Tvær þjóðir í einu landi?

eftir Alexander Freyr Einarsson

Því ber að fagna að á Íslandi virðast flestir hafa sterka skoðun á því hvernig samfélagi þeir vilja búa í. Kosningaþátttaka í síðustu fjórum Alþingiskosningum hefur verið yfir 80 prósentum og er það merki um virkt lýðræði hér á landi. Eftir örfáa daga fær fólk tækifæri til að leggja sitt á vogarskálarnar þegar kemur að framtíðarvegferð Íslands með atkvæði sínu í Alþingiskosningum og ljóst er að niðurstaðan kemur til með að hafa gríðarleg áhrif á samfélagið næstu ár og jafnvel áratugi.

Sjaldan virðast Íslendingar hafa verið jafn klofnir í afstöðu sinni til samfélagsmála ef marka má skoðanakannanir undanfarinna vikna. Fylgið dreifist á marga flokka og útlit er fyrir að starfandi ríkisstjórn muni ekki halda velli í núverandi mynd þrátt fyrir mikinn uppgang efnahagslífsins síðustu ár. Enda er það réttur hvers og eins að leggja sjálfstætt mat á það hversu mikinn eða lítinn þátt stjórnarflokkarnir eiga í góðu árferði dagsins í dag.

Bellibrögð eða misskilningur?

Leikáætlun margra núverandi stjórnarandstöðuflokka í kosningabaráttu sinni virðist vera sú að reyna að kljúfa þjóðina í annars vegar fámennan hóp stórefnaðra einstaklinga og hins vegar hinn almúgann. Líkt og í kommúnistaávarpi Karl Marx er áhersla lögð á að lífskjör almennings séu mun verri en þau ættu að vera á meðan örfáir græði á tá og fingri. Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, skrifaði á dögunum grein í Kjarnann um ójöfnuð á Íslandi þar sem hún fullyrti að 527 milljarðar af þeirri hreinu eign sem til hefur orðið frá árinu 2010 hafi runnið til þeirra tíu prósent Íslendinga sem eiga mest, eða 26 milljónir króna á hvern einstakling. Talnaglöggur einstaklingur að nafni Gunnar Jörgen Viggósson rýndi í tölurnar og komst að því að þær eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Því er hér í besta falli um afar illa framkvæmda útreikninga (hjá fyrrum fjármálaráðherra) að ræða og í versta falli vísvitandi afvegaleiðingu.

Sömuleiðis benti pistlahöfundurinn Óðinn í Viðskiptablaðinu á hvernig sannleikurinn hefur verið beygður til að draga upp ýkta mynd af ójöfnuði á Íslandi. Óðinn er langt frá því að vera óumdeildur en erfitt er að andmæla staðreyndum sem hann varpar fram í pistli sínum. Hann bendir m.a. á að Gini-stuðullinn, viðurkenndur alþjóðlegur mælikvarði á jöfnuð, var lægri hér á landi árið 2015 en 2013. Lægri Gini-stuðull þýðir að jöfnuður er meiri. Sömuleiðis er stuðullinn lægri á Íslandi heldur en á öllum hinum Norðurlöndunum, velferðarsamfélögunum sem við viljum svo gjarna bera okkur saman við.

Tímabundið þýðir tímabundið

Önnur leið sem farin hefur verið til að vekja tortryggni í íslensku samfélagi er sú fullyrðing að stjórnvöld hafi lagt meira upp úr því að bæta kjör þeirra efnameiri heldur en almennings. Óttar Proppé, Oddný Harðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og fleiri hafa öll lagt áherslu á að minna almenning á hvernig núverandi ríkisstjórn ákvað að afnema hinn svokallaða auðlegðarskatt, þeim ríku til hagsbóta. Hér er einnig um afvegaleiðingu að ræða þar sem reynt er að skauta framhjá þeirri staðreynd að auðlegðarskattur átti alltaf að vera tímabundinn. Er lög um þennan sérstaka skatt voru sett sagði „á framtalsskyldar eignir skv. 72. gr. í lok áranna 2009, 2010 og 2011 skal við álagningu 2010, 2011, 2012 og 2013 leggja auðlegðarskatt…“. Ríkisstjórn Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar gaf ekkert í skyn sem benti til þess að árin 2014, 2015 og 2016 ætti að leggja auðlegðarskatt. Ekki er hægt að neita því að auðlegðarskatturinn var vissulega ekki framlengdur, en líkt og margoft hefur verið bent á, t.d. í ítarlegri greiningu staðreyndarvaktar Kjarnans, var hann neyðarúrræði sem einungis átti að beita í örfá ár. Enda sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, auðlegðarskattinn klárlega vera „neyðarbrauð og ekki skattafyrirkomulag sem við viljum hafa viðvarandi. Með honum er leitað til þeirra sem eru efnaðastir í samfélagi okkar og þeir fengnir til að leggja sérstaklega af mörkum tímabundið í erfiðu árferði“. Nú er hins vegar látið sem stjórnarflokkarnir hafi einir og sér ákveðið að gera betur við ríka fólkið með því að breyta ekki upphaflegu fyrirkomulagi skattsins sem fyrri ríkisstjórn setti í lög.

Sannarlega má deila um siðferðislegt réttmæti slíkrar skattheimtu þrátt fyrir að dómstólar hafi metið hana lögmæta á sínum tíma. Mögulega var þessi tiltekna útfærsla eignarnáms dæmd lögleg einmitt vegna þess að hún var tímabundin í afar erfiðum og óvenjulegum aðstæðum. Nú vilja hins vegar ákveðnir stjórnmálaflokkar endurvekja þessa skattheimtu þrátt fyrir að efnahagsleg staða samfélagsins hafi sjaldan ef nokkurn tíma verið betri. Allar forsendurnar fyrir auðlegðarskattnum líkt og hann var settur fram á sínum tíma eru brostnar. Tilgangur endurupptekins skatts virðist vera sá að „leiðrétta ójöfnuð með skattheimtu“ líkt og einhverjir frambjóðendur hafa orðað þetta, að millifæra fé frá þeim efnameiri til þeirra efnaminni. Þessi hugmynd byggir á því að hér sé til staðar einhver grundvallar ósanngirni í kerfinu. Þegar stjórnmálamenn eru farnir að skálda tölur og halda því fram gegn betri vitund að núverandi stjórnvöld séu að breyta leiknum í þágu hinna ríku til að afvegaleiða kjósendur veltir maður því fyrir sér hversu ósanngjarnt kerfið er í raun og veru. Í leiðinni er verið að gera lítið úr sannarlega raunverulegum og grafalvarlegum lýðræðishalla sem finnst víða um heim þar sem spilling ræður ríkjum og meirihluti íbúa býr við kúgun og ofríki. Ef stjórnmálamenn vilja raunverulega meina að ástandið sé jafn alvarlegt hér og í þessum löndum ber þeim skylda á að sanna þær fullyrðingar með staðreyndum.

Kirsuberjatínsla gerir engum gott

Auðvitað ber kjörnum fulltrúum almennings á þingi að tryggja sanngjarnt samfélag. Það er hins vegar vissulega þannig að það sem einum þykir sanngjarnt kann öðrum að þykja ósanngjarnt. Mörgum þykir fyrirkomulag sjávarútvegsins í núverandi mynd vera ósanngjarnt á meðan aðrir telja að um sé að ræða réttlátt kerfi sem skilar samfélaginu í heild sinni mun meiri arði en þekkist annars staðar. Kristinn Ingi Jónsson færði mjög sterk rök fyrir því síðarnefnda í pistli á þessum miðli á dögunum en sannarlega hafa háværar raddir heyrst úr hinni áttinni. Hins vegar hafa þeir sem krefjast þess að sjávarútveginum verði umbreytt lagt mikið upp úr því að ala á tortryggni í garð greinarinnar en láta það gjarna ósagt hversu mikil verðmæti hún skapar fyrir samfélagið og hversu skilvirku kerfi hefur verið komið á laggirnar. Gjarna er látið sem örfáir sægreifar séu með það í hendi sér að græða svo gott sem áhættulausa milljarða á kostnað þjóðarinnar. Sjaldnar er minnst á það að kvótinn hafi að nær öllu leyti skipt um hendur á markaðsvirði frá því að honum var úthlutað til að byrja með, vissulega hefði enginn kvótaeigandi látið kvótann frá sér án þess að fá sem allra mest fyrir hann. Þeir sem keyptu kvótann dýrum dómum gerðu það auðvitað í þeirri trú að þeir væru að kaupa réttindi til að veiða fisk og hafa fjárfest og rekið fyrirtæki sín í samræmi við það.

Staðreyndin er sú að stjórnmálamenn virðast ítrekað beita svokallaðri „kirsuberjatínslu“ (e. cherry picking) til að koma málstað sínum á framfæri og í sumum tilfellum virðist tilgangurinn gagngert vera sá að ala á tortryggni. Ekki þykist ég geta fullyrt að á Íslandi sé allt eins sanngjarnt og það getur orðið og færa má rök fyrir því að stjórnvöld hafi mátt gera betur til að auka heildarvelferð samfélagsins á kjörtímabilinu sem nú fer að ljúka. Hins vegar ber stjórnmálamönnum skylda til að segja satt og rétt frá í kosningabaráttu sinni og leyfa kjósendum að gera upp hug sinn á réttum forsendum. Líkt og áðurnefndur pistlahöfundur Óðinn segir, þá getur verið erfitt fyrir stjórnarandstæðinga að taka þátt í kosningabaráttu í góðæri. Miðað við hversu duglegir þeir eru að lofa þjóðinni gulli og grænum skógum er lágmark að þeir séu heiðarlegir. Stjórnarflokkarnir þurfa einnig að vera heiðarlegir og átta sig á því að þeir geta enn gert betur á ýmsum sviðum. Sama hversu ólíkar hugmyndir fólk hefur um bætt samfélag eiga allir það skilið að stjórnmálamenn segi þeim satt.

Alexander Freyr Einarsson

Pistlahöfundur

Alexander Freyr er MFin frá Massachusetts Institute of Technology og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann býr í New York þar sem hann starfar í fjárfestingarbanka. Áður starfaði hann hjá Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við Endurreisn” ásamt Dr. Ásgeiri Jónssyni. Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín.