Unga fólkið borgar – sem fyrr

eftir Ritstjórn

Í kjölfar kosninganna árið 2013 var framkvæmd svokölluð leiðrétting á húsnæðislánum. Það sem leiðréttingin átti að leiðrétta var verðbólguskot sem kom þeim illa sem tóku lán stuttu fyrir hrun. Þeir sem fengu leiðréttingu höfðu, þegar að útgreiðslu hennar kom, aftur eignast talsvert eigið fé í húsnæðinu sínu í gegnum hækkun á fasteignaverði. Fasteignirnar hafa síðan þá haldið áfram að hækka í verði. Leiðréttingin var því greidd út til kynslóðarinnar sem var komið út á fasteignamarkaðinn og átti eigið fé í húsnæði. Unga fólkið greiddi fyrir leiðréttinguna og er enn ekki komið inn á fasteignamarkaðinn.

Og talandi um fasteignamarkaðinn þá hefur lengi verið í gangi sú stefna hjá Reykjavíkurborg að þétta byggð. Sú stefna hefur klárlega sína kosti til langs tíma. Oft hefur verið talað um að það sé unga fólkið sem vill þéttingu byggðar og því er jafnframt kastað fram að unga fólkið vilji frekar leigja en eiga. Seinni fullyrðingin er öllu varasamari en sú fyrri og þarfnast frekari skýringar af þeim sem henda henni fram. Könnun á vilja ungs fólks sýnir að svo er ekki. Til skamms tíma kemur stefnan um þéttingu byggðar sér verst fyrir unga fólkið sem ekki kemst inn á fasteignamarkað og hún kemur sér best fyrir eldri kynslóðir sem eru komnar inn á fasteignamarkaðinn. Þetta er pólitísk ákvörðun sem borgarstjórnarmeirihlutinn ber ábyrgð á og svo getur fólk verið sammála eða ósammála henni.

Nú er svo komið fyrir fasteignamarkaðinum að unga fólkið á varla möguleika að komast inn á markaðinn og það bráðvantar meira húsnæði. Meira að segja borgarstjórnarmeirihlutinn er farinn að viðurkenna að áætlanir hafa ekki staðist og því ákveðið að byggja fleiri íbúðir. Í fréttatilkynningum er reyndar vandlega passað upp á það að það stendur hvergi í uppfærðu tölunum um hversu mikla fjölgun er að ræða, heldur er alltaf bara nefnd heildartala íbúða sem á að byggja – líka þær íbúðir sem búið var að ákveða að byggja. Slíkar pólitískar fréttatilkynningar þokuleggja umræðuna.

Með hækkandi fasteignaverði hefur krafan um lækkun fasteignagjalda orðið æ háværari. Raddir, allt frá Stefáni Ólafssyni til ritstjórnarpistla Morgunblaðsins fjalla um að nú sé kominn tími til að lækka fasteignagjöld. Það má hugmyndafræðilega taka undir það að fasteignagjöld eiga að vera lág. Gríðarleg hækkun slíkra gjalda á einu bretti geta komið sér illa fyrir fjölskyldur og gjaldið er greitt af fasteign sem ekki skilar beinum tekjum heldur aðeins hækkandi fasteignamati. Þá er hægt að taka undir með Stefáni Ólafssyni að ekki verði ólíklegt að fasteignagjöld muni spila hlutverk í komandi borgarstjórnarkosningum.

Nú hefur borgarstjórnarmeirihlutinn ákveðið að vísa tillögu um lækkun fasteignagjalda til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar. Á svipuðum tíma og allt stefnir í uppbyggingu dýrrar innviðauppbyggingar með borgarlínunni. Gott og vel.

En á sama tíma stendur til að hækka gjöld á byggingu nýrra íbúða. Stendur til að leggja á sérstakt innviðagjald sem gæti orðið allt að 1,5-2,5 milljónir króna á 100 fermetra íbúð. Gjald sem samkvæmt sviðsstjóra mannvirkjasviðs hjá Samtökum atvinnulífsins mun fara „lóðbeint út í íbúðaverð.“

Sem sagt, þrátt fyrir alla viðleitni til að lækka byggingarkostnað og fjölga íbúðum á höfuðborgarsvæðinu þá á að: Lækka álögur á þá sem komnir eru inn á fasteignamarkaðinn en leggja auknar álögur á þá sem byggja sér íbúðir. Eins og með leiðréttinguna og þéttingu byggðar þá er unga fólkið sem ekki er komið út á fasteignamarkaðinn látið borga.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.