Um verndun starfsgreina: Hverjum þjónar regluverk?

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Játning: Ég elska samkeppnismarkaði. Ég dáist að því hvernig mannfólk, þegar heilbrigðir hvatar eru til staðar, finnur í sífellu snjallar lausnir á erfiðum málum eða betri leiðir til þess að gera hluti – oft á betra verði! Enginn getur sofið rótt á góðum samkeppnismarkaði; það er alltaf einhver að leita tækifæris til þess að gera það sem þú ert að gera betur en þú, þ.e.a.s. ef það er þess virði til að byrja með.

Vissulega vitum við að fullkomnir slíkir markaðir eru ekki til í raun og veru, og fáir eru þeir sem komast nálægt. Ýmsar augljósar ástæður liggja að baki, enda eru forsendur fullkominna samkeppnismarkaða aldrei uppfylltar. Það hefur enginn allar viðeigandi upplýsingar sem þarf til þess að taka ákvörðun hverju sinni. Öllum yfirsést hluti. Þá er markaðsvald fyrirtækja gjarnan skapað með fjölda aðferða. Fyritæki geta t.d. aðgreint vörur sínar frá sambærilegum vörum, ýmist með raunverulegum breytingum á eiginleikum eða með markaðssetningu. Þá geta náttúrulegar aðstæður, t.d. gríðarlega hár stofnkostnaður eða fastur kostnaður, gert það að verkum að aðeins fáein fyrirtæki sjá sér hag í að framleiða vöru og/ eða þjónustu. Smáir markaðir þar sem torvelt er að nýta stærðarhagkvæmni skapa einnig gjarnan fákeppni og einokun, eins og við Íslendingar þekkjum of vel. Þó er önnur tegund af innikróun fáeinna aðila á markaði kannski hvað áhugaverðust: Sú sem er gerð möguleg af hinu opinbera.

Rentusókn og „föngun“ hagkerfa

Á þessum furðulega stað, fullkomna markaðnum, þá er hagrænn hagnaður fyrirtækja enginn – þ.e.a.s. hagnaður þegar búið er að taka tillit til fórnarkostnaðar[1]. „Markaðsöflin“, framboð og eftirspurn, sjá til þess[2]. Ýmsar náttúrulegar aðstæður geta gert það að verkum að markaðsvald skapist og hagrænn hagnaður er meiri en enginn, eins og farið hefur verið yfir. Hins vegar eru það oftar en ekki stjórnvöld sem greiða leið einokunar eða fákeppni, og oft í nafni „almannahagsmuna“. Stjórnvöld geta ýmist gert þetta með því að binda einokun í lög, eins og t.d. er gert í íslenskum landbúnaði, eða búið til markaðsvald óbeint með ýmis konar regluverki, t.d. með lögverndun starfsheita, leyfisveitingum eða öðrum reglum sem bera með sér fylgiskostnað.

Á þessum tímapunkti er gott að staldra við og velta fyrir sér forsendur slíkra stjórnvaldsaðgerða. Verndun reksturs frá samkeppni er nefnilega alvarlegt mál, enda er verið að skapa aðstæður þar sem „rentur“ eru að skapast, þ.e. hagnaður sem ekki væri til staðar ef ekki væri fyrir takmörkunina. Í skjóli verndunar eru verð til neytenda gjarnan hærri en ella og heilbrigðir hvatar, bæði í rekstri og stjórnsýslu, kunna að spillast. Vissulega er oft brýn þörf á regluverki, einkum þegar viðskipti eiga sér stað þar sem mikið tjón er mögulegt og misræmið á milli upplýsinga sem kaupandi og seljandi búa yfir er mikið. Heilbrigðisþjónusta er augljóst dæmi þar sem það getur verið mikilvægt að regluverk sé til staðar sem tryggir öryggi kaupenda, enda geta neytendur oft ekki greint hjá læknum vönduð handbrögð frá slæmum, jafnvel þó líf þeirra liggji bókstaflega við. Sömuleiðis er fjármálaleg milliganga, t.d. verðbréfamiðlun, önnur þjónusta sem hefur mögulega í för með sér mikið tjón ásamt misræmi á milli þekkingu kaupenda og seljenda þjónustunnar.

Manni er þó spurn hvort að þessar forsendur fyrir hamlandi regluverki séu alltaf uppfylltar: Er t.d. virkilega nauðsynlegt, í þágu almannahagsmuna, að bakaraiðn sé leyfisskyldur iðnaður? Ef ég fæ ónýtann snúð hjá Palla Bakara, þá fæ ég mér kannski bara súkkulaðibitaköku á Subway næst. Ekkert stórmál. Annað – er mér virkilega ekki treystandi, sem neytanda, að greina á milli þess hvort ég vilji versla við þennan hattasaumara eða hinn? Það finnst allaveganna íslenska ríkinu ekki. Sér kapítúla er reyndar hægt að rita, og hefur það raunar verið gert af Viðskiptaráði Íslands, um sérstakan áhuga íslenskra stjórnvalda á lögverndun starfa.

Dæmin sem reifuð hafa verið eru vissulega smá og einangruð, en málið er að aðgangshindranir af þessu tagi eru allsstaðar. Það er alveg á kristal tæru að það hefur oft minna að gera með almannahagsmuni og meira að gera með færni þeirra sem fyrir eru í að sækja sér vernd frá samkeppni – s.k. „rentusókn“. Tilgátur eru meira að segja um að þetta sé einn mesti orsakavaldur á aukningu ójafnaðar í vestrænu samfélagi á undanförnum áratugum. Hvað sem því líður er alveg ljóst að aðgangshindranir sem settar eru upp af stjórnvöldum þurfa ávallt að geta treyst á sterkar málefnalegar forsendur, ella er hætt við því að aðgangstakmarkanir gangi þvert á móti almannahagsmunum.

Endurskoðum óþarfa regluverk


Hvort að leyfiskerfi, lögverndun starfa eða annars konar takmarkanir sem stjórnvöld koma á eru til góðs eða ills er flókið viðfangsefni. Vísindamenn í öðrum félagsvísindum, líkt og félagsfræðingurinn Beth Redbird, hafa brugðið ljósi á fleiri hliðar á málinu. Djúpur skilningur á áhrifum leyfiskerfa og lögverndun starfa er að öllum líkindum skammt á veg kominn. Líkast til þarf að meta hvert og eitt tilfelli fyrir sig, en sönnunarbyrðin á ávallt að vera á þeim sem vilja takmarka markaðsfrelsi. Það er alveg ljóst að fyrirtæki hafa tilhneigingu til þess að sækja vernd frá samkeppni og eðlilegum markaðsaðstæðum. Jafnramt virðast stjórnvöld gjarnan hafa tilhneigingu til þess að spila með. Mikið af regluverki er óþarft og til þess fallið að þjóna sérhagsmunum, frekar en almannahagsmunum. Að teknu tilliti til þessa, þá eigum við eigum öll að gera ríkari kröfur til stjórnvalda um hvaða atvinnugreinar það eru sem raunverulega þurfa regluverk eða verðskulda vernd. Það er hagsmunamál okkar allra.

Að lokum legg ég til að einokun leyfishafa á leigubílamarkaði verði lögð í eyði.

 

 

[1] Fórnarkostnaður er í stuttu máli kostnaður þess að velja einn kost umfram annan: Segjum að þú fáir boð um að þiggja ókeypis hádegismat frá vini þínum, komir þú með honum að borða. Það er vissulega ekki krafist fjárútláts frá þér, en þú gætir verið að nýta þennan sama tíma í fjöldan allan af öðrum hlutum: Læra fyrir skólann, vinna í verkefni í vinnuni þinni, eða jafnvel í að selja dót á tombólu fyrir utan Rúmfatalagerinn í Smáranum. Fórnarkostnaður þess að þiggja þennan hádegismat er besti hluturinn sem þú gætir verið að gera sem þú ekki gerir vegna hádegismatarins. Þetta er það sem hagfræðingar meina þegar þeir segja: “There’s no such thing as a free lunch”. Í samhengi fyrirtækjareksturs, þá myndi enginn setja pening í rekstur ef þeir fengju ekki betri ávöxtun en þeir gætu fengið með því að fjárfesta í öðrum kosti sem liggur þeim nálægt – oft er ávöxtun ríkisskuldabréfa notað sem “proxy” fyrir fórnarkostnað á fjármagnsmarkaði.

[2] Ef meiri eftirspurn er til staðar en framboð, þá er hagnaður til staðar og ný fyrirtæki flæða inn á markaðinn. Fyrirtæki þessi undirbjóða hvert annað þar til hagnaður hefur verið þurrkaður út. Hið gagnstæða á við ef framboð er umfram eftirspurn.

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.