Um hvað snúast kosningar?

eftir Ritstjórn

Í þessari viku hefur íslensk stjórnmálaflóra orðið einum flokki ríkari og staðsetur sá flokkur sig eins og svo margir aðrir inni á miðjunni. Ekki hefur enn komið fram nákvæmlega hver skoðanaágreiningur er á milli flokks Sigmundar Davíðs og Framsóknarflokksins heldur snýst sá ágreiningur að mestu leyti um persónur og samstarf. Eða öllu heldur skortur á hinu síðarnefnda.

Kosningabaráttan hefur farið heldur rólega af stað hvað málefnin varðar. Allir eru þó sammála um að stöðugleika skorti en allir eru þeir ósammála um það hvernig stöðugleiki næst. En kjósendur eiga betra skilið en flokkarnir séu einungis að metast um það hver njóti mest trausts. Traust er eitthvað sem þú vinnur þér inn, ekki eitthvað sem þú lýsir því yfir að þú njótir.

Fjárlagafrumvarp var lagt fram fyrr í haust þótt lítið hafi farið fyrir því. Þar voru gjöld hækkuð en afgangurinn átti samkvæmt útreikningum að verða um 44 milljarðar króna. Hins vegar sprakk ríkisstjórnin svo hratt að ekki skapaðist nein málefnaleg umræða um það hvar ágreiningurinn væri. Vinstriflokkarnir lögðu til að auka skatta á hina efnameiri, en það er allt og sumt. Nú í vikunni hefur komið í ljós að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætluðu sér ekki að styðja fjárlagafrumvarpið í þeirri mynd sem það var lagt fram. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt enda átti frumvarpið eftir að fá þinglega meðferð. Það væri samt sterkt innlegg í umræðuna ef það kæmi fram sem allra fyrst hverju þeir voru ósammála í frumvarpinu. Þá er það líka mikilvægt að stjórnarandstaðan tilkynni það með skýrari hætti hverju þeir eru ósammála í fjárlagafrumvarpinu. Þetta eru allt upplýsingar sem almenningur þarf að fá áður en kosið er.

Stjórnmálin hafa vissulega verið í pattstöðu frá síðustu kosningum. Um það er ekki deilt. En þess vegna eru kosningar gott tækifæri fyrir einstaklinga og flokka að leggja til skýrar tillögur um það hvernig þeir vilja sjá samfélagið þróast. Þess vegna skaut það skökku við þegar margir þingmenn gagnrýndu Pawel Bartoszek og þingmenn Viðreisnar sem lögðu fram frumvarp um lögleiðingu fíkniefna skömmu fyrir þinglok.

Gagnrýnin gekk út á það að þetta væri ekki rétti tíminn til að ræða slík mál. Slíkur málflutningur er einmitt vandamálið við stjórnmálin í dag. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að taka á málefnum þeirra sem neyta eiturlyfja. Fleiri flokkar segjast styðja afglæpavæðingu sem reynst hefur vel annars staðar. Það er ekkert skrýtið að frumvarp Pawels hafi vakið sterk viðbrögð enda gekk frumvarpið talsvert lengra en flestir á Íslandi vilja.

Staðreyndin er samt sem áður sú að Pawel er að tala fyrir úrræði sem varðar viðkvæmasta hópinn í samfélaginu okkar. Sjúklingar, fíklar og í sumum tilfellum ungt fólk sem hefur fallið af þeirri beinu braut sem samfélagið kallar lífið sjálft. Hvers vegna má ekki taka umræðu um þá viðkvæmustu í samfélaginu okkar þegar stutt er til kosninga? Er til réttur eða rangur tími til að leggja fram hugmyndir um úrræði til handa þessum hópi? Á síðasta kjörtímabili var stofnuð nefnd sem átti að kanna möguleika á afglæpavæðingu fíkniefna. En nú vegna óstöðugleika og persónuerja á Alþingi eru þessu mál í biðstöðu á meðan stjórnmálamenn keppast um að kalla sig handhafa stöðugleikans. Status quo í þessum málaflokki er einfaldlega ekki boðlegt handa þessum hópi sem þarf á aðstoð og fleiri úrræðum að halda. Ef einhverjir eru mótfallnir lögleiðingu fíkniefna, og það er að sjálfsögðu í góðu lagi, þá eiga þeir að geta fært málefnaleg rök gegn lögleiðingunni.

Úrræði handa þeim sem þurfa á þeim að halda

Kosningar eiga sem fyrr segir að snúast um málefni. Eitt allra óumdeildasta hlutverk ríkisins er að veita þeim úrræði sem mest þurfa á því að halda. Það var því ekki skemmtileg lesning á mbl.is í vikunni þar sem sögð var frétt af tveimur fötluðum 16 ára drengjum sem hvergi fengu skólavist í framhaldsskóla í haust, þar sem starfsbrautirnar sem henta þeim eru fullar.

Hér hefur eitthvað alvarlegt gerst. Tveir einstaklingar sem mest af öllum framhaldsskólanemendum á landinu þurfa úrræði við þeirra hæfi fengu það ekki. Hvar kreppir skóinn? Hvar er svigrúmið í stjórnsýslunni svo lítið að ekki var hægt að kippa þessu í lag fyrir lifandi löngu síðan? Þetta þarf að laga. Hvort sem lausnin felst í því að finna peninga fyrir þessi úrræði á öðrum stöðum, nú eða líta til þess 44 milljarða afgangs sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.