Uppbyggileg réttvísi

eftir Jónína Sigurðardóttir

Nýlega vakti fyrirlestur Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur og Tom Stranger um hvernig þau náðu sáttum eftir að Tom nauðgaði Þórdísi athygli á heimsvísu. Atvikið hafði slæm áhrif á þau bæði og fundu þau bæði fyrir skömm, sektarkennd og reiði í kjölfar þess. Þórdís og Tom skrifuðust á í nokkur ár og hittust svo á endanum og segja þau bæði að þetta hafi haft jákvæð og frelsandi áhrif á þau. Þau segja jafnframt að ferlið hafi ekki alltaf verið auðvelt en að margt hafi breyst í lífum þeirra eftir að hafa verið í samskiptum við hvert annað. Tom játaði sekt sína sem gaf Þórdísi aukinn styrk, með því fékk hún staðfestingu á að brotið hafi ekki verið henni að kenna. Þetta dæmi sýnir fram hversu mikil áhrif fyrirgefning og sátt geta haft fyrir bæði brotamenn og brotaþola, rétt eins og fræðimenn hafa bent á í tengslum við ferli uppbyggilegrar réttvísi og sáttamiðlunar.

Meðferð ungs fólks sem brýtur af sér er vandmeðfarin. Ekki er alltaf augljóst hvaða meðferðarúrræði er farsælast fyrir unga afbrotamanninn að ganga í gegnum í kjölfar afbrots og þykja margar lausnir umdeildar. Ein meðferð hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarið sem þykir vera góð og kallast hún uppbyggileg réttvísi (e. restorative justice).

Uppbyggileg réttvísi er úrræði sem hentar vel fyrir ungmenni sem hafa brotið af sér. Meginmarkmið úrræðisins er meðal annars að fá brotamanninn til þess að axla ábyrgð á gjörðum sínum og gera sér grein fyrir þeim skaða sem hann getur hafa valdið öðrum. Með því að axla ábyrgð á gjörðum sínum er líklegra að ungmennið taki brotið alvarlega og sjái eftir því. Með því að finna fyrir þessum afleiðingum er þar að auki líklegra að brotamaðurinn brjóti ekki af sér aftur. Árið 2001 var sett af stað tilraunaverkefnið Hringurinn á Íslandi. Verkefnið gaf ungmennum á aldrinum 13 til 15 ára sem höfðu brotið af sér kost á því að taka þátt í verkefninu. Verkefnið var samvinnuverkefni Lögreglunnar í Reykjavík og Miðgarðs, fjölskylduþjónustunnar í Grafarvogi. Markmið Hringsins var að innleiða ný meðferðarrúræði sem gripið yrði til við afbrot barna. Hugmyndafræðin á bakvið Hringinn er uppbyggileg réttvísi, þar sem útgangspunkturinn er að samkennd og ábyrgðarkennd einstaklinga séu virkjuð og vænst til þess að í kjölfarið leiðist einstaklingurinn ekki til frekari afbrota. Til þess að ná því takmarki vinnur Hringurinn að því að barnið fái tækifæri til þess að bæta fyrir hegðun sína á uppbyggilegan hátt. Með því fær það fleiri sjónarmið á afbrot sitt og vonin er sú að barnið setji sig í spor brotaþola og öðlist á þann hátt sam- og ábyrgðarkenndina sem leitast er eftir hjá barninu. Í samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins kemur fram að tryggja skuli að farið sé með börn á þann hátt sem velferð þeirra hæfi og að það samræmist bæði aðstæðum þeirra og brotinu sem þau frömdu. Ef miða á við tilraunaverkefnið sem hófst hér á landi þá samræmist það þessu ákvæði vel. Almenn ánægja var á meðal þátttakenda verkefnisins og sýnir það vel mikilvægi þess að tiltæk séu úrræði fyrir ungmenni sem leiðst hafa út í afbrot á Íslandi.

Sáttamiðlun er mikilvægur hluti uppbyggilegrar réttvísi og má í raun segja að aðferð uppbyggilegrar réttvísi byggi að stórum hluta til á sáttamiðlun. Sáttamiðlun fer þannig fram að allir aðilar sem koma að brotinu setjast saman niður og ræða brotið. Til stuðningsaðila geta talist foreldrar og forráðamenn eða aðrir einstaklingar sem tengjast brotamanni eða brotaþola nánum böndum.  

Margir kostir eru við sáttamiðlunina en einnig eru gallar til staðar. Sem dæmi um kosti má nefna að úrlausn minniháttar mála er á ábyrgð einstaklinganna sjálfra og felst hún í málamiðlunum sem brotaþoli og brotamaður komast að saman. Annað dæmi er að réttarstaða brotaþola sé styrkt. Brotaþoli tekur þátt í ákvarðanatöku um hvernig málinu er lokið. Hafi brotaþoli orðið fyrir áfalli við verknaðinn, sálrænu eða öðru, getur þátttaka í meðferðarúrræðinu reynst mikilvægur þáttur í bataferlinu. Brotaþoli fær að tjá sig við brotamanninn um áfallið sem hann varð fyrir auk þess sem hann fær tækifæri til að semja um hverjir eftirmálar brotamannsins verða, með þá von að leiðarljósi að brotamaðurinn muni ekki endurtaka gjörðir sínar.

Sýnt hefur verið fram á að einstaklingar sem taka þátt í sáttamiðlun eru ólíklegri, en aðrir afbrotamenn til þess að brjóta af sér aftur. Yfirfæra mætti stöðu ungra afbrotamanna á Íslandi á ástandið í öðrum löndum og við nýtt okkur það sem sýnt hefur verið fram á að nýtist vel. Ef uppbyggileg réttvísi væri til staðar fyrir unga afbrotamenn á Íslandi mætti vel ætla þess að afbrotatíðni þeirra gæti lækkað og þeir hreinlega leiðst af þessari braut.

Jónína Sigurðardóttir

Ritstjórn

Jónína Sigurðardóttir er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun og forvarnir fyrir börn og ungmenni. Hún starfar sem ráðgjafi á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jónína á 11 ára gamla dóttur og hefur mikinn áhuga á velferðarmálum.