Tyggigúmmí og björtu hliðarnar

eftir Arnór Bragi Elvarsson

Tyggigúmmí er skemmtilegt orð sem lýsir skemmtilegri þó tilgangslausri vöru: Krítarhvítir koddar sem mýkjast í munni, en eru nógu deigir til þess að endast tímunum saman á meðan manni leiðist. Er ég sit fyrir framan sjónvarpið tyggjandi sama tyggigúmmíið síðastliðna tvo tíma er sama auglýsingin sýnd allavega þrisvar. Ljóshærð kona brosir til mín og lætur glitta í svo hvítar tennur að þær brjóta alla skala bylgjulengdar náttúrulegs ljóss. Þessi tyggjóauglýsing eflir traust mitt til tyggjósins í munni mínum sem var einu sinni með myntubragði.

Það er engin myntulykt í röðinni við kassann í Bónus. Ég stari á símann og sendi pabba smáskilaboð hvað hann ætli að elda í kvöld. Það er matarboð. Öll fjölskyldan verður þar, og líka bróðir minn. Hann átti alltaf tyggjó þegar ég var yngri. Verandi níu árum eldri réttlætti hann það að hann átti rétt á tveimur stykkjum af tyggigúmmíi, á meðan ég þurfti að sætta mig við eitt. Enn þann dag í dag afþakka ég það að fá tvö stykki. Eitt stykki nægir, sama hve oft hann býður mér. Sjálfur á ég aldrei tyggjó, en ef ég ætti tyggjópakka veit ég ekki hvort ég myndi bjóða honum tvö og fá mér svo bara eitt sjálfur.

Röðin er komin að mér á kassanum. Ég lít upp, sting símanum í vasann, afþakka poka því ég kom með minn eigin og borga. Tyggjópakkinn sem stóð í hillunni við kassann var skilinn eftir ósnertur. Hann fangaði aldrei athygli mína. Ætli hann fangi athygli nokkurs lengur? Titringur. Það verður lambalæri í matinn.

Síðan snjallsíminn kom á markað 2007 hefur tyggjó þurft að berjast harðar við það að fá athygli við kassann. Verslunarkúnnar með hálsríg virðast uppteknari við að lesa kómískar greinar á netinu frekar en að líta upp, aktíft hunsa tyggjópakkann sem hrópar á mann að kaupa sig eða jafnvel líta á afgreiðslufólkið til þess eins að brosa. Eins og stelpan í auglýsingunni. Þess í stað fær tyggjópakkinn aldrei athyglina sem hann svo þráir.

Sala á tyggigúmmíi hrapaði um 19% á bilinu 2007-2016. Erfitt er að sanna orsakasamhengi á milli tilveru snjallsíma og sölu á tyggigúmmíi, en víst er að fólk virðist annars hugar við afgreiðslukassann. Það virðist vera að tyggjópakkar eru sjaldnar gripnir með af tækifærissinnuðum kúnna sem dreymir helst um hvítt bros.

Kaffihús. Einfaldur latte og tvöfaldur espressó. Ég borga. Ég rakst á hana við Pylsuvagninn í Laugardal. Hún var nýkomin úr sundi með úfið hár en ég var bara að fá mér þriðjudags-pulluna. Ég sagði henni samt að ég væri að fara í sund. Mér fannst að annað hefði verið vandræðalegt. Ég fékk númerið hennar og lofaði að láta heyra í mér.

Hún birtir mynd af latte-listinni á Instagram. #njóta. Hún tekur tyggjóið út úr sér og setur á undirskálina og fær sér sopa. Varaliturinn festist á hvítum postulínsbollanum og rósin sem kaffibarþjónninn teiknaði listilega er afmynduð. Við tölum um kaffi þar til hún segir mér frá því hvar hún ólst upp. Verandi borgarbarn hafði ég aldrei áður komið til Fjarðabyggðar. Á meðan hún segir mér frá, dregur hún upp símann, og virðir eitthvað fyrir sér. Líklega hafði myndin sankað að sér lækum. Ég held áfram að tala og segja frá sumarferðinni til Evrópu. „Spennandi!“ fullyrðir hún, en augnsamband hennar fylgir ekki. Ég var ekki viss hvort væri meira spennandi; ég eða Instragram-saga vinkonu hennar.

Eins og tyggjópakki – sama hvað ég segi, er mér aldrei veitt óskipt athygli hennar.

Pabbi sker í lærið, hreykinn af því hvernig honum tókst. Ég spyr hvað mamma og pabbi hafi talað um á sínu fyrsta stefnumóti. Áður en pabbi náði að handlanga lærissneiðina hafði ég afrekað að opna öskju pandóru – ég fékk að heyra sömu sögu sem ég hef þegar heyrt þrettánhundruð sinnum. Á meðan situr systir mín í símanum mér við hlið og sendir snapp til vinkvenna sinna með fegrunarfilter. Pabbi skammtar sér grænar Ora-baunir og segir frá því sem fangaði strax athygli hans við mömmu: himinbláu augun hennar. Hinu megin á landinu, veit Instagram-stelpan frá Austfjörðum sem ég hitti á Pylsuvagninum á þriðjudegi örugglega ekki hvort ég sé með freknur eða ekki.

Það kann að vera að við horfum aftur til „betri“ tíma, þegar auðveldara var að fanga athygli fólks, áður en snjallsíminn setti upp Berlínarmúr milli mælanda og hlustanda. Við getum þó huggað okkur við það, að á þessari nýju tækniöld eyðum við minni pening í óþarfa hluti, eins og tyggigúmmí.

Arnór Bragi Elvarsson

Pistlahöfundur

Arnór Bragi er samgönguverkfræðingur með áhuga á sjálfakandi bifreiðum og innviðum.

Arnór hefur óþarflega mikinn áhuga á kaffigerð.