Tvöfalda grunnskólakerfið

eftir Gylfi Þór Sigurðsson

Ég hef lengi verið mikill áhugamaður um stærðfræði og stærðfræðikennslu. Þó ég sé ekki einn af þeim sem óska sér að allir væru snillingar í stærðfræði, þá tel ég samt stærðfræði vera hagnýtt nám á marga vegu. Sjálfur kenni ég nokkrum nemendum reglulega aukatíma í stærðfræði en einnig hef ég starfað sem forfallakennari í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Því miður, er það mín upplifun að gæði stærðfræðináms á unglingastigi hafi orðið fyrir talsverðum skakkaföllum. Fyrst og fremst ber þar að nefna val á námsefni. Fyrir tíu árum voru kenndar bækur í 8. – 10. bekk sem heita Almenn Stærðfræði I, II & III, eftir sænska höfunda. Þessar bækur voru í almennri notkun þangað til árið 2006 þegar byrjað var að skipta þeim út fyrir bækurnar Átta Tíu eftir Guðbjörgu Pálsdóttur og Guðný Helgu Gunnarsdóttir.

Þessar íslensku bækur eru, svo ekki sé meira sagt, róttæk breyting frá því sem áður var. Myndarleg dæmasöfn og sýnisdæmi hafa horfið og orðadæmin nú oft illskiljanleg. Nemendur eiga því oft erfitt með að vinna sjálfsætt og detta því margir aftur úr. Hugmyndafræðin á bak við bækurnar Átta Tíu er sú að nemendurnir eiga að finna upp aðferðinar sjálfir og finna þar af leiðandi upp hjólið í hverju dæmi.  Með öðrum orðum átti sér stað hér, mjög róttæk breyting á kennsluháttum í stærðfræði. Kennsluhættirnir miðast við kenningar sem eru langt frá því að vera óumdeildar. Það mætti því segja að íslenskir nemendur hafi verið gerðir að tilraunadýrum án þess að vita almennilega af því.

Borgað tvisvar fyrir námið

Skólarnir hafa mjög takmarkað val á námsefni í stærðfræði á unglingastigi. Með ákveðnum reglum eru skólarnir þvingaðir til þess að versla nánast allt sitt námsefni af Menntamálastofnun sem býr yfir takmörkuðu úrvali af námsbókum. Ef foreldrar eru ósáttir við það námsefni sem kennt er í grunnskólum landsins hafa þeir fá úrræði því allir skólar kenna jú sama námsefni. Eftir að hafa rætt við þónokkra foreldra, upplifi ég stöðuna þannig að algengt sé að þeir treysti ekki stærðfræðikennslunni í grunnskólum. Ég finn það á eigin skinni hversu margar fyrirspurnir ég og fleiri í þessum geira fá, frá foreldrum sem hafa áhyggjur og vilja kaupa sér viðbótarstærðfræðikennslu fyrir börnin sín. Viðbótarkennsla á borð við þessa er kostnaðarsöm fyrir fjölskyldur og því ekki á færi allra að geta sótt slíka kennslu. Uppi stöndum við því með tvöfalt menntakerfi sem er bæði kostnaðarsamt og aðeins til staðar fyrir lítinn hluta nemenda.

Gerum skólana sjálfstæðari

Eflaust eru einhverjir sáttir við núverandi kennslubækur en margir eru ósáttir. Eftir að hafa séð hversu margir kennarar og foreldar eru ósáttir við það námsefni sem nú er kennt set ég stórt spurningamerki við núverandi kerfi.  

Væri ekki eðlilegra að skólarnir og kennararnir hefðu meira sjálfstæði um það hvernig málum er hagað hjá sér. Ef allir skólar kenna sama námsefnið þá munu koma upp óánægju raddir meðal kennara og foreldra því óneitanlega passa ekki allir í sama skóinn.

Á meðan foreldrar eru ósáttir munu sumir þeirra finna leiðir til kaupa þá kennslu sem hentar betur en miðstýrða kerfið. Með auknu frelsi og sjálfstæði grunnskóla væri fjölbreytni í kennsluháttum og námsefni. Kennarar gætu kennt eins og þeim best hentar og foreldrar væru vissir um að barnið þeirra fengi þá kennslu sem barnið þarfnast. Að minnsta kosti hefðu foreldrar þá einhverja leið til að tjá óhamingju sína, væru þeir ekki sáttir við gæði námsins sem barnið þeirra fær í skólanum.
#FrelsiTilGrunnskóla

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Gylfi Þór Sigurðsson

Pistlahöfundur

Gylfi Þór er hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands en starfar núna hjá tryggingarfélagi. Áhugamál hans eru félagsstörf, ferðalög og líkamsrækt.