Undir feldinum

eftir Birta Austmann Bjarnadóttir

Ég hef alltaf haft mjög gaman af kenningu John Rawls um fávísisfeldinn (e. veil of ignorance).  Feldurinn er hugsaður sem aðferð sem hægt er að beita við mat á siðferði við pólitískar ákvarðanir.

Þegar undir fávísisfeldinn er komið þá veit maður ekkert um stöðu sína í samfélaginu. Ég veit ekki hvar hæfileikar mínir liggja, hvort ég glími við sjúkdóma eða fatlanir og svo framvegis. Ég gæti verið í hóp þeirra efnuðustu eða þeirra fátækustu, og allt þar á milli.  Í því óvissuástandi sem ég er í undir fávísisfeldinum, í hvernig samfélagi myndi ég vilja búa?

Ég veit að þetta væru samfélög sem ég myndi ekki velja fyrir sjálfa mig:

  • Samfélag þar sem ég er ríkisfangslaus, á herteknu svæði sem heyrir undir hernaðarlög annarrar þjóðar. Þar sem börn allt að 12 ára geta verið handtekin fyrir að henda steinum og eiga á hættu pyntingar við yfirheyrslur.
  • Samfélag sem einkennist af mikilli auðlegð fárra íbúa og mikilli fátækt meirihlutans, þar sem hlutfall glæpa er hátt, atvinnuleysi mikið, og stór favela-hverfi algeng þar sem útbreiðsla eiturlyfja og sorgleg áhrif þeirra eru á hverju horni.
  • Samfélag í lokuðu ríki með ruglaðan leiðtoga sem fiktar við kjarnorku og heldur úti hótunum í garð annarra ríkja. Þar sem ógnarstjórn og mannréttindabrot einkenna stjórnarfar.
  • Samfélag þar sem engin stjórnvöld eru og hungursneyð og stjórnleysi eru helstu einkenni.
  • Samfélag sem metið er spilltara en nágrannaríkin. þar sem miklar fjárhagsáhyggjur fylgja veikindum ef hinn veiki er ekki tryggður, heilbrigðis- og menntakerfið er fjársvelt og ýmsir samfélagshópar búa við kröpp kjör.

 

Ég myndi velja mér samfélag þar sem ég get gengið að því sem vísu að grunnþörfum mínum er mætt, og helst að ég komist ofar í þarfapýramída Maslow en neðsta þrep. Á milli verstu mögulegu aðstæðna og bestu mögulegu aðstæðna vil ég að hagur minn sé tryggður. Ég vil samtryggingu en einnig einstaklingsfrelsi og markaðshagkerfi. Út frá þessum forsendum er skandinavíska velferðarkerfið sú samfélagsmynd sem ég myndi velja undir fávísisfeldinum. Sama hversu erfiðar aðstæður mínar yrðu stendur mér alltaf til boða stuðningur. Sama hversu góðar aðstæður mínar yrðu fengi ég þeirra alltaf notið.

Í upptalningu þeirra samfélaga sem ég vildi ekki búa í hér að ofan átti lýsingin við Palestínu, Brasilíu, Norður – Kóreu, Sómalíu og Ísland. Með því er ég alls ekki að segja að Ísland líkist þeim eða aðstæður hér séu sambærilegar við þær aðstæður sem þar ríkja. Margt mjög gott er hægt að segja um íslenskt samfélag en engu að síður myndi ég ekki velja mér íslenskt samfélag undir fávísisfeldinum.

Auðvitað er um mikla einföldun að ræða en fyrst og fremst eru þetta heimspekilegar vangaveltur sem ég held að geti verið hollar öllum. Þess vegna hvet ég þig til þess að skella þér undir fávísisfeldinn og sjá hvað gerist.

Birta Austmann Bjarnadóttir

Pistlahöfundur

Birta er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í lögfræði frá sama skóla. Birta starfaði á viðskiptasviði Íbúðalánasjóðs samhliða námi en starfar núna hjá Þjóðskrá Íslands. Hún hefur setið í stjórnum Vöku fls. og stjórn Politica, félags stjórnmálafræðinema auk nefndarsetu í ráðum Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólaþingi.