Umræðan fyrir lýðræðið

eftir Bjarni Halldór Janusson

Það líður varla sá fréttatími þar sem lýðræðið er ekki til umfjöllunar með einum eða öðrum hætti. Ágreiningur um málefni líðandi stundar er ekki eingöngu ágreiningur um einstakt málefni hverju sinni. Í víðara samhengi snýr sá ágreiningur einnig að því hvernig okkur beri að skilja lykilhugtök umræðunnar – og snýr að þeim grunngildum sem samfélagið byggist á. Við eigum það reyndar til að gleyma okkur í tæknilegum smáatriðum umræðunnar, eða að einblína of mikið á orðræðu teknókratískra stjórnmála. Það er engu að síður mikilvægt að gera ekki lítið úr hugmyndafræðilegum deilum sem skilja fólk að í afstöðu sinni til stjórnmála og samfélagsmála. Þrátt fyrir framfarir vísinda og gífurlega tækniþróun síðustu ára og áratuga, þá er ekki þar með sagt að hugmyndafræðilegur ágreiningur verði að heyra sögunni til.

Mannkynið er enn að kljást við álitamál á borð við þau hvernig skilja beri réttlætið, hvernig varðveita skuli frelsið, hvernig tryggja eigi jafnréttið, og svo framvegis. Þegar við ræðum hinn svonefnda þriðja orkupakka Evrópusambandsins eru þar undirliggjandi spurningar, eins og hvernig skilja beri fullveldishugtakið, eða hvernig utanríkisstefna þjóðarinnar skuli vera til lengri tíma litið. Sumir telja að þetta málefni sé þess eðlis að þjóðin eigi rétt á því að kjósa um það í beinni atkvæðagreiðslu. Það væri fróðlegt að hugsa til þess hvort að andstaða við málefnið skýrist að hluta til af því vantrausti sem kjósendur bera til stjórnmálamanna og ríkjandi stjórnarhátta. Væri andstaðan minni en ella ef kjósendur treystu stjórnmálamönnum til að upplýsa rétt um efnisleg atriði málsins? – Má fullyrða að hluti andstöðunnar skýrist einmitt ekki af efnislegum ástæðum, heldur mótist fremur af ríkjandi óánægju kjósenda í garð stjórnmálanna sjálfra?

Óánægðir lýðræðissinnar

Án þess að búa yfir miklu öðru en forvitnilegum vangaveltum, þá skal ég leyfa mér að fullyrða að fyrirliggjandi reiði í garð ríkjandi stjórnmála hafi ávallt eitthvað um samfélagsumræðuna og tíðaranda samfélagsins að segja. Til þess að tryggja að málefnaleg umræða eigi sér stað, að upplýstar ákvarðanir séu teknar og að rökrétt afstaða sé fyrir hendi, þá þarf að tryggja að sátt ríki um þann grundvöll sem samfélagið byggir á. Við gætum því tekið upp þráðinn frá upphafi greinarinnar og spurt okkur hver afstaða kjósenda sé til lýðræðissamfélagsins.

Ég skal reyndar byrja á að nefna að dómsdagsspár um lýðræðið sjálft eiga ekki við. Þrátt fyrir allt það sem á undan hefur gengið, og þrátt fyrir allt það sem kann að ógna lýðræðinu í dag, þá er lýðræðið sjálft enn eftirsóknarvert í huga fólks. Að vísu bera kjósendur minniháttar traust til stjórnmálamanna og ríkjandi stjórnmála. Að sama skapi hefur dregið úr þátttöku þeirra innan stjórnmálafloka og sömuleiðis hefur dregið úr kosningaþátttöku þeirra. Þetta kann að breytast ár frá ári með tímabundnum upp- og niðursveiflum, en staðreyndin er samt sú að þegar á heildina er litið virðist niðursveiflan fremur ríkjandi. Skýringarnar eru margar og mismunandi, en ein þeirra er sú að þessi nýi almenningur taki nú þátt með óhefðbundnari leiðum en áður þekktist.

Þetta fólk tekur oftar þátt í mótmælum og beitir sér fyrir málefnum með beinum aðgerðum, fremur en að taka þátt innan stjórnmálaflokka eða að greiða atkvæði á kjördag. Það ber að vísu traust til lýðræðis, en ekki til þeirrar útfærslu sem blasir við í lýðræðisskipulagi nútímans. Þessi hópur samsvarar sér ekki ríkjandi kerfi og lætur óánægju sína í ljós með eðlisbreyttum áherslum sínum og aðgerðum. Er það ekki þá bara af hinu góða að þessi þróun skýrist fyrst og fremst af fjölgun í hópi óánægðra lýðræðissinna? – Því mætti auðvitað svara bæði játandi og neitandi. Það er auðvitað kostur að lýðræðisþegnar geri auknar kröfur til kjörinna fulltrúa sinna og hugsi sjálfstæðara með þessum hætti.

Þrátt fyrir það getur aukið vantraust af slíku tagi grafið undan stöðugleika og réttmæti lýðræðisskipulagsins. Dvínandi kjörsókn getur dregið úr réttmæti kosninga sem býður hættunni heim, þar sem núríkjandi lýðræðiskerfi grundvallast á því að almenningur kjósi fulltrúa sem eiga að fara með völdin í nafni almennings hverju sinni. Í því skyni er mikilvægt að beina óánægju þessara kjósenda í réttan farveg og tryggja að eðlisbreyttar áherslur nýrra hópa verði ekki út undan í lýðræðisferlinu, þar sem aukið tillit verði jafnvel tekið til stjórnmálaþátttöku sem ekki heyri undir hefðbundna kosningaþátttöku. Fyrsta skrefið þar væri ávallt að tryggja að raddir þeirra fái hljómgrunn og að tryggja að viðeigandi umræða fari fram um það hvernig lýðræðisþjóðfélagið eigi að vera.

Umræðan um lýðræðið

Verði þessari óánægju ekki beint í réttan farveg er hættan á að þeir verði berskjaldaðir fyrir skautaðri hugmyndafræði og uppgangi lýðhyggju. Ég leyfi mér þó að fullyrða að hérlendis séu ekki hreinræktaðir lýðhyggjuflokkar, þrátt fyrir að orðræða ákveðinna flokka taki að miklu leyti mið af orðræðu slíkra flokka. Við erum þess vegna í talsvert betri stöðu en ríki á borð við Austurríki og Ungverjaland, þar sem ráðandi stjórnmálamenn grafa undan fjölræði frjálslynda lýðræðisskipulagsins með róttækum breytingum, sem jafnvel bitna allra verst á þeim hluta almennings sem tjáði óánægjuna til að byrja með.

Það er hálfgerð klisja þegar sagt er að mikilvægt sé að taka umræðuna. Þeir sem þetta boða eru einmitt oftar en ekki þeir sem reyna sjálfir að forðast umræðuna þegar kjörið tækifæri gefst. Þegar þeir taka svo umræðuna eru þeir gjarnir á að einblína á tæknileg smáatriði eða stunda áróður sem hefur það að markmiði að afvegaleiða umræðuna. Þetta kann vel að vera ómeðvitað og óviljandi, en afleiðingarnar eru þær að mikilvæg umræða lýðræðissamfélagsins mætir afgangi.

Til að standa vörð um lýðræðisþjóðfélagið  og tryggja að sátt sem flestra verði að raunveruleika er mikilvægt að umræðan nái til þeirra kjósenda sem upplifa fjarlægð frá ríkjandi kerfi og álíta að óbreytt kerfi gæti ekki hagsmuna þeirra með viðeigandi hætti. Það er ekki bara umræða um lýðræðið; það er líka umræða fyrir lýðræðið.

Bjarni Halldór Janusson

Stjórn & pistlahöfundur

Bjarni Halldór er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur nýlokið meistaranámi í stjórnmálaheimspeki við University of York í Bretlandi. Skrif hans hverju sinni munu beinast að helstu málefnum félags- og hugvísinda. Þá verða málefni líðandi stundar og hugmyndafræðilegar vangaveltur fyrst og fremst til umfjöllunar. Hann hefur lengi látið sig félagsmál varða, en þar ber helst að nefna varaþingmennsku á Alþingi og setu í Stúdentaráði HÍ.