Trúarbrögð í tafli

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Trúarbrögð hafa verið mér, líkt og mörgum öðrum, hugleikin um allnokkurt skeið. Svo hugleikin raunar að á meðan ég stundaði nám við Háskóla Íslands skráði ég mig í áfanga sem snéri einungis að trúarbrögðum og þrátt fyrir að hafa stundað áfangann af mikilli kostgæfni, lesið ógrynni bóka, fræðigreina og smásagna, fann ég ekki svör við tilvist trúarbragða í nútímasamfélögum: Hvað gerir það að verkum að einstaklingar leita til óskilgreinds æðra máttarvalds sem hafið er yfir öll rök?

Sjálfur er ég ekki trúaður, þá hvorki á æðri máttarvöld né á líf eftir dauðann, og finnst mér trúarbrögð, eins falleg og þau sannarlega eru, einkennast af rökleysu og lái mér það hver sem vill.

Breski mannfræðingurinn Edward Tylor sagði að trúarbrögð væru tilraun mannsins til að gera umhverfi sínu rökleg skil. Hér áður fyrr tel ég að trúarbrögð hafi getað gefið svör við ósanngjörnum og óskiljanlegum raunum lífsins ásamt spurningum um tilvist mannsins og hlutverki hans á jörðinni. Nú á dögum vitum við að lífið er ekki dans á rósum og viljum við vaxa og þroskast í átökum við erfiðleika tilverunnar, í stað þess að líða í gegnum það áreynslulaus, en engu erum við orðin nær um hlutverk okkar hér á móður jörð, og þá hvort það sé nokkuð yfir höfuð.

Segja má að Karl Marx hafi verið á svipuðum slóðum og Edward Tylor, en hann taldi trúarbrögð lítið frábrugðin ópíum. Rétt eins og eiturlyfið væru trúarbrögðin til þess fallin að deyfa þjáningar heimsins. Ég er ekki kyndilberi hugmyndafræðar Karl Marx, en þarna tel ég hann hafa nokkuð til síns máls. Þeir einstaklingar sem geta ekki tekist á við eigin vandamál geta leitað á náðir æðra máttarvalds og sett öll sín egg í þeirra körfu; varpað áhyggjum sínum á herðar trúarinnar. Og þá skiptir engu máli hvort eggin brotni öll eður ei, þar sem „vegir guðs eru órannsakanlegir.“

Þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche var svo heldur ómyrkur í máli þegar hann hélt því einfaldlega fram að guð væri dauður. Fullyrðingu hans er ég þó ósammála, enda getur það ekki dáið sem aldrei hefur verið til.

Mér þótti það því jákvæð þróun þegar ég las að í fyrsta sinn trúa engin íslensk ungmenni, tuttugu og fimm ára og yngri, að guð hafi skapað heiminn og greinilegt að rökunum vex fiskur um hrygg, á kostnað rökleysunnar. Þykir mér könnunin bera þess merki að gagnrýnin hugsun og sjálfstæðar skoðanir séu að færast í aukana, sem er mikið fagnaðarefni.

Ég tek þó alls ekki svo djúpt í árinni að segja að ekkert gott hafi hlotist með trúarbrögðum, enda sjálfur forfallinn aðdáandi trúboðastellingarinnar.

 

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson. 

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.