Tveir nýir Landspítalar á þriggja ára fresti

eftir Ásgeir Friðrik Heimisson

Á Íslandi er við lýði flókið og umfangsmikið styrkjakerfi sem lögfest var með búvörulögunum árið 1993. Kerfinu er ætlað til að stuðla að framförum í íslenskri búvöruframleiðslu, auka samkeppnishæfni landbúnaðar og miða að því að bændur hér á landi búi ekki við lakari starfskilyrði en almennt gerist í nágrannalöndum. Niðurstaðan er hins vegar sú að búvörulögin kostuðu ríki, neytendur og skattgreiðendur um 35 milljarða einungis á árinu 2014.

Þetta er sóun á fjármagni sem gæti farið í að styðja við grunnstoðir í samfélaginu, eins og að byggja nýja spítala. Til samanburðar hefur verið áætlað að nýr Landspítali muni kosta 50,5 milljarða, sem eru um 17 mánuðir af núverandi landbúnaðarkerfi.

1-AFH-graf-1Heimild: OECD (2015): Agricultural Policies in OECD Countries at a Glance og Ríkisreikningar.

 

Hægt er að taka kostnað þessara miklu markaðsinngripa hins opinbera saman í fjóra liði: Umframkostnað neytenda, allratap, kostnað opinbers fjármagns og beinan stuðning ríkisins við landbúnað. Skoðum þessa liði.

Rúmar 200 þúsund krónur á hvert heimili á hverju ári

Afurðaverð frá bændum hér á landi var mun hærra en heimsmarkaðsverð árið 2014 að mati OECD. Til dæmis var afurðaverð frá bændum á mjólkurvörum u.þ.b. tvöfalt hærra hér á landi en að jafnaði ef innflutningur væri frjáls og heimsmarkaðsverð fengi að ráða. Samtals voru búvörur hér á landi um 68% dýrari frá bændum en á heimsmarkaði. Fjárhæð innflutningsverndar ræðst fyrst og fremst af muninum á framleiðslukostnaði hér og erlendis, mikill mismunur á afurðaverði frá bændum er ein af fjölmörgum vísbendingum um óhagræði í framleiðslu búvara hér á landi.

Árið 2014 seldu íslenskir bændur afurðir fyrir um 37 ma.kr. á bændaverði, sem miðast við verð vörunnar þegar hún fer frá býli, en ofan á það leggst kostnaður við vinnslu í afurðastöðum, flutning innanlands og smásölu. Sama framleiðsla hefði kostað um 22 ma.kr. ef hún hefði verið keypt af bændum á heimsmarkaðsverði og flutt inn, að mati OECD. Af þessu má draga þá ályktun að stuðningur ríkisins hafi kostað neytendur 15 ma.kr. á árinu 2014. Eða með öðrum orðum: umframkostnaður neytenda var 15 milljarðar króna.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands eyddi meðalheimilið um 771 þús.kr. í matarkaup árið 2014 og þar af um 310 þús.kr. í mjólkur- og kjötafurðir. Gróflega má áætla að ef vikið væri frá núverandi fyrirkomulagi og tollvernd afnumin myndi meðalfjölskyldan spara um 122 þús.kr. í matarinnkaupum árlega, að teknu tilliti til kostnaðar sem yrði lagður á við dreifingu og smásölu. Þetta þýðir að útgjöld til matarinnkaupa myndu lækka um liðlega 19%, ef miðað er við matarkörfuna eins og hún var árið 2014.

2-AFH-graf-2

Heimild: OECD, Hagstofa Íslands.

Beinn stuðningur frá skattgreiðendum

Árið 2014 lét ríkið 14,6 ma.kr af hendi rakna til bænda. Þetta jafngildir u.þ.b. 81 þús.kr aukaálögum á hvert heimili í formi skatta og opinberra gjalda til að halda atvinnugreininni í núverandi mynd. Fjárstuðningur ríkis við bændur mælist nú u.þ.b. 1,1% af landsframleiðslu og hefur dregist saman um frá því að vera u.þ.b. 5% af landsframleiðslu árið 1986 skv. OECD. Því ber að fagna að þessum tölum fer lækkandi en þó er langt í land. Á meðal landa OECD er fjárstuðningur hins opinbera með því hæsta hér á landi. Einnig hefur ekkert dregist úr stuðningi hins opinbera á raunvirði heldur þvert á móti. Beinar yfirfærslur til bænda hafa aukist um 8% síðan fyrstu ár búvörulaga eða frá 1993-94 til dagsins í dag, skv. tölum OECD.

Flestir útreikningar sýna fram á að í núverandi mynd er greinin mjög óhagkvæm. Óhagkvæmni landbúnaðar hér á landi má fyrst og fremst rekja til hinna umfangsmiklu styrkja sem greinin nýtur, sem eyða hvatanum til hagræðingar og nýsköpunar með því að takmarka bæði erlenda samkeppni og innlenda. Í annarri grein fer ég ítarlegar yfir óhagkvæmni greinarinnar, þátt stjórnvalda í kerfinu og hversu alvarlegt fyrirkomulagið er fyrir þegna þjóðarinnar og iðnaðinn.

Allratap og kostnaður opinbers fjármagns

Fyrirkomulag búvörulaga leiðir einnig af sér svokallað allratap, eða sóun, í framleiðslu og neyslu sem minnkar heildarhag samfélagsins. Til að meta allratapið notast ég við líkan frá Daða Má Kristóferssyni (2009) til útreikninga.

Hægt er að skipta allratapinu upp í allratap í framleiðslu sem kemur fram í umframframleiðslu framleiðenda vegna hærra afurðaverðs og allratap í neyslu sem kemur fram í tapaðri neyslu af hálfu neytenda.

Sem fyrr segir þá leiðir og hvetur núverandi kerfi til mikillar umframframleiðslu. Mest er hún í fuglakjötsframleiðslu og var framleitt 2,6 sinnum meira magn af fuglakjöti árið 2014 en hefði verið við heimsmarkaðsverð. Vegna þess að verð er hærra á Íslandi var fyrir vikið neysla á fuglakjöti 64% minni árið 2014. Árið 2014 var framleiðsla mjólkurvara einnig 17% meiri en hagkvæmt hefði verið miðað við heimsmarkaðsverð og var neyslan 3% minni árið 2014. Svipaða sögu má segja í sauðfjárrækt.

Vegna umfangsmikilla tilfærslna í landbúnaðarkerfinu frá skattgreiðendum til bænda verður einnig að taka tillit til kostnað opinbers fjármagns þegar meta á þjóðhagslegan kostnað kerfisins, þ.e. kostnað ríkisins við að afla skatttekna. Niðurstöður Daða Más sem byggðar voru á mati OECD sýndu fram á að kostnaður þess nemi um 16% af heildartekjuöflun ríkisins til styrkjanna, sem er um 2 ma. kr.

Alls nam þjóðhagslegur kostnaður 5,8 ma.kr árið 2014, þ.e. um 4 ma.kr í allratap og um 2 ma.kr í kostnað opinbers fjármagns. Þegar þessir fjórir liðir eru taldir saman má því meta að heildarkostnaður ríkis, neytenda og skattgreiðenda af íslenska landbúnaðarkerfinu hafi verið um 35 ma. króna árið 2014.

Austurríski hagfræðingurinn F.A. Hayek komst einu sinni svo að orði: „Hið forvitnilega viðfangsefni hagfræðinnar er að sýna mönnum fram á hversu lítið þeir vita í raun um það sem þeir telja sig geta hannað.” Með öðrum orðum, mjög erfitt er að hanna miðstýrð kerfi sem bæta hag fólks umfram þær útkomur sem óheftur markaðsbúskapur skilar. Búvörulögin svokölluðu eru mjög gott dæmi um slíkt, þau eru gerð með hag neytenda í huga en lokaniðurstaða þeirra er ekki sú að bæta hag samfélagsins.

Þjóðhagslegur kostnaður vegna íslenska landbúnaðarkerfisins er umtalsverður eins og hér hefur verið rakið. Kostnaðurinn er þó aðeins brot af heildarkostnaði sem hlýst af aðgerðum stjórnvalda en eins og bent hefur verið á leiðir kerfið til offramleiðslu á vörum sem við höfum ekki hlutfallslega yfirburði í að framleiða. Það væri að öllum líkindum betra fyrir hag jafnt bænda sem neytenda að flytja inn matvæli frá þeim sem eru betur til þess fallnir að framleiða búvörur í stað þess að framleiða vörur sem við getum ekki gert á hagkvæman hátt.

Ítarlegri grein um málefnið mun birtast í Hjálmum tímariti hagfræðinema við Háskóla Íslands þann 18. feb en blaðið fer í dreifingu með Viðskiptablaðinu. Þessi pistill var unninn úr skýrslu höfundar: Hagræn skoðun á íslenskum landbúnaði. Verðmætasköpun, þjóðhagslegt mikilvægi og útlistun á tækifærum til úrbóta

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Ásgeir Friðrik Heimisson

Pistlahöfundur

Ásgeir Friðrik stundar meistaranám í hagfræði við University of Warwick í Bretlandi. Ásgeir Friðrik starfaði áður sem hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Samtökum atvinnulífsins, en hann útskrifaðist úr Háskóla Íslands vorið 2015 með BSc í hagfræði. Einnig sinnti hann stundakennslu í hagfræði við HR og HÍ þegar hann starfaði hjá Hagfræðistofnun HÍ. Þá var hann einnig ritstjóri Hjálma, tímarits hagfræðinema við HÍ.