Tvö strik í námsmannaíbúð

eftir Kristófer Már Maronsson

Tvö strik birtast á þungunarprófi. Tilfinningarússíbani fer af stað. Eitt stærsta augnablik ævinnar er framundan. “Höfum við efni á því að eignast barn núna?” er ekki fyrsta spurningin sem á að vakna í huga foreldra – en ég held því miður að það gerist oft. Því fagna ég nýju frumvarpi sem Eygló Harðardóttir hefur lagt fram til umsagnar, sem felst í því að fyrstu 300 þúsund krónur meðallauna verði óskertar til fæðingarorlofs, hámarkið verði hækkað í 600 þúsund krónur á mánuði og að fæðingarorlof lengist úr níu mánuðum í tólf. Fólk á að gleðjast yfir því að verða foreldrar og taka á móti barni í heiminn. Ekki að kvíða fyrir vinnumissi. En hvað með námsmenn? Hvaða stemning er í barnasturtu sem haldin er á Stúdentagörðunum?

Fjársveltir foreldrar

Fæðingarstyrkur fyrir námsmenn í 75-100% námi í 6 mánuði af síðustu 12 fyrir fæðingardag barns er 153.131 krónur. Þessum námsmönnum gefst ekki kostur á að fá orlof fyrir þá vinnu sem er unnin samhliða námi, geri þeir slíkt. Þessu verður að breyta! Hvers vegna á að refsa námsmönnum sem vinna með námi, ef þeir eignast barn? 153.131 króna á mánuði er alls ekki nóg fyrir námsmenn sem eignast barn. Námsmenn eru oftast eignalítið og ungt fólk sem er að sækja sér menntun fyrir framtíðina. Ríkið ætti að hlúa að þeim. Því ekki er gefins að eignast barn.  Við eigum að styrkja námsmenn í fæðingarorlofi hafi þeir eignast barn á meðan námi stendur, svo þeir hafi efni á því að snúa aftur í nám þegar fæðingarorlofið er liðið. Því legg ég til að fæðingarstyrkur verði hækkaður í að minnsta kosti 300.000 krónur, vísitölutengt. Það má áætla að námsmaður væri að vinna sér inn fyrir sambærilegri fjárhæð væri hann ekki í námi. Einnig er eðlileg krafa að hægt verði að fá fæðingarstyrk og fæðingarorlof vegna vinnu með námi, hafi námsmaður skilað fullnægjandi námsframvindu og unnið með – það á að launa honum vinnuna, ekki refsa honum fyrir hana.

Barn gerir þig aftur að námsmanni

Ég get ekki betur séð en að það sé hola í núverandi fæðingarorlofskerfi. Hola sem á að fylla upp í. Nokkuð sem er ekki gert í frumvarpi Eyglóar. Námsmenn sem komast að því að kríli sé á leiðinni seint í námi, geta lent í óréttlæti. Námsstyrkur reiknast eingöngu af síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingardag barns, þá lenda námsmenn í því að ef þeir eru á útskriftarönn sinni þegar upp kemst um þungun, að námsstyrkurinn er ekki fyrir þá. Þá líta þeir til vinnu, en fæðingarorlof vegna vinnu reiknast á öðru tímabili. Meðallaunin sem tekin eru inn í fæðingarorlof byrja að reiknast 18 mánuðum fyrir fæðingardag barns, en þeim lýkur 6 mánuðum fyrir fæðingu. Námsmenn sem vænta barns 6-9 mánuðum eftir útskriftarönn sína, lenda í vandræðum því þeir hafa líklega ekki unnið mikið með námi. Ekki nóg til þess fá viðunandi tekjur.

Tökum dæmi. Námsmenn taka á móti barni þann 15. febrúar 2017. Þá munu foreldrarnir ekki hljóta fæðingarstyrk námsmanna hafi þeir útskrifast að vori 2016, þar sem að þeir eru bara í námi í 3 af síðustu 12 mánuðum – nema með undantekningu. Lítum þá á meðallaunin sem reiknast, það er; fyrir ágúst 2015 til og með júlí 2016. Það má áætla að námsmaður hafi fengið tekjur fyrir 2-3 vikur í ágúst 2015, sem og hálfan maí mánuð 2016 og fyrir fulla vinnu í júní og júlí, sem gerir þrjá mánuði. Heildarlaun þessa þriggja vinnumánaða er svo deilt með tólf og geri ég ráð fyrir að það verði lág upphæð. Líklegast er að þessir foreldrar, sem eru nýkomnir úr námi, fái einungis fæðingarstyrk námsmanna þrátt fyrir að tekjur á vinnumarkaði fram að fæðingu gætu verið tvöfalt, þrefalt eða fjórfalt hærri. Eðlilegt er að foreldri á vinnumarkaði fái uppbót á tekjum sínum þar, en sé ekki gerður aftur að fátækum námsmanni við barneign. 

Legg ég því til að undantekningunni í lögum verði breytt fyrir verðandi foreldra sem lenda í slíkum aðstæðum. Tillagan er sú að meðallaun frá útskrift að fæðingardegi barns, verði metin – þó að lágmarki 4 mánuðir. Mæður verða oft óvinnufærar þegar stóra stundin nálgast og því ekki hægt að áætla að þær vinni fram á síðasta dag. Þannig gætu nýútskrifaðir foreldrar fengið raunvirði þess fæðingarorlofs sem þau hefðu fengið ef barnið kæmi ári seinna – enda má búast við því að laun séu talsvert hærri en fæðingarstyrkur námsmanna, eftir að nemendur útskrifast.

Eftir áramót

Þá stendur í frumvarpi Eyglóar “Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2017 eða síðar, sbr. þó 15. gr.”

Legg ég til að þessu verði breytt og lögin muni gilda um allar fæðingarorlofsgreiðslur frá og með 1. janúar 2017, óháð því hvenær barnið hefur fæðst. Ég get ímyndað mér að ef það verði ekki gert, þá verði ansi mikil pressa á foreldrum að reyna að seinka fæðingu, ef dagsetning er rétt fyrir áramót. Því það verður foreldrum mikið hagstæðara að eignast börn eftir áramót eins og lögin eru orðuð. Það á ekki að vera fjárhagsleg kvöð að eignast barn, en það getur skipt sköpum fyrir fólk sem á von á barni hvort það komi í heiminn fyrir eða eftir áramót, verði þessu ekki breytt.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.