Umsátur um tjáningarfrelsið

eftir Kristinn Svansson

Háskólar. Heimkynni æðri menntunar, vígi frjálsra og framsækinna hugmynda sem og mótunarstaður gagnrýninnar hugsunar. Staður þar sem andstæðar skoðanir mætast og kljást.

Í háskólum Bandaríkjanna hefur verið hvatt til samræðna og/eða rökræðna um ólík viðhorf og sjónarmið. Skólarnir hafa verið fordæmi vitsmunalegra samræðna. Ásamt því að bæta við sig sérhæfðri þekkingu á ýmsum sviðum hefur fólk sótt þessa suðupotta ólíkra menningarheima í því skyni að víkka sjóndeildarhringinn og mynda eigin skoðanir.

Sú ímynd sem lýst er að ofan hefur þó verið að breytast. Tjáningarfrelsi í bandarískum háskólum og víðar á undir högg að sækja. Vert er að geta þess að opinberir háskólar í Bandaríkjunum eru bundnir af fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar. Þeim er því ekki í sjálfsvald sett að takmarka tjáningarfrelsi frekar en stjórnarskráin kveður á um, ólíkt einkareknum skólum. Tilkoma hluta á borð við safe spaces, free speech zones, microaggressions, no platform, trigger warnings, speech codes og fleiri hafa í mörgum tilfellum grafið undan þessum grundavallarrétti bandarískra þegna.

Free speech zones (svæði frjálsrar tjáningu) takmarka tjáningu nemenda við fyrirfram ákveðin svæði. Reglur um free speech zones kveða iðulega á um að svæðið þurfi að panta fyrirfram og að tjáningin eigi sér ákveðinn tímaramma. Skilaboðin sem að þessi free speech zones fela í sér eru kaldhæðnisleg þar sem þau gefa til kynna að tjáningarfrelsi sé almennt ekki til staðar nema á ákveðnum svæðum.

Speech codes (reglur um orðræðu) eru reglusetningar háskóla eða stefnur sem takmarka eða koma í veg fyrir tjáningu sem nýtur verndar fyrsta viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna um málfrelsi. Tjáning sem myndi undir venjulegum kringumstæðum, utan veggja skólans, njóta verndar áðurnefnds fyrsta viðauka. Speech codes hafa mörg andlit og inntak þeirra er mismunandi eftir skólum. Sem dæmi banna þau tjáningu sem gæti talist móðgandi eða niðrandi, gróft og lágkúrulegt orðbragð. Tilkoma reglusetningar af þessu tagi í bandarísku háskólalífi á rætur að rekja til áttunda og níunda áratugs síðustu aldar. Straumhvörf urðu um þær mundir í réttindabaráttu kvenna og minnihlutahópa í Bandaríkjunum sem gerðu þeim kleift að sækja skóla án hindrana. Til að tryggja ágreiningslausan samruna mismunandi hópa brugðust óttaslegnir stjórnendur háskóla við með því að setja á stofn reglur um speech codes.

Að minnsta kosti 22 mál er varða málfrelsi nemenda hafa verið sótt gegn bandarískum háskólum frá árinu 1989 og í öll skiptin hefur hið stjórnarskrávarða tjáningarfrelsi haft yfirhöndina. Enn viðgengst þó reglusetning af þessu tagi. Seigla þessara reglna skýrist að hluta út frá þeim ranghugmyndum að háskólasvæðið skuli vera svo búið að það verndi nemendur, starfsfólk og stjórnendur gegn móðgunum og að því megi ekki verið misboðið á neinn hátt.

Safe spaces (örugg rými) eru rými sem ætluð eru til að skapa öruggt umhverfi þar sem öllum er gefinn kostur á að tjá sína skoðun án hættu á því vera móðgaður eða látinn líða illa vegna kyns síns, kynþáttar, kynhneigðar, trúarskoðana og fleiri þátta. Þeim eru ætlað að tryggja opna og þýðingarmikla umræðu. Flest öll værum við sammála um að hugmyndafræðin sem að safe spaces færa okkur sé af hinu góða, í hið minnsta á blaði. Hver kysi ekki að geta tjáð sig án þess að eiga í hættu að vera lítillækkaðar með tilliti til ofangreindra þátta.

Raunin er því miður oft sú að gæði hugmynda teygja anga sína ekki lengra en út fyrir hugarheim skapara. Raunveruleg framkvæmd hugmynda um safe spaces færir okkur ekki þann samræðuvettvang sem þeim var ætlað að skapa. Í stað þess að staður skapist þar sem frjáls umræða á sér stað milli áhyggjulausra nemenda líkt og honum var ætlað að vera hefur hið gagnstæða gerst. Rýmin hefta tjáningarfrelsi nemenda þar sem hver sem er getur haldið því fram að tjáning sé óþægileg eða móðgandi, þó hún stríði einungis gegn skoðunum þess sem mótmælir. Línan á milli móðgandi tjáningar, þeirri sem rýmunum var ætlað að útrýma og öndverðrar skoðunar, er afmáð. Nemendur draga sig til hlés af ótta við að tjá skoðanir sem gætu talist móðgandi eða í ósamræmi við ríkjandi skoðanir á háskólasvæðinu. Eftir stendur rými endurómandi samkynja skoðana er nemendur sitja í hring upphefjandi ágæti hvers annars.

No platform (enginn ræðupallur) er sú athöfn að hindra aðila með mótmælum eða stefnumörkun til að koma á vettvang skólans og tjá sínar skoðanir. Athöfnin lýsir sér iðulega þannig að nemendur og skólastarfsmenn krefjast þess að viðburði með gestaræðumanni verði aflýst fyrir þá sök að þeir aðhyllast ekki skoðanir ræðumannsins. Aukinn mótþrói nemenda til að hlýða á eða koma í veg fyrir tjáningu ólíkra skoðana ógnar vitsmunaþroska þeirra. Í stað rökræðna og samræðna um ólíkar skoðanir er hlífðarskjöldur reistur til verndar fyrirfram ríkjandi skoðana.

Lýsing ofangreindra atriða um þá þætti sem skerða tjáningarfrelsi í bandarískum háskólum er ekki tæmandi talin. Aukið jafnrétti, tjáning án ótta við niðurlægingu eða lítillækkun með tilliti til kyns, kynhneigðar og trúarskoðana er veruleiki sem allt eðlilegt fólk ætti að fagna. Óskeikulleiki hugmynda á blaði getur hins vegar tekið á sig aðra mynd í framkvæmd. Fara ætti varlega í að veita háværum hópum sjálfsvald um hvað skuli teljast vera móðgandi eða hatursfull tjáning. Við megum ekki gleyma að ein megin röksemd tjáningarfrelsis er að koma í veg fyrir skoðanakúgun og ritskoðun – hvort sem hún stafar af hálfu ríkissvalds eða ráðandi hópum samfélags. Jaðarsetning ólíkra eða öfgafullra skoðana þjónar engum tilgangi öðrum en tímabundins hugarléttis þeirra sem aðhyllast skoðanir meirihlutans. Í stað þess að þagga niður óvinsælar og jafnvel ógeðfelldar skoðanir og láta þær grassera í ókunnugum kimum samfélagsins skulum við mæta þeim með rökum. Látum ekki pólitískan réttrúnað traðka niður almenna skynsemi. Treystum okkur frekar til þess að mæta miður geðfelldum skoðunum með eigin sannfæringu.

„Þótt gervallt mannkyn, að einum frátöldum, væri sömu skoðunar og aðeins þessi eini á öndverðum meiði, þá hefði mannkynið engu meiri rétt til að þagga niður í honum en hann til að þagga niður í því, væri það á hans valdi“ – John Stuart Mill.

Kristinn Svansson

Pistlahöfundur

Kristinn er laganemi við Háskóla Íslands og er stúdent úr Menntaskólanum við Sund. Hann starfar hjá Símanum í dag. Kristinn hefur mikinn áhuga á lögfræði, líkamsrækt, ferðalögum og góðum bjór. Skrif Kristins í Rómi beinast einna helst að lögfræði, sögu og málefnum líðandi stundar.