, árið 1922 og hlutfall kvenna á Alþingi var síðan mjög lágt allt fram til ársins 1983 þegar Samtök um kvennalista buðu fyrst fram í Alþingiskosningum en þá þrefaldaðist fjöldi kvenna á þingi.

Það kemur því ekki á óvart að hugmynd um kvennalista spretti upp á nýjan leik eftir áfall síðustu kosninga. Aðstæður hafa hins vegar breyst síðan kvennaframboðin spruttu upp á sínum tíma, samvitund kvenna hefur aukist til muna og samfélagið er allt orðið meðvitaðara um jafnrétti. Ekki má gera lítið úr þeim árangri sem konur hafa nú þegar náð í stjórnmálum. Þeim hefur fjölgað á listum stjórnmálaflokka og mál sem snerta jafnrétti hafa fengið meiri athygli. Hæst ber þar að nefna frumvarp Viðreisnar um jafnlaunavottun sem lögfest var fyrr á árinu.

Kvennalistinn var á sínum tíma stofnaður með það í huga að ákvarðanir sem teknar væru í samfélaginu byggðu einnig á gildismati kvenna, sem væri öðruvísi en gildismat karla vegna þeirra ólíka reynsluheims. Á þeim tíma þótti gildismat karla ráðandi í allri ákvarðanatöku og með stofnun Kvennalistans yrði því hægt að nýta það besta úr hvorum reynsluheimi í samfélagslegri stefnumótun. Það má vel vera að þetta sjónarmið eigi enn við í dag. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort það sé endilega best fyrir konur að útiloka karlmenn frá stjórnmálaflokki til að koma sínu sjónarhorni að eða hvort það sé ekki mögulegt að miðla sinni reynslu áfram til annarra í gegnum þá flokka sem við höfum nú þegar. Væri ekki eðlilegra að einbeita sér frekar að því af hverju konur eru í svona miklum minnihluta í oddvitasætum í sumum stjórnmálaflokkum?

Það hvernig við skilgreinum kyn í nútímanum er orðið svo miklu víðtækara en það var þegar Kvennalistinn kom fyrst fram. Samræmist kvennaframboð, þar sem önnur kyn eru útilokuð, hugmyndum okkar um kyn í nútímanum? Eiga einstaklingar sem nota fornafnið hán og transkonur að fá að taka þátt? Að mínu mati er það meira í takt við samtímann að útiloka engan frá þátttöku og sameinast heldur um ákveðna hugsjón og gildi og bjóða fram undir þeim formerkjum.

Ef lagt verður í þá vegferð að bjóða fram nýtt kvennaframboð verður áhugavert að sjá hvort nýjar og hæfar konur muni stíga fram eða hvort það verði sömu konur og hafa verið í stjórnmálum áður. Brottfall þeirra úr öðrum flokkum gæti orsakað að hlutfall kvenna með reynslu og jafnréttisáherslur minnki þar. Einnig má velta því fyrir sér hvort nýtt kvennaframboð myndi hugsanlega draga úr líkum þeirra kvenna sem eiga sæti ofarlega á öðrum listum til þess að ná inn á þing.

Fjölgun kvenna á framboðslistum hefur oft náð fram að ganga þegar beitt hefur verið svokölluðum kynjakvótum. Leiðtogaprófkjör mætti einnig nefna í þessu samhengi en þau fela að mestu leyti í sér uppstillingu á lista. Sumir flokkar hafa síðan beitt fléttulistum með það að leiðarljósi að auka hlut kvenna í efri sætum listanna. Í flokkum þar sem kjósendum er treyst fyrir því að raða niður listum á lýðræðislegan hátt blasir við afskaplega slök staða kvenna. Þessi lýðræðislega nálgun á uppröðun lista er sannarlega umhugsunarefni í sumum flokkum. Mikilvægt er að konur finni fyrir því að þær hafi sterkt bakland og mikinn stuðning. Spurningin er því hvort kröftum kvenna sé betur varið í að styðja við bakið á þeim konum sem tilbúnar eru að taka slaginn við þessar aðstæður.

Guðný Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Guðný er nemi í hagfræði við Háskóla Íslands og hefur lögfræði sem aukagrein. Hún er búsett í New York en er alltaf með annan fótinn á Íslandi. Guðný er einn af stofnendum Hagsmunafélags kvenna í hagfræði og situr í stjórn félagsins. Helstu áhugamál hennar eru hagfræði, útivist og matargerð.