Um áfengi og aðgengi

eftir Björn Már Ólafsson

Margir eru ósammála áfengisfrumvarpinu sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi í enn eitt skiptið. Þannig hefur það verið í hvert einasta skipti sem frumvarpið hefur verið lagt fram.

Mjög gróflega má skipta andstæðingum frumvarpsins í tvo flokka. Annars vegar þá sem af hugmyndafræðilegum og/eða lýðheilsufræðilegum sjónarmiðum vilja ekki afnema ríkiseinokun á áfengissölu og fjölga útsölustöðum.

Hinn hópurinn er sá hópur sem af pragmatískum ástæðum vill viðhalda núverandi ástandi. Þessi hópur er sáttur við það lága verð á ýmsum dýrum vínum sem Vínbúðin býður upp á og telur, hvort sem fólk sé sammála því eða ekki, að þjónusta við vínunnendur muni minnka ef áfengi verður selt í matvöruverslunum.

Hvor hópurinn um sig hefur auðvitað rétt á sinni skoðun. Og sameinuð andstaða þessara hópa hefur hingað til komið í veg fyrir að áfengisfrumvarp hafi hlotið brautargengi á Íslandi. Hvor hópurinn um sig tekur þátt í umræðunni um frumvarpið á sínum forsendum og auðgar hana.

Það sem hins vegar auðgar umræðuna ekki eru popúlistar. Einstaklingar og sérstaklega þingmenn nokkrir hafa séð sér leik á borði að verða hetjur í augum beggja þessara hópa. Ef markmiðið er sameiginlegt og nógu stór hópur er ósammála, þá get ég alið á andstöðunni og öðlast persónulegar vinsældir.

Skýrasta dæmið um þetta birtist í þingræðu frá síðasta löggjafarþingi þegar þingmaður sagðist vera andvígur frumvarpinu þar sem rannsóknir benda til þess að aukið aðgengi leiði til aukinnar neyslu. Þá vísar þingmaðurinn í máli sínu í tvígang í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um aðgerðir í áfengismálum og hvernig megi takmarka aðgengi að áfengi.

Samt tekst sama þingmanni í sömu þingræðu að færa sannfærandi rök gegn eigin málsstað þegar hann fer að tala um verðlagningu. Þingmaðurinn nefnir það að líklega muni verð hækka ef matvöruverslanir fá að selja áfengi. og að margir hafi áhyggjur af því að verð muni hækka, hann þar með talinn. „Nei, ég sé ekki neitt vandamál í því að koma við í sérverslun ÁTVR þegar ég vil kaupa vín enda er úrvalið ljómandi gott, álagningin hófleg og þjónustan góð,” segir þingmaðurinn.

Í sömu skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og hann nefndi örfáum andardráttum áður má finna sérstaka umfjöllun um verð á áfengi. Kemur þar fram að verðlagning sé mikilvægur þáttur í aðgengi á áfengi. Hærra verð dregur úr aðgengi að áfengi og þar með drykkju. Þeim sem er svo annt um að takmarka aðgengi að áfengi og að fylgja fyrirmælum Health 2020 skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar getur varla notað það sem rök gegn frumvarpinu að verð muni hækka. Hækkun á verði er þvert á móti það sem lagt er til.

Í andsvari sínu örfáum mínútum síðar lætur hann síðan eftirfarandi ummæli falla: „Ég held að þetta muni því miður hafa þær afleiðingar að úrvalið muni minnka, álagningin aukast en heildarsala á vínanda aukast.”

Ef þingmenn ætla í ræðum sínum að vísa í víðamiklar skýrslur og rannsóknir, og leggja mikið upp úr framsetningu og röksemdafærslu, þá væri það óskandi að framsetningin yrði sanngjörn. Að velja sér rök sem henta hverju sinni er popúlismi, hvað sem tautar og raular.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.