Umræðan um umræðuna

eftir Gestahöfundur

Í umræðunni heyrir maður oft talað um „umræðuna,” hún er svo vond og hún er á svo lágu plani. Stundum bæta gárungarnir um betur og segja hana verri á Íslandi en annarsstaðar, oft sagt í aumri tilraun til að sýnast veraldarvanari en viðkomandi á inneign fyrir. Jú, jú, umræðan er gjarnan sérstök, en verri er þó umræðan um „umræðuna.”

 

Eitt af vandamálunum við umræðuna um „umræðuna,” er hve hún „pólaríserar” skoðanir þeirra sem taka þátt. Í umræðunni um „umræðuna”, ert þú ert annaðhvort með okkur eða á móti. With us or against us.

 

Innflytjendastefna er ágætis dæmi. Í umræðunni um þá „umræðu” er engu líkara en að aðeins tvær skoðanir um innflytjendur séu til í landanum. Þú ert annaðhvort fylgjandi óheftum straumi innflytjenda allstaðar að úr heiminum – og ert þá valdlaust verkfæri pólitísku rétttrúnaðarkirkjunnar („góða fólksins”) sem á þá ósk eina að fylla vesturbæjarlaugina af Bin Laden-dýrkandi jihadíistum frá íslamska ríkinu. Eða þá, að þú ert á móti innflytjendum – og ert þá rasisti.

 

Millivegurinn er enginn.

 

Hið rétta er auðvitað, að í þessum sem og langflestum öðrum málaflokkum eru skoðanir lengst á sitthvorum pólunum þær sjaldgæfustu. Algengara er að fólk hafi hófsamari skoðun en þær sem mesta athygli fá í miðlum landsins. Það eru skoðanirnar sem viðraðar eru yfir kvöldverðarborðum landsmanna, í heitu pottunum, á kaffistofunum. Það er hin raunverulega umræða. Hættan við þetta ástand er að þessar algengustu skoðanir manna týnist í kafaldsbyl umræðunnar um „umræðuna,” enda pólaríserandi flokkun hennar til þess fallinn að fæla hófsemdar fólk frá þátttöku.

 

Ef umræðan um „umræðuna” snérist raunverulega um umræðuna, þ.e. ef hinn hófsami, þögli meirihluti fengi athyglina sem hann á skilið á kostnað æsingsins í öfgunum – værum við öll betur sett. Öðruvísi verður umræðan aldrei önnur né betri.

 

heimirHöfundur: Heimir Hannesson er meistaranemi í Alþjóðasamskiptum við Waseda háskóla í Tokyo. Áður stundaði hann nám við George Washington háskóla í Washington-borg og við Háskóla Íslands. Hann er mikill ferðalangur, og lítur á fornafnið sitt sem köllun til að heimsækja öll aðildarríki SÞ fyrir fimmtugt. Honum leiðist pólitískur rétttrúnaður.

 

Mynd: Håkon Broder Lund.