Uber über alles?

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Það verður að viðurkennast að leigubílaþjónustan sem veitt er á Íslandi er frekar glötuð. Eiginlega bara mjög glötuð. Ég áttaði mig á því hversu glötuð hún er þegar ég þurfti að taka leigubíl í útlöndum.

„Forðastu þá svörtu“

Ég bjó í Lundúnum í tæpt ár. Þar reiddi ég mig á tvo jafnfljóta og lestarkerfið, þó það hafi einstaka sinnum komið fyrir að ég þyrfti að nota þjónustu leigubíla. Það fyrsta sem var sagt við mig þegar ég mætti á svæðið var að ég ætti að „forðast þá svörtu“ – þ.e. leigubílana. Þeir væru mikið dýrari en aðrir valkostir, t.d. Uber og Lyft, og sem námsmaður hefði ég einfaldlega ekki efni á því að setjast upp í þá bíla, í það minnsta ekki til lengdar.

Það fyrsta sem ég gerði því þegar ég var búinn að tengja mig inn á WiFi-ið í kytrunni minni var að sækja snjallsímaforritið Uber, og það kom mér mjög á óvart hversu einfalt og þægilegt viðmótið var – í raun andstæðan við þjónustulundina, ef þjónustulund mætti kalla, sem mætir manni þegar hringt er eftir leigubíl á Íslandi, og maður þarf nánast að biðjast afsökunar á því að vera trufla einstaklinginn á hinum enda línunnar.

Heim á leið 

Þegar förinni var haldið heim á ný burðaðist ég með tvær níðþungar ferðatöskur út á gangstétt og reif upp símann. Ég hafði ekki þurft að panta mér bíl fyrirfram og vonast eftir því að hann kæmi ekki of snemma eða of seint. Þvert á móti smellti ég á appið og sá fljótlega að í næstu götu var fimm stjörnu bíll, þ.e. bílstjóri sem hefur fengið fullt hús stiga af öllum þeim farþegum sem hann hefur ekið. Á innan við þremur mínútum frá því að ég hafði tekið upp símann voru töskurnar komnar í skottið á bílnum og við á leið á Heathrow-flugvöllinn, þaðan sem ég átti flug nokkrum klukkustundum síðar.

Þegar ferðin var bókuð, þ.e. frá útidyrahurðinni minni og alla leið á Heathrow, sá ég hversu mikið ég myndi borga fyrir herlegheitin. Ég þurfti því ekki að fylgjast með mælinum fara sífellt hækkandi eins og á mælaborði leigubílstjórans, sérstaklega í ljósi þess að ég þekki götur Lundúna nákvæmlega ekki neitt og viðkomandi hefði þ.a.l. getað hringsólað með mig svo klukkustundum skipti.

Það fór vel á okkur bílstjóranum, sem reyndi hvað hann gat til að gera ferðina mína sem þægilegasta, enda stjörnugjöf í húfi hjá viðkomandi. Hvatinn var því til staðar fyrir hann að standa sig vel. Í það minnsta myndi ég tæplega gefa honum góða einkunn ef hann stundaði glannaakstur, talaði í síma undir stýri eða annað sýndi aðra hegðun sem ætti ekki að líðast.

Þessi tæplega klukkustundartúr kostaði mig svo rúmlega fjögur þúsund krónur. Ég velti vöngum hversu langt ég kæmist fyrir þann pening frá miðbæ Reykjavíkur. Mögulega að Reykjavíkurflugvelli og til baka? Ég ætti í það minnsta ekki mikinn afgang eftir þá ferð, jafnvel þó ég yrði heppinn með götuljósin.

Úr Uber í þarfasta þjóninn

Eins og Snorri Sigurðsson benti á í pistli á Rómi kallaði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leigubílstjóra „þörfustu þjónanna“. Ég tengi núll við þessi orð Ásmundar.

Þegar ég loks lenti á Íslandi eftir flugið frá Lundúnum var klukkan að ganga miðnætti. Ég var kominn á umferðarmiðstöð BSÍ rétt eftir klukkan eitt og tók þá við biðin endalausa eftir leigubíl. „Allir okkar bílar eru á leiðinni,“ sagði þreytuleg rödd í símann þegar við vorum í þann mund að ljúka okkar þriðja símtali þá nóttina. Þá hafði ég beðið í þrjú korter og orðinn ansi þreyttur eftir langt ferðalag, og gramur yfir hægaganginum – sérstaklega í ljósi þess hversu einfalt allt hefði verið örfáum klukkustundum áður.

Það kom svo að því, rúmlega klukkustund eftir að mætti á BSÍ, að ég fékk far, en það var einungis fyrir góðmennsku eldri hjóna sem sáu að ég var alveg búinn á því á líkama og sál, og þar sem við vorum að fara svipaða leið kunnu þau ekki við annað en að leyfa mér að fljóta með.

Annars væri ég mögulega þarna enn.

Betur má ef duga skal

Viðskiptablaðið greindi frá því í árslok 2014 að Uber ynni að því að hefja starfsemi í Reykjavík, en að tveimur árum liðnum sagði Vísir frá því að það væri takmörkunin á útgefnum leigubílaleyfum á Íslandi sem stæði í vegi fyrir því að Uber hefði hér starfsemi.

Eftir að hafa staðið í stað í tæp fimmtán ár á nú að fjölga leigubílaleyfunum og það um heil 90 á höfuðborgarsvæðinu, en eigi Uber að líta til Íslands þarf að afnema þau með öllu. Það má engu að síður velta fyrir sér hver reiknaði það út að á meðan landsmönnum hefur fjölgað um 17% og ferðamönnum um 460% frá árinu 2003 eru 90 leigubílaleyfi hinn fullkomni fjöldi koma markaðnum í jafnvægi, eins og Davíð Þorláksson benti á í grein í Viðskiptablaðinu.

Betur má ef duga skal. Réttast væri auðvitað að afnema fjöldatakmörkunina, eins og margir hafa bent á, t.d. fyrrnefndur Davíð sem og Sigurður Tómasson í nýlegum pistli á Rómi.

Über alles?

Uber er þó langt frá því að standa öllu öðru framar (þ. über alles) en fyrirtækið hefur víða valdið usla eins og Hallgrímur Oddsson nefnir í áhugaverðum pistli á Kjarnanum. Sömuleiðis má velta fyrir sér skilaboðunum sem fyrirtækið sendi frá sér þegar það ákvað að hætta með þjónustu sína í Danmörku eftir að ríkisstjórnin þar í landi setti lög sem voru Uber þvert um geð. Það er alveg augljóst að fyrirtækið vill vera við stjórnvölinn.

Innkoma Uber hér á landi myndi ég þó telja að væri af hinu góða, enda hinn almenni borgari sem nýtur góðs af. Þá er ég alveg handviss um það að ferðir myndu bæði aukast um heilan helling, svona í ljósi þess að fargjaldið væri ekki einungis á færi okkar allra færustu verðbréfabraskara, sem og að færri einstaklingar myndu aka undir áhrifum áfengis, enda get ég vel ímyndað mér að það svíði að borga vel á tíunda þúsund fyrir leigubíl heim úr bænum eftir einn eða tvo bjóra, og eiga þá eftir að sækja eigin bíl daginn eftir.

Áðurnefndur Hallgrímur smellhitti naglann á höfuðið í pistli sínum og geri ég lokaorð hans að mínum: „Stjórnvöld eiga að sjá tækifærin í samgöngumálum en ekki standa í vegi fyrir framförum, sem felast í fleiri leyfum og betri tækni með Uber eða sambærilegum fyrirtækjum. Slíkar breytingar myndu styðja verulega við bætt almenningssamgöngukerfi og hagkvæmari ferðavenjur.“

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.