Ungliðahreyfingar – til hvers?

eftir Elísabet Inga Sigurðardóttir

Í stjórnmálaflokkum eru gjarnan starfandi ungliðahreyfingar. Slíkar hreyfingar eru vettvangur fyrir ungt fólk með áhuga á pólitík til að taka þátt í starfi flokksins og láta í sér heyra. Einhverjir ganga til liðs við ungliðahreyfingu með það markmið að ná langt í stjórnmálum. Á meðan aðrir hafa engan áhuga á pólitísku framtíðarstarfi en vilja hafa áhrif og taka þátt. Svo eru enn aðrir bara með til að vera með. Burt séð frá markmiðum einstaklinga er starf ungliðahreyfinga mjög áhugavert og lærdómsríkt.

Margir telja að taki einstklingur þátt í starfi ungliðahreyfingar sé hann skuldbundinn flokknum og þurfi þar með að styðja hann í einu og öllu. Ég er ekki sammála því, þvert á móti.

Að mínu mati er einn helsti tilgangur ungliðahreyfinga að veita flokknum aðhald. Ungir einstaklingar með áhuga á pólitík eiga að vera óhræddir við að láta í sér heyra finnist þeim flokkurinn horfa fram hjá ungu fólki og málefnum þeirra – eða ef flokkurinn fer út af sporinu. Æskilegt er að einstaklingur velji þann flokk sem er með stefnu í samræmi við hugsjónir hans, en vert er að hafa í huga að þátttaka í ungliðastafi einkennist ekki af því að vera sammála öllu sem á sér stað innan flokksins, þótt hann samræmist hugsjón einstaklingsins.

Takk, en nei takk.

Ungliðahreyfingar eiga ekki að standa sem klappstýrur á hliðarlínu flokkanna og fylgja þeim í blindi. Gagnrýnin hugsun á að vega þyngra en öll hollustubönd. Því er mikilvægt að ungir einstaklingar geri sér grein fyrir mikilvægi þess að gagnrýna með það að leiðarljósi að í góðu lagi er að vera ósammála einstaka málefnum innan flokksins

Þátttaka í starfi ungliðahreyfingar getur veitt einstaklingum tækifæri til að hafa bein áhrif á flokkinn Mín upplifun er sú að í dag er hlustað á ungt fólk og tekur flokkurinn mark á þessum stóra hópi fólks. Þess vegna er enn mikilvægara að ungir einstaklingar hafi kjark og þor til að hefja upp raust sína og gagnrýna störf flokksins fari hann út af sporinu, þrátt fyrir að ungliðahreyfing falli undir flokkinn sjálfan.

Drifkraftur ungs fólks er öflugur og áberandi, en ég fékk smjörþefinn af honum þegar ég sótti Landsfund Sjálfstæðisflokksins árið 2015. Fjölmargir ungir einstaklingar sóttu fundinn, eða um 200 manns, og tóku þátt í því að marka stefnu flokksins. Það var hvetjandi að sjá fjöldann allan af ungum einstaklingum með skoðanir standa upp fyrir sínum málstað og koma málefnum sem brunnu á þeim í gegn.

Ungir eru ungum bestir

Við, unga fólkið, höfum rödd sem er mikilvægt að heyrist í. Við verðum að vera dugleg að þrýsta á að málefni sem okkur varða séu tekin fyrir og ungliðahreyfingar eru góður vettvangur til þess. Vert er að klappa flokknum á bakið standi hann sig vel en veita aðhald og láta í sér heyra, fari hann fram úr sér. Það er umhugsunarefni líti ungliðahreyfing á flokk sinn sem íþróttalið sem fylgja á í blindi. Ef að ungt fólk hefur ekki áhuga á málefnum ungra og drifkraft til að ýta á að málefni okkar séu tekin fyrir með gagnrýnni hugsun að leiðarljósi – hver þá?

Elísabet Inga Sigurðardóttir

Pistlahöfundur

Elísabet Inga er laganemi á þriðja ári við Háskóla Íslands. Samhliða náminu starfar hún sem fréttamaður. Á fyrstu árum laganámsins sat hún sem formaður Vöku fls. og var einnig varaformaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.