Um skilvirkni þings og skyldur stjórnmálamanna

eftir Bjarni Halldór Janusson

Í síðustu viku náðist loks samkomulag um þinglok og síðastliðið fimmtudagskvöld var ákveðið að þingfundum skyldi frestað. Lengi vel þótti erfitt að ná samkomulagi milli þingflokka og því drógust þingfundir á langinn. Ágreiningurinn sneri fyrst og fremst að málum sem þingmenn Miðflokksins vildu fresta fram á haust, eða þar til næsta löggjafarþing tæki til starfa. Eftir miklar viðræður virtist svo endanlegt samkomulag liggja fyrir, þar sem ákveðið var að fresta afgreiðslu þingsályktunar um þriðja orkupakkann svonefnda, en ákveðið var að taka skyldi málið fyrir á framhaldsfundi í lok sumars. Í samkomulaginu var einnig ákveðið að fresta gildistöku laga um innflutning á ófrosnu kjöti, svo gera mætti frekari ráðstafanir fyrir gildistöku laganna.

Þinglokum seinkaði einnig vegna seinkunar á síðari umræðu um breytta fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, en hvort tveggja var tekið til umræðu í þingsal daginn sem þinglokin sjálf urðu, þar sem gögn frá fjármálaráðuneyti höfðu fyrst borist fjárlaganefnd daginn áður. Nauðsynlegt þótti að gera breytingar á þeirri fjármálastefnu sem ríkisstjórnin kynnti í upphafi kjörtímabilsins, auk þess sem breyta þurfti þeirri fjármálaáætlun sem lögð var fram fyrir þremur mánuðum síðan.

Ástæðurnar fyrir þeirri endurskoðun voru þær að nýjustu hagspár bentu til þess að samdráttur yrði í landsframleiðslu á árinu, auk þess sem hagvöxtur næstu ára yrði minni en í fyrstu var gert var ráð fyrir. Þetta mátti rekja til neikvæðari útflutningshorfa, einna helst útaf loðnubresti og vegna gjaldþrots innlends flugfélags. Þess vegna var útlit fyrir að afkoma ríkisins yrði um 45 milljörðum króna lægri en áður var áætlað, þar sem tekjur höfðu dregist saman um allt að 35 milljarða króna og útgjöld höfðu hækkað um nokkra milljarða vegna aukins atvinnuleysis.

Veikleikar og vandamál

Það er til marks um ákveðna veikleika í hagstjórn stjórnvalda, sem hafi byggt á óraunhæfum forsendum og ófullkomnum vinnubrögðum, að ferlið hafi farið fram með þessum hætti, líkt og fjármálaráð nefndi í umsögn sinni um málið. Jafnframt verður að teljast áhyggjuefni hvað umræðan tafðist mikið og sömuleiðis hvað umræðan fór fram af miklum hraða þegar hún loksins átti sér stað í þingsalnum, en það einkenndi einnig framvindu annarra mála. Það er gömul saga og ný að mikilvæg mál komi fyrst til almennilegrar umræðu á lokadögum þingtímabilsins, ekki síst þegar málþóf hefur heltekið umræðu fyrri þingfunda, líkt og á síðasta þingi.

Nú er það til tímabærrar umræðu hvort breyta eigi þingsköpum til að gera þingmönnum erfiðara fyrir að beita málþófi og tefja afgreiðslu mála. Forsætisráðherra hefur sagt sig þeirrar skoðunar að endurskoða eigi þingsköpin með þessum hætti og jafnframt hefur fráfarandi skrifstofustjóri Alþingis sagt að gera þurfi breytingar í þessum efnum. Þingforseti tók í sama streng og það hafa ákveðnir þingmenn einnig gert. Þau sammælast öll um að málþófið hafi heltekið umræðuna og komið í veg fyrir eðlilega starfsemi þingsins.

Þingstörfin einkenndust af svo miklu málþófi Miðflokksins að slegið var svonefnt málþófsmet á tímabilinu. Í yfirliti þingstarfanna kom fram að þingfundir hefðu verið 129 talsins og staðið í rúmar 865 klukkustundir, þar sem umræðan um þriðja orkupakkann stóð í um 138 klukkustundir. Málþófið er helsta birtingarmynd átakastjórnmála og inngreypt í umræðuhefðina hérlendis. Það á sér langa sögu og tíðkast raunar víða um heim, en hefur þó verið talsvert algengara hér en í nágrannaríkjunum í Evrópu.

Lýðræðislegt verkfæri – eða hvað?

Málþóf tefur dagskrá þingsins, bitnar á þingstörfunum í heild sinni og leiðir til frekari átaka innan stjórnmálanna. Þess vegna er ekki erfitt að sjá ókosti þess, en hér er þó einnig um að ræða réttmætt verkfæri stjórnarandstöðu sem geri henni kleift að sinna hlutverki sínu og veita stjórnarmeirihluta aðhald. Í þingræðisríkjum er þetta sérstaklega mikilvægt til að stjórnarandstaðan hverju sinni geti látið óánægju sína í ljós og jafnvel tryggt frekari samráð í mikilvægum málum. Þetta er ekki síður mikilvægt verkfæri þegar meirihlutinn er naumur og þegar kosningakerfið er þess eðlis að stjórnmálaflokkar þurfa ekki endilega meirihluta atkvæða á landsvísu til að öðlast meirihluta þingmanna, líkt og þekkist hérlendis.

Þó er ekki þar með sagt að ekkert megi gera til að bæta ástandið. Þetta verkfæri, sem annars gegnir mikilvægu hlutverki, tefur afgreiðslu alls kyns mála með svo skaðlegum hætti að þörf þykir á endurskoðun þingskaparlaga. Oftar en ekki virðist sem málþóf gegn tilteknu máli haldi áfram þegar því máli er svo frestað og önnur mál tekin fyrir, líkt og reynslan af síðasta þingi sýnir. Til að mynda mátti sjá þingmenn Miðflokksins tefja afgreiðslu mikilvægra mála á borð við frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði og um breytingar á lögum um loftslagsmál.

Þegar svo er raunin þá er verkfærið ekki eingöngu til þess að veita aðhald á eins málefnalegum grundvelli og unnt er, heldur einnig til að setja upp leikrit og sýna tennurnar í því skyni að öðlast frekari stuðning kjósenda. Hættan verður fyrir vikið sú að þingmenn sinni ekki störfum sínum sem skyldi og vanræki skyldur sínar gagnvart þjóðinni. Til viðbótar má hugsa til þeirra áhrifa sem málþóf hefur á ímynd Alþingis og það traust sem kjósendur bera til þess. Fullyrt er að málþóf ýti undir enn frekari vantraust, þó það geti raunar hent stjórnmálamönnum ákveðinna andkerfisflokka og nært óánægjufylgi þeirra.Að þessu sögðu virðist vantraustið nógu mikið fyrir og því tilefni til að taka á slíku vandamáli með viðeigandi hætti, svo sem með því að gera breytingar á þingskapaparlögum. Ekki virtist vilji meðal þingmanna til að beita því ákvæði þingskaparlaga sem veitir þingforseta heimild til að takmarka ræðutíma þingmanna, enda geti fordæmi fyrir slíku verið hættulegt, auk þess sem þingheimurinn vildi ekki gera þingmenn Miðflokksins að píslarvottum með beitingu ákvæðisins. Fyrir þessar sakir er nauðsynlegt að gera breytingar á þingskaparlögunum sjálfum til fyrirbyggja að þessi staða komi upp aftur og komi þar með þingstörfunum í uppnám. Það er beinlínis skylda stjórnmálamanna að bregðast við til að tryggja skilvirkni þingsins og endurheimta það traust sem glatast hefur.

Bjarni Halldór Janusson

Stjórn & pistlahöfundur

Bjarni Halldór er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur nýlokið meistaranámi í stjórnmálaheimspeki við University of York í Bretlandi. Skrif hans hverju sinni munu beinast að helstu málefnum félags- og hugvísinda. Þá verða málefni líðandi stundar og hugmyndafræðilegar vangaveltur fyrst og fremst til umfjöllunar. Hann hefur lengi látið sig félagsmál varða, en þar ber helst að nefna varaþingmennsku á Alþingi og setu í Stúdentaráði HÍ.